Starfshættir í umhverfisnefnd

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 13:39:20 (5704)

1996-05-07 13:39:20# 120. lþ. 132.92 fundur 294#B starfshættir í umhverfisnefnd# (aths. um störf þingsins), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[13:39]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst þau ummæli sem hér hafa komið fram vera ósanngjörn. Ég er einn af stjórnarþingmönnum sem sitja í umhvn. og tel mig hafa mætt mætavel á fundi þeirrar nefndar. Þannig vildi til að í síðustu viku var ég ekki á landinu og eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson veit þá hefur hann stöku sinnum brugðið sér af landi brott og þess vegna ekki getað mætt á fundi umhvn. eða annarra nefnda. (Gripið fram í.) Ég er reyndar nýgræðingur í pólitík og það er margt að læra í pólitíkinni og það er dálítið sérkennilegt andrúmsloft sem skapast einmitt á lokadögum þingsins. (Gripið fram í: Meðan Hjörleifur er úti.) Hins vegar er ég vanur að vinna og þess vegna kemur mér á óvart þegar svona andrúmsloft myndast. Ég þarf auðvitað að læra það eins og margt annað en það er til orð í stjórnun um þetta hugtak. Það er skapandi tregða og ég er ekkert frá því að skapandi tregða svífi núna yfir vötnunum.