Kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 14:29:53 (5725)

1996-05-07 14:29:53# 120. lþ. 132.91 fundur 293#B kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[14:29]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir því í upphaflegu svari mínu hvað var verið að kaupa þannig að ég tel ástæðulaust að fara aftur út í það. Ég vil þakka þessar ágætu umræður. Þær hafa verið mjög gagnlegar til þess að upplýsa um þá hagsmuni sem voru í húfi. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að 21 millj. kr. fyrir það sem hér er í húfi séu ekki miklir peningar sama hvernig menn skilgreina það og sama til hvaða sérfræðinga hv. þm. Sighvatur Björgvinsson leitar. Ég veit ekki hvaða sérfræðingar það eru eða hvaða aðstöðu þeir hafa haft til þess að kynna sér málið. Sérfræðingar sem ég leitaði til og fóru ofan í málið og grandskoðuðu það telja að þetta verð sé síður en svo eitthvert eyðslufé af hálfu ríkisins eða að verið sé að kasta þessu á glæ. Þvert á móti er það eins og fram hefur komið að hér er um gífurlega mikla hagsmuni að ræða sem snerta skólakerfið. Íslenska menntanetið, það fyrirtæki heldur áfram að starfa og þarf að leysa úr sínum málum. Þetta leysir ekki þess vanda. Þetta leysir hins vegar vanda íslenska skólakerfisins að þeim hluta sem hann var bundinn Íslenska menntanetinu og tryggir framhald á þeirri þjónustu sem þetta fyrirtæki hafði byggt upp og hér hefur verið lýst og á rætur að rekja til eins manns eins og hér hefur komið fram. Það liggur því alveg ljóst fyrir að hagsmunirnir sem hér eru í húfi eru miklu meiri en þessar tölur gefa til kynna.

Ég vil þakka hv. formanni fjárln. fyrir hans orð. Ef lög hefðu mælt fyrir um ákveðna aðferð í þessu máli hefði að sjálfsögðu verið farið að þeim en eins og hann sagði er ekki um neitt einsdæmi að ræða og fjárln. mun taka sínar ákvarðanir. Tilmæli mín til hennar liggja fyrir og hin efnislega afstaða er skýr.

Varðandi framtíðarstöðu málsins þá verður gerður samningur við Kennaraháskóla Íslands um að hann taki að sér þessa starfsemi. Það verður síðan sett sérstök stjórn yfir þessa starfsemi á vegum Kennaraháskólans, sveitarfélaganna og ríkisvaldsins. Hvað verður boðið út og hvað verður innan skólans ætla ég ekki að segja um á þessu stigi málsins. En hér verður um sérstakan rekstur að ræða sem á að standa undir sér og á ekki að vera í samkeppni við einkaaðila heldur á að þjóna skólakerfinu þannig að best nýtist.