Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 16:53:50 (5622)

1996-05-03 16:53:50# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[16:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er oftúlkun á orðum mínum og ég sagði það aldrei að þess sæi í engu stað að húsnæði sem byggt var fyrr á öldinni sem heimavistarhúsnæði fullnægði ekki kröfum nútímans sem hótelherbergi. Að sjálfsögðu gerir það það. Það er alveg augljóst mál. Héraðsskólarnir hans Jónasar frá Hriflu byggðir um 1930 eru að sjálfsögðu ekki með baði inni á herbergjunum og minibar. Það liggur alveg í hlutarins eðli og vita allir menn enda var ekki til þess ætlast á þeim tíma og sú tíska ekki uppi. En í þeim tilvikum á seinni árum sem menn hafa beinlínis gert ráð fyrir nýtingu heimavistarhúsnæðis sem sumarhótela hafa þau vandamál verið leyst. Ég þekki mörg dæmi þess þar sem það hefur verið gert prýðilega. Þá var það ekkert vandamál að ríkið greiddi þann kostnað að fullu. Ég get nefnt Hvanneyri og mörg önnur slík. En það var bara ekki í öllum tilvikum og því breytum því að sjálfsögðu ekki. Ég fullyrði þar af leiðandi að gagnvart framtíðinni verður þetta ekki vandamál. Þó að ríkið haldi áfram að greiða samkvæmt normi kostnaðinn við heimavistir að fullu eru engin vandamál samfara því að gera þá betur í því húsnæði ef menn vilja það en reyndar tel ég að kröfur nútímans til heimavistarherbergja séu í grófum dráttum að verða þær að það fullnægi alveg kröfum til venjulegra gististaða. Ég á ekki von á því að menn fari að byggja heimavistir með herbergjum þar sem ekki er baðaðstaða á herbergjum. Jafnvel þó að menn kynnu að hafa einhvern skilning eða samúð með þessu sjónarmiði hv. þm. mega menn ekki missa marks á hinu að út úr því komi ekki mismunun milli sveitarfélaga. Að sveitarfélög sem standa fyrir skólahaldinu fari þá ekki að gjalda þess að þessar þarfir ferðaþjónustunnar eru hafðar í huga. Ég held að við þurfum, herra forseti, að hafa a.m.k. hvort tveggja í huga.