Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:35:51 (5632)

1996-05-03 17:35:51# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:35]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ótækt að þessari miklu umræðu sem farið hefur fram um kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga í heimavistum ljúki án þess að það sé leiðrétt sem mér finnst að hafi komið fram bæði hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni og eins hjá hæstv. ráðherranum og þá með tilvitnun í skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri, þ.e. þá rangfærslu að það vanti ekki heimavistarhúsnæði á Akureyri. Menntaskólinn á Akureyri er með heimavistarhúsnæði. Ég þekki það sem fyrrverandi kennari nemenda sem voru að fara í framhaldsskóla að það þótti jafnast á við happdrættisvinning ef nemendur fengu inni í heimavistinni. Hinir urðu að fara á leigumarkaðinn. Það er alveg sama þótt hann sé stór, það sækist enginn eftir því að senda 16 eða 17 ára gamlan ungling sem er að byrja í framhaldssóla, sem er átak út af fyrir sig, á leigumarkað. Hann þarf ekki bara að byrja í nýjum skóla, í nýjum hópi. Hann þarf líka að takast á við að búa einn. Ég held að það séu fáir foreldrar sem óska börnum sínum þeirra kjara. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að það sem hæstv. ráðherra gefur fyrirheit um að gera, sé gert, þ.e. að það sé kannað rækilega hvar þörf er á heimavistum. Ég mæli með því að það séu ekki einungis skólameistarar sem verði spurðir heldur verði sveitarstjórnirnar spurðar og foreldrarnir vegna þess að þar held ég að hæstv. ráðherrann fái réttu svörin. Ég tel að það megi vel athuga að sveitarfélögin taki þátt í kostnaði við byggingu heimavista ekki síst vegna þess að þar brennur á. Ef sveitarfélögin vilja hafa frumkvæði varðandi byggingu heimavista þá er þeim það auðvitað ljóst að lykillinn að því frumkvæði liggur í gegnum kostnaðarþátttökuna. Á meðan ríkið er eitt um kostnaðinn eru sveitarfélögin í verri aðstöðu til að knýja á um málið. Það þekkjum við sem höfum starfað innan þessa kerfis þar sem samstarf ríkis og sveitarfélaga er eða hefur verið eins mikið og það er varðandi ýmsar framkvæmdir.