1996-05-06 18:48:42# 120. lþ. 131.4 fundur 286#B samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, munnleg skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[18:48]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Mér sýnist að sá samningur sem við ræðum hér í dag byggi fyrst og fremst á tvennu. Í fyrsta lagi því að það var pólitískt metnaðarmál núverandi utanrrh. að semja og eins og fram kom í hans máli var eitt af því mikilvægasta að við höfum sýnt að við getum samið. Það er e.t.v. nokkurs virði fyrir hæstv. ráðherrann. En hitt sem þessi samningur byggir á er trúnaðartraust. Í þessum samningi og því sem hæstv. ráðherrar segja um hann kemur fram mikið trúnaðartraust gagnvart hinum strandríkjunum, sérstaklega gagnvart Norðmönnum. Ég hlýt að setja spurningarmerki við það trúnaðartraust vegna þess að sagan segir okkur að við höfum ekki sótt gull í greipar Norðmanna. En ef við lítum til þess sem hér er talið mikilvægast í samningnum, en það er 6. gr. hans, og síðan þess hvernig hæstv. ráðherrar túlka hana í fréttatilkynningu, þá er það ljóst að hún er túlkuð býsna afdráttarlaust af íslenskum stjórnvöldum. Því hér segir, með leyfi forseta:

,,Ef tekst að ná markmiðum samningsins um verndun og uppbyggingu stofnsins mun þetta ákvæði um vægi dreifingar stofnsins leiða til aukinnar hlutdeildar Íslands á komandi árum.``

Herra forseti. Miðað við texta 6. gr. finnst mér þetta fyrst og fremst lýsa því trúnaðartrausti sem þessi samningur byggir öðrum þræði á. Til þess að við sem hlýðum nú á boðskapinn tökum hlutunum eins og ætlast er til þá er okkur líka bent á að setja okkur í spor annarra. Við verðum að setja okkur í spor annarra svo við áttum okkur á því að það voru ekki bara við sem vorum að fórna, hinir voru líka að fórna jafnvel þó þeir fengju meira. En á móti hljótum við líka að spyrja, þjóð sem byggir sína afkomu svo ríkulega á fiskveiðum: Er þess þá ekki að vænta að aðrir setji sig í okkar spor? Er þetta það sem trúnaðartraustið m.a. byggir á, að við setjum okkur í spor annarra?

Mér sýnist, herra forseti, að menn fari hér fram af, ég segi ekki glannaskap, en alla vega af mikilli bjartsýni og ég ætla að leyfa mér að vona fyrir okkar hönd að hún byggi á nokkru sterkari stoðum en þeim sem hér eru fram bornar.

Það kom fram, herra forseti, í upphafsræðu hæstv. utanrrh. að með þessu væri búið að ná tökum á heildarstjórnun veiðanna. Það er því miður ekki svo og þó svo að hér hafi komið fram í ræðum beggja ráðherranna að þeir telji að við höfum betri stöðu, þessi fjögur ríki saman, til að standa gegn ásókn Evrópubandalagsins í veiðar á síldarstofninum, þá hafa engin svör komið við því hvernig við hyggjumst bregðast við henni. Mér finnast þau svör a.m.k. það fátækleg að í þeim er lítil huggun. Ég held að það þurfi að koma til nokkuð betri tryggingar fyrir því sem menn treysta í þeim efnum en þær sem hér hafa verið reifaðar því það er alveg ljóst að Evrópusambandið mun fara sínu fram.

Það á eftir að skipuleggja þessar veiðar. Reyndar hefur þessi samningur augljóslega verið það lengi í undirbúningi að ég trúi ekki öðru en að nokkur undirbúningsvinna á því hafi farið fram. En ég held að það liggi þó á borðinu að þær forsendur, sem reglugerðin byggðist á, þar sem allir máttu senda inn umsókn séu í veigamiklum atriðum brostnar. Við erum að tala um allt annað magn en þar var um að ræða og við erum líka hætt við þá aðferð sem þá var byggt á. Þá stóð til að nota þessa svokölluðu ólympísku aðferð, þ.e. að menn fengju veiðileyfi og síðan veiddi hver sem betur gæti þar til heildarkvótinn væri uppurinn. Nú stendur til að skipta aflanum niður á skip. Það hefur verið margítrekað í þessari umræðu eftir hvaða reglum það ætti að gerast. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson rakti þær mögulegu leiðir sem til þess eru. En ég vil bæta hér við þeirri leið að hæstv. sjútvrh. bjóði upp þá síldarkvóta sem nú verða til ráðstöfunar. Það er alveg ljóst miðað við það magn sem nú er um að ræða og miðað við það að menn ætla sér að reyna að ná síldinni á sem hagkvæmastan hátt, að sækja hana síðar til Jan Mayen, að þá verður það þannig að einhver af þeim skipum sem hafa sótt um þau eiga þess ekki kost að gera úr síldinni þau verðmæti sem vonir okkar standa til. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að það sé íhugað nú þegar við erum að úthluta þessum gæðum, því gæði eru það, að þau verði boðin upp. Hvaða réttlæti er í því að þessum síldarkvóta verði úthlutað ókeypis til þeirra sem enga veiðireynslu hafa einu sinni til að réttlæta það þó með og síðan geti þeir verslað með þessa kvóta að vild? Ef ekki verður hægt að framselja þá kvóta sem úthlutað verður þá erum við auðvitað ekki að tala um þá hagkvæmni veiða sem menn eru hér að láta sig dreyma um. Þess vegna vil ég ítreka það að ef menn vilja hafa eitthvert réttlæti og ég tala nú ekki um frið um þessar úthlutanir, þá ætti hæstv. ráðherrann að láta af þeirri stefnu sem hann hefur viljað fylgja og bjóða upp þessa síldarkvóta. Það er þá ljóst að þau skip sem telja sig geta gert úr síldinni mest verðmæti eru líklegust til að veiða hana. Við erum hvort eð er að úthluta hér nýjum gæðum og þessar veiðar byggja ekki á reynslu sem hægt er að byggja úthlutun kvóta á.

Herra forseti. Þegar verið var að taka ákvörðun um það að Íslendingar tækju sér tiltekið magn í samvinnu við Færeyinga þá var mjög á því hamrað að það magn sem ákvarðað yrði yrði ekki í því rétta samhengi við það sem menn ákvörðuðu í fyrra svo ekki mætti kallast fordæmi. Það voru býsna margir sem vöruðu við því að sú ákvörðun sem við tækjum núna gæti skapað fordæmi sem yrði erfitt að semja sig frá. Ég held að menn hafi óttast að það yrði erfiðara að komast upp. Ég held að engum hafi dottið í hug að þetta ,,fordæmi`` sem þarna skapaðist yrði nýtt til þess að fara niður, að minnsta kosti ekki að það yrði svo að Íslendingar og Færeyingar færu niður á meðan Norðmenn nánast halda sínu og Rússarnir bæta við sig. Mér finnast það ekki boðleg rök að með þessum niðurfærslum á kvótum okkar og Færeyinga séum við að kaupa Norðmenn og Rússa frá smásíldarveiðum.

Og í lokin. Þessi samningur byggir á trúnaðartrausti. Allt orkar tvímælis þá gert er. Ég vona, herra forseti, að það trúnaðartraust hafi þá innstæðu sem ráðherrarnir hér eru að kynna.