Umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 15:57:24 (5662)

1996-05-06 15:57:24# 120. lþ. 131.93 fundur 285#B umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[15:57]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson orðaði það svo að það væri hart ef hv. þm. þyldu ekki lengur að finna lykt af undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Örlögin hafa kosið mér og örfjölskyldu minni bústað í skjóli tankveggjanna. Svo vel hefur tekist til um mengunarvarnir frá þessari verksmiðju að stundum hef ég saknað þess að finna ekki þennan umrædda ilm.

Herra forseti. Ég get sagt það alveg eins og hv. þm. Geir H. Haarde áðan. Ég bý þarna í næsta nágrenni og verð að segja það að mengunarvarnirnar hafa tekist umfram allt það sem menn væntu. Ég verð aldrei var við nokkra lykt frá þessari verksmiðju og verð ekki var við að nágrannar mínir kvarti undan henni heldur. Ég held að þarna sé um að ræða mikla framför frá því sem áður var því þarna var ansi mikil lyktarmengun áður fyrr.

Nú stendur til að auka framleiðsluna um nánast fimmfalt og það er auðvitað eðlilegt að menn óttist það. Sá ótti er studdur ákveðnum rökum sem koma fram í bréfi frá Hollustuvernd ríkisins til heilbrigðisnefndarinnar. Þar kemur fram að reynsla af fiskmjölsverksmiðjum með lykteyðingarbúnað af svipuðum gæðum og fyrirhugað er að nota í Örfirisey er misjöfn. Það segir líka að það sé ekki hægt að draga einhlítar ályktanir af reynslu á þessum búnaði hérlendis. Þar segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Ekki er hægt að fullyrða án frekari rannsókna sem t.d. geta falist í mati á umhverfisáhrifum, hversu hætta á lyktarmengun eykst við stækkun verksmiðjunnar.`` Nú er mér alveg ljóst að samkvæmt mengunarvarnareglugerð og þeim starfsskilyrðum sem Hollustuvernd er búin, þá getur hún ef hún telur nauðsynlegt krafist frekari rannsókna á afleiðingum stækkunarinnar. Ég óttast ekki afleiðingar þessarar stækkunar, herra forseti. En ég hefði talið að til þess að skapa frið um þetta mál, þá hefði verið betra að hæstv. umhvrh. hefði farið þá leið að setja þetta í umhverfismat. Ég tel að hann geti það enn þá og í anda þess friðar sem jafnan ríkir í vesturbænum og hefur ríkt um þessa verksmiðju, þá tel ég að það væri farsælast úr því sem komið er.