Umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 15:47:25 (5658)

1996-05-06 15:47:25# 120. lþ. 131.93 fundur 285#B umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[15:47]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það þurfti að segja mér það tvisvar að hæstv. umhvrh. hefði hafnað því að láta fara fram umhverfismat vegna stækkunar fiskmjölsverksmiðjunnar í Örfirisey. Mig undrar þessi afgreiðsla stórlega. Valdið er vissulega hans þar sem ekki er um fortakslausa skyldu að ræða samkvæmt lögum um umhverfismat og það er náttúrlega umhugsunarefni út af fyrir sig. En með tilliti til allra aðstæðna hefði ég talið sjálfsagt og í hæsta máta eðlilegt að verða við óskum stjórnvalda í Reykjavíkurborg um umhverfismat. Það er nánast, verð ég að segja, herra forseti, dónaskapur að afgreiða málið, ósk þeirra, á þennan hátt.

Við erum að tala um fyrirtæki sem upphaflega voru ákaflega deildar meiningar um svo sem eðlilegt er með fyrirtæki þessarar gerðar nánast steinsnar frá hjarta höfuðborgar landsins. Það fór af stað með tímabundið leyfi til framleiðslu fiskimjöls að hámarki um 120 tonn á sólarhring. Það er mála sannast að fyrirtækið hefur staðið sig ágætlega. Starfsemi þess hefur ekki orðið tilefni til mikilla kvartana og ekki sætt ýkja mikilli gagnrýni.

Nú hefur það gerst sem ýmsir óttuðust að þessi tiltölulega umfangslitla starfsemi yrði ekki látin duga, heldur yrði sótt á um aukin umsvif --- og það munaði ekki um það þegar að því kom. Ætlunin er að fimmfalda starfsemina, hvorki meira né minna, auk þess sem breyting verður á samsetningu hráefnis. Hér er því um mjög miklar breytingar að ræða á starfsemi verksmiðjunnar. Og það er athyglisvert að Hollustuvernd ríkisins hefur tekið undir óskir og sjónarmið heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar um að fram fari umhverfismat og telur frekari rannsókna þörf, sem t.d. gætu falist í mati á umhverfisáhrifum, áður en hægt sé að fullyrða með nokkurri vissu hvort og hversu mikið hætta aukist á lyktarmengun vegna þessara breytinga.

Ég verð að segja það, herra forseti, í fyrsta lagi að ég hef aldrei getað skilið af hverju þessi rekstur var leyfður á sínum tíma á þessum stað og í öðru lagi að hversu vel sem er staðið að mengunarvörnum er afar erfitt að útiloka lyktarmengun.

Því miður, herra forseti, er tími minn búinn. Ég hefði gjarnan viljað koma fleiru að en ég skora á hæstv. umhvrh. að endurskoða afstöðu sína.