Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 15:07:30 (5728)

1996-05-07 15:07:30# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[15:07]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega olli andsvar hv. þm. mér vonbrigðum þótt það kæmi ekki á óvart. Ég tel að það sé að sjálfsögðu kominn tími til þess að Alþingi sýni sjálfstæði og setji þau lög um þessi mál sem það telur skynsamlegast. Og fyrir mig get ég einungis sagt að ég tel að sú meginstefna sem í frv. felst sé skynsamleg. Ég hygg að það sé skynsamleg stefna að láta lögin ná til allra starfsmanna ríkisins, að afnema þann víðtæka rétt til biðlauna sem hefur verið talið að væru í lögunum í dag og gera þann rétt eðlilegri, að afnema æviráðningu embættismanna með almennri reglu. Og önnur þau meginatriði sem í frv. eru tel ég að séu rétt og eðlileg í samræmi við nútímastarfsmannastefnu. Brtt. sem komu frá umsagnaraðilum voru tvenns konar. Í fyrsta lagi var oft sagt í brtt. að við ættum að draga frv. til baka og það ætti ekki að afgreiða málið. Um það var lítið fjallað vegna þess að meiri hluti nefndarinnar telur að afgreiða eigi málið. Í öðru lagi komu svo brtt. við einstakar greinar frv. Það var reynt að taka tillit til þeirra eins og unnt var án þess þó að meginstefnunni í frv. væri breytt. Þetta voru þau sjónarmið sem meiri hluti nefndarinnar hafði að leiðarljósi. Hann telur að þetta séu skynsamleg vinnubrögð og algjörlega rétt siðferðilega.