Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:43:15 (5636)

1996-05-03 17:43:15# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:43]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það mátti ekki skilja orð mín um flutning Þroskaþjálfaskóla Íslands í sjómannaskólahúsið á þann veg að það væri verið að flytja sjómenn út úr húsinu. Það er verið að nýta húsið betur. Húsnæði sem húsvörður hefur búið í verður breytt í skrifstofur og síðan verður unnt að nýta stofur sem þar losna undir Þroskaþjálfaskólann. Ég held að þetta sé mjög skynsamleg hagræðing og alls ekki neinn áfellisdómur yfir því starfi sem fer fram í Sjómannaskólanum. Mér finnst því leiðinlegt ef hv. þm. tekur þetta eins og þroskaþjálfanemar séu að reka stýrimenn og vélstjóra út úr þessu skólahúsi. Svo er alls ekki. Það er verið að fullnýta húsið þannig að betur verði um Þroskaþjálfaskólann búið. Hagræðing verður þá í rekstri ríkisins sem er okkur öllum kappsmál.