Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:29:24 (5628)

1996-05-03 17:29:24# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:29]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. menntmrh. að það var nokkuð rætt um kostnaðarskiptingu í þessu frv. En ég er honum ekki sammála um að það hafi verið lítið rætt um hinn þátt frv., kannski meginefnið sem er menntunin sjálf. Ég held að það hafi farið fram býsna ítarleg umræða um það og býsna góð. Ég er honum því ekki sammála um það. En eðlilega var vikið að kostnaðarþættinum og það sem ég vil undirstrika hér enn og aftur er að ég finn að því við hæstv. ráðherra að ekki skyldu hafa verið teknir upp samningar við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin um þessa ákvörðun ráðherrans um breytt kostnaðarskipti. Auðvitað á að gera það áður en frv. verður samþykkt. Það er það sem ég finn að.

[17:30]

Hæstv. ráðherra talar einnig um að það þurfi að hvetja til samstarfs milli minni skóla og að ráðuneytið flokki ekki skóla í fyrsta og annars flokks skóla. Það er allt saman hárrétt. Það er einmitt, hæstv. ráðherra, það sem ég var að gagnrýna. Í því bréfi sem hér er skrifað og ég vitnaði til er verið að gera það, hæstv. ráðherra. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að standa þarna og hrista höfuðið við þessum setningum. Ég verð bara að lesa það enn og aftur sem er skrifað í hans ráðuneyti. Þar stendur:

,,Af ýmsum er því haldið fram að nemendur sem koma frá litlum skólum hafi ekki hlotið jafngóðan undirbúning til áframhaldandi náms og þeir nemendur sem stunda nám við stærri og öflugri skóla.``

Þetta eru órökstuddar fullyrðingar og það stendur ekkert á bak við þær, hæstv. ráðherra, ekki neitt. Þess vegna þýðir ekkert að hrista höfuðið yfir því. Þarna er einmitt verið að tala um þennan mismun. Það er verið að læða því inn að ákveðnir skólar séu verri en aðrir. Það er einmitt það sem verið er að gera. Og það þarf að finna stað fyrir því, hæstv. ráðherra.

Það kom einnig fram í máli ráðherrans --- (Forseti hringir.) Já ég geymi mér það og nýti mér mínútuna til að víkja að þeim þætti.