1996-05-06 18:18:59# 120. lþ. 131.4 fundur 286#B samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, munnleg skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), HG
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[18:18]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við ræðum gífurlega þýðingarmikið mál fyrir okkur Íslendinga, mál sem varðar í senn hagsmuni næstu framtíðar en einnig langtímahagsmuni. Auðvitað getum við verið sammála um að það skiptir afar miklu að ná samkomulagi milli þeirra þjóða sem mest eiga undir í máli sem þessu. Það væri því fagnaðarefni ef ráðherrar okkar kæmu nú til Alþingis með samning sem sammæli gæti verið um að væri viðunandi fyrir okkur út frá þessum markmiðum, bæði litið til næstu framtíðar og til lengri tíma. Því miður, og það blasir við af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, er þessu ekki svo háttað. Ég verð að segja að niðurstaðan sem hæstv. ráðherrar koma með frá Ósló veldur vissulega miklum vonbrigðum, hlýtur að gera það vegna efnis málsins og vegna þess mjög óvissa grundvallar sem varðar endurskoðunarmöguleika á þessum samningi til framtíðar litið.

Auðvitað er það svo að ýmis atriði sem tengjast þessu máli og því að það er komin niðurstaða í málið af hálfu stjórnvalda er jákvætt út af fyrir sig. Fyrr mætti vera ef það væri ekki. Við höfum verið að keppa að því að ná samningi um skiptingu og nýtingu á þessum stofni vegna þess að það er augljóst að það er knýjandi nauðsyn að fá þar niðurstöðu til þess að geta nýtt stofninn á sjálfbæran hátt og til framtíðar litið, einnig út frá okkar hagsmunum. Vissir kostir tengjast því auðvitað eins og fram hefur komið í umræðunni að samningur er gerður, þar á meðal að skipin sem síldveiðar koma til með að stunda geti gert það á hverri vertíð út frá því hvað þau megi sækja og hvar þau megi sækja aflann. Þetta skiptir máli sem og hin líffræðilega hlið málsins, að byggja undir möguleika á því að fullorðin síld skili sér inn á Íslandsmið. Allt er þetta mikils virði. En þegar litið er síðan til samningsniðurstöðunnar, þá eru uppi ekki aðeins álitamál heldur mjög neikvæðir þættir sem við hljótum að ræða opinskátt á Alþingi. Það kom satt að segja á óvart hvernig hæstv. utanrrh. flutti sitt mál í upphafi því að hann gerði í rauninni ekkert af því að vísa á þau tvísýnu atriði sem eru fólgin í þessu máli. Hann lagði málið ekki hlutlægt fyrir heldur hélt hann fyrst og fremst áróðursræðu fyrir þessum samningi og það er kannski skiljanlegt ef litið er á innihaldið.

Við vorum áreiðanlega sammála um það eftir þær lotur sem fram hafa farið í þessu máli að okkur bæri að stuðla að því að draga niður heildarveiðina með samkomulagi strandríkjanna að svo miklu leyti sem þau höfðu sóknina á valdi sínu, að þar legðu allir nokkuð í púkk. Niðurstaðan er hins vegar sú að veiðin af hálfu þessara fjögurra ríkja er 100 þús. lestir umfram það sem fiskifræðingar mæla með. Og til viðbótar kemur það að Evrópusambandið á eftir að sækja sinn hlut. Á því höfum við enga stjórnun eins og reynt hefur verið þó að læða inn í umræðuna á þessum sólarhring, þ.e. að við hefðum einhverja kosti að takmarka sókn Evrópusambandsins við eitthvað sáralítið eins og látið hefur verið að liggja. Betur að satt væri.

Síðan er það niðurstaðan, skiptingin á þessum 1.100 þúsund lestum milli þjóðanna. Það hefur margoft komið fram hvernig það eru Íslendingar og Færeyingar sem leggja í rauninni allt að mörkum til þess að þetta samkomulag náist. Þá er vísað á 6. gr., að þar sé lykillinn að því að breyta þessu hlutfalli í framtíðinni. Það er satt að segja alveg með ólíkindum hvernig ábyrgir ráðherrar í ríkisstjórninni, eins og við vonumst til að þeir séu, þeir reyna að vera ábyrgir, hvernig þeir reyna að skýra þessa 6. gr., mér lá við að segja rangtúlka hana, því að það er ekki hægt að meta það öðruvísi þegar það kemur fram í umræðunni hjá báðum þessum hæstv. ráðherrum að þar liggi öruggur lykill, eins og þeir flytja mál sitt, til þess að lyfta þessum 17% skiptagrunni upp fyrir Ísland á komandi árum. Með hvaða gleraugum les hæstv. sjútvrh. þessa 6. gr.? Það eru einhver önnur en ég ber á nefi. Það eru einhver önnur gleraugu því að (Sjútvrh.: Það eru mín gleraugu.) enginn fær lesið það út úr því sem þar stendur að við höfum þarna eitthvert sérstakt sóknarfæri, því miður. Betur að satt væri.

