Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:34:39 (5631)

1996-05-03 17:34:39# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:34]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé ekki hægt að setja fram alhæfingar af þessu tagi og draga þá ályktun af því að skólar velji nemendur, að það sé ekki jafnrétti til náms. Auðvitað komast ekki allir nemendur í sama skólann. Það er alveg ljóst. Við munum aldrei byggja svo stóran skóla að allir geti sest á skólabekk í sama húsinu. Skólarnir eru byggðir upp mismunandi eins og við vitum og síðan geta nemendur valið á milli. En skólarnir verða líka að hafa færi á því að gera sínar kröfur. Það held ég að sé nauðsynlegt og það hefur sýnt sig að þeir skólar sem þannig starfa og hafa tök á því að starfa þannig eru síður en svo slæmir skólar. Þetta eykur metnað en er ekki til þess að draga úr. Ég held að með þeirri fjölbreytni sem yrði sköpuð í okkar skólakerfi með frv. eigi allir að geta fengið að stunda nám við sitt hæfi. Eins og kom fram í máli hv. formanns nefndarinnar er í frv. sett öryggisnet, fleiri en eitt, fyrir þá sem eru lakast settir miðað við árangur og hvernig staða þeirra er í skólakerfinu.