Mannanöfn

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:21:47 (5671)

1996-05-06 16:21:47# 120. lþ. 131.3 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:21]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi alveg eins og er að ég tel að hvað sem líður aðdraganda málsins sé ljóst að Hagstofan, sem á að framkvæma hluta af þessu máli, hefur ekki verið höfð með í ráðum sem skyldi. Það er ekki ég sem segi það, það er Hagstofan sem segir það. Yfirmaður þessara mála í Hagstofu Íslands, ráðuneyti hæstv. forsrh., fullyrðir að Hagstofan hafi ekki komið nægilega að málinu. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Hagstofan átti ekki aðild að nefndinni sem samdi frv. Nefndin [þ.e. þingnefndin] fór eftir sumum athugasemdum Hagstofunnar en öðrum ekki. Þess sér lítinn stað í greinargerð frv. hver sjónarmið Hagstofunnar voru í mörgum greinum og rök hennar eru lítt tíunduð þar.`` Síðan segir hér: ,,Hagstofan var því ekki spurð álits hvernig þær veigamiklu breytingar á nafnahefðum þjóðarinnar, sem frv. nú gerir ráð fyrir, gætu reynst í framkvæmd. Þetta er bagalegt því að flest sem snýr að framkvæmd mannanafnalaga kemur með einhverjum hætti til kasta Hagstofunnar. Ef frv. verður óbreytt að lögum nú í vor yrði margt í framkvæmd Hagstofunnar brotakennt og fæli í sér afturför frá því sem nú er.``

Hver skrifar undir þetta? F.h.r. Hvað þýðir f.h.r.? Fyrir hönd ráðherra. Hver er ráðherrann? Hann er Davíð Oddsson þannig að hér eru ekki ómagaorð á ferðinni, hæstv. forseti. Vil ég leyfa mér að taka upp hanskann fyrir hæstv. forsrh. í þessu máli.