Það eru þó aðalhuggunarorð ráðherranna í umræðunni að þarna liggi möguleikinn. Hæstv. utanrrh. orðaði það í fyrri ræðu sinni svo að þessi 17% væru miklu minna en við gætum sætt okkur við til lengri framtíðar litið og álíka orð hafði hæstv. sjútvrh. uppi. Þeir eru í rauninni að dæma eigin verk með þessum málflutningi þegar menn líta til ákvæðanna sem eru fólgin í 6. gr. Þetta eru hinar döpru staðreyndir sem hér blasa við. Ég er satt að segja alveg hissa á því að menn skuli leggja í það að læsa samningi sem þessum eins og hér hefur verið gert. Og ég á eftir að sjá það að grannþjóð okkar, Færeyingar, sem við höfum reynt að standa saman með hafi gengið glöð til leiks, að fulltrúar þeirrar þjóðar hafi gengið glaðir til leiks að skrifa undir þennan samning í Ósló. Það skyldi ekki vera að næturvökurnar hafi að einhverju leyti verið vegna þess að það hafi þurft nokkuð að leggjast á Færeyinga til þess að fá þá með í þessa ferð ásamt okkur Íslendingum?

Ég óttast það, virðulegur forseti, og hef ástæðu til að ætla að grunnurinn að þessum samningi hafi verið lagður í samtölum íslenska utanrrh. og hinna norsku ráðherra fyrst og fremst og það hafi eitthvað skort á að haft hafi verið það samráð við Færeyinga sem eðlilegt hefði verið í sambandi við þetta mál. En eitt verð ég að nefna, því að réttilega hefur undirbúningur málsins verið gagnrýndur og viðurkennt hér síðast af hæstv. utanrrh. að eftir á að hyggja hefði átt að kveðja sjútvn. þingsins með. Ég sat fund utanrmn. síðasta laugardag og hafði þar uppi sterk varnaðarorð um þennan samning og gagnrýndi það mjög að sjútvn. þingsins skyldi ekki hafa verið kvödd til og hvatti til að það yrði gert áður en farið yrði til Óslóar.

En það eru fleiri atriði sem því tengjast og ætla ég þó ekki að rjúfa neinn trúnað gagnvart utanrmn. þingsins. Ég get haft uppi hvað ég sagði á þeim fundi og ég get líka haft uppi hvað ekki var sagt á þeim fundi. Eitt af því sem ekki kom fram á þeim fundi í máli hæstv. ráðherra var það stóra atriði að Norðmönnum ætti að hleypa inn í íslenska lögsögu og veita þeim tvo þriðju af hluta Íslendinga og meira að segja Rússar fengju að smjúga þar inn líka. Yfir þessu var vandlega þagað af ráðherrunum í utanrmn. sl. laugardag á sama tíma og það var gyllt fyrir nefndinni að Jan Mayen lögsagan mundi opnast fyrir Íslendinga til síldveiða. Hver var ástæðan? Lá þetta ekki fyrir? Það lá a.m.k. fyrir alveg hreint upp á tonn hvernig skipta ætti þessum hlut. En lá það ekki fyrir síðasta laugardag að það ætti að opna landhelgina fyrir Norðmönnum til að veiða 127 þús. tonn? Ég krefst svara við því. Var það atriði sem kom upp í Ósló og sem fallist var á eftir á? Hver var ástæðan fyrir því að halda því leyndu fyrir utanrmn. þingsins?

Síðan er það að lokum, virðulegur forseti, eftirleikurinn í framhaldi af þessu ef Alþingi fellst á þennan gerning. Það er skipting aflans milli þeirra veiðiskipa sem nú hafa búið sig til síldveiða. Ég skil það svo af orðum ráðherranna að það eigi bara að úthluta öllum þessum sem sótt hafa um leyfi kvóta. Hvernig þeir ætla að skipta, það kemur væntanlega í ljós. Það er vandasamt verk og það er líka verk sem varðar framtíðina og nýtingu þessa stofns eða þess hlutar sem kemur í hlut okkar Íslendinga, þessa allt of lága hlutar sem gengið var frá og skrifað undir í Ósló.