Starfshættir í umhverfisnefnd

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 13:48:10 (5708)

1996-05-07 13:48:10# 120. lþ. 132.92 fundur 294#B starfshættir í umhverfisnefnd# (aths. um störf þingsins), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[13:48]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Mér þykja afar sorgleg ummæli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og Kristínar Halldórsdóttur um störf umhvn. í þessu máli. Menn ættu að líta aðeins til baka og skoða forsögu þessa máls, hvernig að þessu máli var unnið á síðasta kjörtímabili, bæði af hálfu ráðuneytisins og eins af hálfu þingsins. Menn ættu að hugsa til nefndarinnar sem ekki skilaði af sér og var leyst upp einu og hálfu ári eftir að hún átti að skila af sér og hugsa til þess að þetta mál var lagt fram á þessu þingi í þriðja skipti. Síðan er kvartað yfir því að málið hafi ekki fengið næga umfjöllun og að menn mæti ekki til þess að sinna störfum sínum. Það var ágætlega að orði komist hjá hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni þegar hann ræddi um skapandi tregðu en tregða þeirra hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og Kristínar Halldórsdóttur í þessu máli er allt annað en skapandi. Það er tregða niðurrifsins, það er tregða sem skaðar, það er tregða sem skaðar þróun náttúruverndar. Þessir hv. þm. hafa sett sér það markmið að koma í veg fyrir að frv. verði samþykkt á Alþingi. Liður í því var að reyna að koma í veg fyrir að það kæmist út úr þingnefndinni. Þetta hlýtur öllum að vera ljóst sem með þessu máli hafa fylgst. Það er hins vegar meiri hluta Alþingis að koma í veg fyrir það að minni hlutanum takist að stöðva mál sem meirihlutafylgi er fyrir.

Ég vil að lokum, herra forseti, undrast þau orð hv. þm. Svavars Gestssonar þegar hann segir að nú líði að þeim tíma að Alþingi fari að starfa illa. Hv. þm. Svavar Gestsson er þingreyndari maður en ég en ég kannast ekki við að Alþingi starfi illa. Hann getur kannski sagt það af sínum eigin vinnubrögðum, vinnubrögðum sinna eigin flokksmanna. En að lýsa slíku yfir hér úr ræðustól hv. Alþingis finnst mér forkastanlegt. Það dæmir sig í raun og veru sjálft.