Umboðsmaður aldraðra

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 18:00:24 (5642)

1996-05-03 18:00:24# 120. lþ. 130.8 fundur 359. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[18:00]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði búist við því að hv. flm. tæki því meira fagnandi hversu vel ég styð við bakið á honum í þessu máli. Það vakti athygli mína að hv. þm. talaði um tvísköttunina og af hverju tvísköttunin hefði verið sett á aftur og hv. þm. talar um að það hafi verið að kröfu ASÍ. Hvenær byrjaði ríkisstjórnin að fara eftir því sem ASÍ segir? Við höfum í marga mánuði fjallað um kröfu ASÍ um að taka út af borðinu skerðingarfrumvörp um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem ríkisstjórnin er að breyta samskiptareglum á vinnumarkaði í fullkominni andstöðu við verkalýðshreyfinguna og það er krafa ASÍ að þau frv. verði tekin út af borðinu. Ef það á að fara svona mikið eftir því sem ASÍ segir þá ætti hv. þm. að vera samkvæmur sjálfum sér og berjast fyrir því að þessi frv. yrðu tekin út af borðinu.

Það er allt of mikið um það í þessum þingsal að sjálfstæðismenn, sem hafa forustu fyrir ríkisstjórninni, telja sig hvítþvegna í hverju málinu á fætur öðru og blessaðir framsóknarmennirnir í ríkisstjórninni eru sakaðir aftur og aftur um þessa aðför. Síðan koma þeir eins og hvítþvegnir í ræðustól eins og hv. síðasti ræðumaður og flytur tillögu um umboðsmann aldraðra til þess að það sé nú til embætti til þess að verja hagsmuni aldraðra. En ég vænti þess, herra forseti, að við hv. þm. getum rætt saman um framhaldið á þessum málum og hvernig þessu verður fylgt eftir.