Mannanöfn

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:34:02 (5676)

1996-05-06 16:34:02# 120. lþ. 131.3 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:34]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara þessu. Ekkert er til baka dregið heldur lesið í merkingu frv. sem væntanlega er að verða að lögum. Það getur hv. þm. sjálfur gert og komist að þessari sömu niðurstöðu með því að lesa vel yfir. Ég hins vegar tók það fram áðan að það væri ekki ástæða til að vera eins varkár og við höfum verið varðandi amaákvæðið. Það má túlka það samkvæmt orðanna hljóðan að það tekur bæði til merkingar og eðlis nafns.

Varðandi Íslenska málnefnd vil ég geta þess að sú ágæta nefnd, var beðin um umsögn. Hún sendi hv. allshn. ágæta umsögn. Tekið var tillit til flestra atriða í henni og við kunnum þeim góðar þakkir fyrir. Eftir að málið var tekið út úr nefndinni kom svo athugasemd eða ósk frá Íslenskri málnefnd um að bíða enn frekar.

Ég man ekki eftir að annað hafi komið fram að þessu sinni, en það kemur þá kannski á eftir.