1996-05-06 19:03:30# 120. lþ. 131.4 fundur 286#B samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, munnleg skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[19:03]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna þeirrar fyrirspurnar sem hv. þm. varpar hér fram þá er ástæða til þess að ítreka það að þessi samningur er mjög mikilvægur áfangi og treystir stöðu okkar að mörgu leyti. Við erum í fyrsta lagi að stíga mikilvægt skref til þess að takmarka heildarveiðarnar og tryggja þar með framtíðarhagsmuni okkar. Og við erum að fá viðurkenningu samstarfsaðila okkar á því að dreifing stofnsins eigi að verða grundvöllur að framtíðarskiptingu hans. Við höfum haft þá kröfu uppi frá því að viðræður hófust að dreifingin ætti að liggja til grundvallar þegar stofninn hefði tekið upp sitt gamla göngumynstur og komið inn í íslenska landhelgi. Við höfum hins vegar sagt að við yrðum á meðan við bíðum eftir því að síldin komi inn í landhelgina að fá miklu stærri hlut en dreifingin segir til um eins og hún er núna. Hvort tveggja þetta fallast samstarfsþjóðir okkar á. Loks er þess að geta að samningurinn gefur okkur nýja viðspyrnu til þess að takast á við Evrópusambandið. Það er sannarlega ekki hluti strandþjóðanna sem á sögulegan rétt til þessara veiða. Það hefur hins vegar yfir að ráða mikilli veiðigetu og því mikilvægt að reyna að takmarka veiðar þeirra. Það er ljóst að ef strandríkin hefðu ekki komið sér saman um málið þá hefði verið alveg úti um það að koma málum þannig fyrir að Evrópusambandið dragi úr veiðunum. Þannig eru fjölmörg atriði í þessu sem snerta mikilvæga hagsmuni okkar bæði í bráð og lengd og gjörsamlega út í bláinn að halda því fram að við hefðum náð markmiðum okkar með því einhliða að draga úr veiðunum. Það lá alltaf ljóst fyrir áður en viðræðurnar hófust að við værum tilbúnir til þess að draga meir úr okkar veiðum en aðrir til þess að ná samkomulagi. Auðvitað geta menn deilt um það hversu mikið það átti að vera. En hvort það var 10 þús. tonnunum meira eða minna finnst mér ekki skipta öllu máli þegar við erum að treysta stöðu okkar til framtíðar.

Ég vil svo, herra forseti, þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram í dag. Þær hafa um margt skýrt málið og skýrt afstöðu einstakra þingmanna og flokka til málsins. En það var mikilvægt að hreinskiptin umræða færi fram um þennan samning um leið og hann lægi fyrir.