Umboðsmaður aldraðra

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:58:00 (5641)

1996-05-03 17:58:00# 120. lþ. 130.8 fundur 359. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:58]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að hluta til get ég þakkað það sem hér hefur verið sagt, í annan stað eru mér lögð orð í munn og í þriðja lagi eru hér nokkur atriði sem ég held að sé nauðsynlegt að fara yfir og ég geri það í fljótheitum.

Í fyrsta lagi varðandi afnám tvísköttunar þá var búið var að boða að þau 15% yrðu þrepuð niður sem frá væru dregin eftir að kæmi til útborgunar vegna lífeyrissjóðsins. Það var hins vegar krafa Alþýðusambandsins að þau 4% sem greidd eru inn í lífeyrissjóði yrðu skattfrjáls. Í viðtölum mínum við fjmrh. lýsir hann því svo að það hafi verið krafa Alþýðusambandsins við gerð síðustu kjarasamninga að þessu yrði hrint fram.

Varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra man ég ekki betur en það hafi verið í ríkisstjórn sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir tók þátt í að fyrstu skref inn í Framkvæmdasjóð aldraðra voru af þáv. heilbr.- og trmrh. Guðmundi Bjarnasyni. Ég man ekki betur en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafi átt þar einhvern hlut að máli. En fortíðin skiptir ekki máli í þessu. Hvers vegna ég legg þetta fram í hendur ríkisstjórnarinnar er kannski pólitík en ég tel að það sé eðlilegt að þetta mál fái umfjöllun í heilbr.- og trn. Hér var spurt af hverju ég legði ekki til að það yrðu fleiri sem mundu njóta þess umboðs, t.d. öryrkjar og af hverju ég hefði ekki tiltekið þá. Þetta mál hefur legið nokkuð lengi hér frammi. Þingmönnum var kunnugt um það og ef hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mælir svo heilt sem hún vill láta þá hefði það verið minnsta mál fyrir hana að koma með frv. um umboðsmann öryrkja. En í stuttu máli þá þakka ég fyrir að hún vill að ég standi sér við hlið. En mér fyndist að sem flutningsmaður frv. væri eðlilegt að hún stæði mér við hlið við að koma málinu áfram.