Starfshættir í umhverfisnefnd

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 13:40:36 (5705)

1996-05-07 13:40:36# 120. lþ. 132.92 fundur 294#B starfshættir í umhverfisnefnd# (aths. um störf þingsins), KH
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[13:40]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég finn mig knúna til að taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram og ég tel hana fyllilega réttmæta. Samstarfið í hv. umhvn. hefur hingað til gengið mjög vel að minni hyggju. Við höfum verið með stórmál undir, nýja löggjöf á ýmsum sviðum og rætt málin ítarlega og leitt þau sameiginlega til lykta. Því miður hafa þingmannamálin mætt afgangi eins og hér hefur komið fram vegna þess hve brýn og stór mál við höfum verið með í nefndinni og reyndar hefur verið fast gengið eftir því af hálfu stjórnvalda að þau væru afgreidd. Fulltrúar þingflokka stjórnarandstöðu og reyndar einnig þingflokks Framsfl. hafa sótt fundi vel og dyggilega, jafnt aukafundi sem reglulega fundi, því að þeir hafa sannarlega verið fleiri en einn og fleiri en tveir. Sama verður því miður ekki sagt um hinn stjórnarflokkinn. Sæti fulltrúa hans eru sjaldnast fullskipuð nema til standi að afgreiða mál frá nefndinni, þá eru atkvæði þeirra nauðsynleg þó að fulltrúar Sjálfstfl. hafi kannski ekki komið að málinu á annan hátt. Þetta eru auðvitað léleg vinnubrögð og ámælisverð.

Ég lýsi miklum vonbrigðum með störf nefndarinnar hvað varðar umfjöllun og afgreiðslu frv. um náttúruvernd og tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram um hvernig staðið hefur að þeim vinnubrögðum. Þetta þingmál er gríðarlega mikilvægt fyrir þróun náttúruverndar í landinu og verðskuldar ítarlega og góða umfjöllun og skoðanaskipti, að ég tali ekki um mikilvægi þess að menn reyni til hins ýtrasta að ná samkomulagi um flest atriði þess. Því var beinlínis hafnað af meiri hlutanum að farið væri sameiginlega yfir frv. grein fyrir grein eins og eðlilegt og sjálfsagt er. Það var boðið upp á aukafund sagði hv. formaður umhvn. Það var boðið upp á aukafund í síðustu viku og við sóttum þann fund. Það var ekki um annan dag að ræða en í gær og það var aukafundur í síðustu viku og það á að vera aukafundur í þessari viku og hvað veit ég hvað þeir verða margir. Ég hafna því algerlega að hér hafi verið um einhverja skapandi tregðu að ræða af hálfu stjórnarandstöðunnar eða nokkurra fulltrúa í nefndinni og harma það að þessi vinnubrögð skyldu vera viðhöfð.