Mannanöfn

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:25:33 (5674)

1996-05-06 16:25:33# 120. lþ. 131.3 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:25]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ólíkt þeim sem síðastur talaði, hv. þm. Svavari Gestssyni, þá fagna ég því að nú sér loks fyrir endann á umræðu um mannanöfn að þessu sinni og lög verða væntanlega sett alveg á næstunni um mannanöfn, vonandi lög sem geta gilt um nokkra tíð. Hitt er annað mál að við ljúkum aldrei umræðu um mannanöfn endanlega.

Ég byrja á að svara nokkrum atriðum frá hv. þm. Svavari Gestssyni. Það er varðandi Hagstofu Íslands. Sá aðili, sem skráir nöfn, á ekki að ákveða hvaða nöfn séu góð og gild. Hagstofa Íslands hefur áhyggjur af sínum hlut. Það er eðlilegt og réttmætt að taka mið af því og virða þær áhyggjur og reyna að lina þær, líka með samstarfi og samráði eins og gert er ráð fyrir í brtt. hv. þm. Svavars Gestssonar. En nefndin sem verður skipuð á einmitt að fylgjast með og ég trúi því að hún muni ekki skirrast við að gefa upplýsingar þegar fram líða stundir.

Hitt vil ég segja að hv. þm. Svavari Gestssyni hefur tekist betur að seiða upplýsingar út úr Hagstofu Íslands en t.d. hv. allshn. og það er atriði út af fyrir sig. Allshn. varð ekki svona vel ágengt. Ég vil geta þess líka að umboðsmaður Alþingis tók upp að eigin frumkvæði þetta með skráningu íslenskra nafna hjá Hagstofu Íslands og fann að því hvernig Hagstofa Íslands skráði nöfn og forsrh. hefur aðspurður í þinginu sagt að sú góða stofa, Hagstofa Íslands, þyrfti að breyta kerfi sínu til að geta skráð nöfn fullum stöfum en þangað til það yrði gert væri nauðsynlegt að sett yrði reglugerð um skráningu nafna.

Ég hef lesið með athygli ýmsar þær greinar sem hafa komið fram í blöðum undanfarið því að hér er athyglisvert mál og varðar miklu. Ég er sammála hv. þm. Svavari Gestssyni í því að nafngiftir eru einnig menningarmál og taka reyndar til margra þátta í menningu okkar Íslendinga. En þetta er eins og með gamlar byggingar að við þurfum að varðveita þær en það er ekki þar með sagt að ekki megi líka byggja nýjar byggingar. Það væri slæmt ef við tækjum ákvörðun um það að nú mætti aðeins byggja í þeim stíl sem hingað til hefur verið byggt og ekkert þróað áfram. Stýrið yrði bara sett fast. Nú skuluð þið bara hafa þetta nákvæmlega svona. Þetta var gert með lögunum 1991. Það var tekið fyrir frekari þróun íslenska nafnasiðarins.

Ég vil einnig geta þess sem oft hefur komið fram varðandi þá félaga Skjarp og Skunnar sem við frumvarpshöfundar tókum í greinargerð til þess að sýna fram á stafarunur sem þyrfti að gæta að. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. frv. bendum við á að í íslensku máli er í rauninni ekki eðlismunur á nýjum aðlöguðum tökunöfnum og merkingarlausum stafarunum sem geta lotið íslenskum málfræðireglum og má þar t.d. taka Skunnar. Við teljum að þetta muni vart koma að sök. Ríkjandi smekkur veldur því að litlar sem engar líkur eru á því að stafarunur af þessu tagi verði teknar upp sem eiginnöfn. Ýmsir hafa orðið til að lýsa áhyggjum sínum vegna þessa, bæði hér á þinginu og utan þess, og því tel ég eðlilegt að fara um þetta nokkrum orðum.

[16:30]

Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama og er ástæða til að benda á þetta ákvæði í 3. mgr. 5. gr. Merkingarlaus stafaruna eins og Skunnar getur því varla komið til. Ef svo ólíklega vildi til að einhver óskaði eftir því nafni eða einhverju áþekku, þá kemur amaákvæðið til með að hindra slíka nafngift. Í athugasemdum við 3. mgr. 5. gr. segir að eðlilegt sé að beita ákvæðinu þegar merking nafns er neikvæð eða óvirðuleg og ég vek athygli á þessu: óvirðuleg. Þegar alls er gætt sýnist þetta þó óþarflega varkár og þröng túlkun á málsgreininni. Við hefðum getað sagt þetta samkvæmt frv. hljóðan og það er óhætt að beita örlítið víðari túlkun á þann veg að telja verði ama af nafni ef það er óvirðulegt eða niðrandi að merkingu eða á einhvern annan hátt.

Það liggur í innsta eðli nafna að þau eiga sér rætur í einhverju tungumáli og þar með í mannlegu félagi, enda er nafngjöfin í rauninni táknræn um að barn sé tekið inn í samfélag manna. Sé barn nefnt merkingarlausri stafarunu, eins og stundum hefur komið til tals, er því um tvennt að ræða. Barninu er ekki sýnd sú virðing með nafngjöfinni sem sérhver manneskja á rétt á og hitt að í raun og veru er því ekki með þessu gefið nafn heldur stafaruna. Fyrra atriðið brýtur því gegn 3. mgr. 5. gr. laganna og hið síðara gegn 1. mgr. 2. gr. þar sem kveðið er á um að skylt sé að gefa barni nafn. Þetta bið ég hv. þingheim að athuga vel. Þegar þetta er haft í huga er auðsætt að mannanafnanefnd sem úrskurðar um ný nöfn, á í rauninni ekki annars kost en að hafna beiðnum um merkingarlausar stafarunur sem nöfn. Því er ótti manna við þessa lagasetningu stórlega ýktur. Hún er ekki svo ábyrgðarlaus sem hv. þm., sérstaklega einn, hefur minnst á og ekki eins frjálsleg og ætla hefði mátt. Hins vegar er nauðsynlegt að hafa visst frelsi í nafngiftum og við megum ekki þrengja um of að borgurum landsins í nafngiftum.