Kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 14:01:16 (5714)

1996-05-07 14:01:16# 120. lþ. 132.91 fundur 293#B kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[14:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Um er að ræða kaup á Internetmiðstöðvum fyrir Kennaraháskóla Íslands og Verkmenntaskólann á Akureyri til að þessir skólar geti til skemmri og lengri tíma veitt kennslufræðilega þjónustu á Internetinu í samræmi við stefnu menntmrn. Innifalinn er allur búnaður á þessum tveimur stöðvum, tengingar við háhraðanet, stofngjöld vegna leigulína og tenging við Internetið á Íslandi ehf. Innifalið í þessu eru einnig kaup á vefum sem nýtast munu þessum aðilum og skólakerfinu í heild, námsefni, uppsetningarleiðbeiningar og kennslugögn vegna námskeiða fyrir kennara og skóla. Verið var að bjarga hagsmunum sem hefði kostað mun meira að byggja upp frá grunni. Ekki eru keyptar landmiðstöðvar Ísmenntar, enginn skrifstofubúnaður, notendatölvur eða annað sem hefur verið á skrifstofu og tæknideild fyrirtækisins. Hins vegar er keyptur tengibúnaður í Kennaraháskóla Íslands og Verkmenntaskólann á Akureyri og mótöld fyrir aðgang þeirra skóla sem það vilja nýta sér. Aðrir skólar tengjast með öðrum hætti, t.d. um Póst og síma. Til lengri tíma litið munu flestir í skólum tengjast á annan hátt, annaðhvort sjálfir beint inn á Internetið eða í gegnum þjónustuaðila. Aðeins skólar og aðrar menntastofnanir munu tengjast með þessum hætti. Ekki verður seld þjónusta til einkaaðila. Ætlunin er að skólar greiði fyrir þjónustu menntanetsins þannig að hún standi undir eðlilegum rekstrarkostnaði.

Varðandi heimildir er það rétt að í fjárlögum er ekki gert ráð fyrir að Íslenska menntanetið sé keypt. Hins vegar hefur menntmrn. á sínum fjárlagalið fjárveitingar til tölvumála og mun sá liður nýtast í þessum tilgangi. Auk þess hefur fjárln. verið sent erindi um þetta og verið mælst til þess að litið verði á þetta mál með velvilja þegar kemur að því að taka ákvarðanir um aukafjárveitingar síðar á þessu ári eins og venja er og er alls ekki óeðlilegt að til þess verði litið þegar skoðaðir eru þeir gífurlega miklu hagsmunir sem eru í húfi fyrir allt skólakerfið, að þessi starfsemi getið haldið áfram. Það eru 300 manns sem stunda fjarnám og ef þessi starfsemi Íslenska menntanetsins hefði lagst niður eins og við blasti, þá hefði ríkissjóður lent í miklu meiri útgjöldum en nemur þessari 21 millj. kr. sem nefnd var sem kaupverð fyrir þennan hluta Íslenska menntanetsins. Það er algerlega rangt að halda því fram að fyrirtækið allt hafi verið keypt. Sá hluti þess sem lýtur að skólastarfinu var keyptur til þess m.a. að 300 nemendur sem eru í fjarnámi gætu haldið áfram sínu námi í vetur og lokið prófum og einnig í því skyni að tryggja áframhaldandi þjónustu við skólakerfið á þeim forsendum sem Íslenska menntanetið hefur gert á undanförnum árum.

Það eru full rök fyrir þessu. Það skoðuðu þetta mál sérfræðingar bæði innan og utan menntmrn. sem mæltu eindregið með því að til þessa væri gengið með hagsmuni ríkisins í huga, með hagsmuni skólakerfisins í huga og með hagsmuni þeirra í huga sem innan skólakerfisins og innan menntakerfisins hafa notið þjónustu Íslenska menntanetsins. Ég vil vekja athygli á því að um 90% skóla hér á landi eru tengdir inn á netið í gegnum þetta kerfi og er það miklu hærra hlutfall en nokkurs staðar. Það hefði orðið reiðarslag fyrir skóla- og menntakerfið ef þessi starfsemi hefði lagst niður þannig að ég tel að hér hafi alls ekki verið illa farið með opinbert fé. Þvert á móti hafi þetta verið ráðstöfun sem sé til þess fallin að spara opinbert fé þegar til lengdar lætur og treysta þessa mikilvægu starfsemi í íslenska skólakerfinu.

Það er alrangt að halda því fram að þessi kaup hafi komið rektor Kennaraháskóla Íslands í opna skjöldu. Starfsmaður Kennaraháskólans var þátttakandi í þessari samningagerð og tók fullan þátt í henni þannig að menn vissu mætavel þar að hverju stefnt var. Og það stendur nú fyrir dyrum að semja um það við Kennaraháskóla Íslands að hann taki þessa þjónustu að sér og reki hana í umboði menntmrn. og verður um það gerður sérstakur samningur við skólann.