Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 15:13:19 (5731)

1996-05-07 15:13:19# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[15:13]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða eitt allra stærsta mál þessa þings og ég spyr: Hvar eru ráðherrar þessarar ríkisstjórnar? Hvar er hæstv. fjmrh.? Hvar er hæstv. forsrh.? Ætla þeir ekkert að fylgjast með þessari umræðu sem hér á að fara fram? Hér hefur hv. formaður efh.- og viðskn. gert grein fyrir þeim brtt. sem liggja fyrir og var hinn rólegasti yfir þessu öllu saman. En ég vil spyrja hann: Hvaða áhrif heldur hv. þm. að þessi einhliða lagasetning muni hafa á starfsmannastefnu ríkisins, á vinnuanda innan stofnana ríkisins og síðast en ekki síst á ástandið á vinnumarkaðnum? Ef við horfum á málin í samhengi við önnur frv. sem verið er að fjalla um er hér einfaldlega verið að setja vinnumarkaðinn í háaloft. Það er verið að setja hér allt í háaloft með því að þvinga í gegn einhliða lagasetningar sem ná yfir allan vinnumarkaðinn og þetta þýðir ekkert annað en verkföll og vinnudeilur. Ég vil nefna hér enn eitt frv., frv. um framhaldsskóla, sem er á hraðleið í gegnum þingið og mun breyta vinnuumhverfi kennara. Hvar eru samningar staddir við kennara? Hvað er eiginlega að gerast? Ætlar meiri hlutinn á hinu háa Alþingi bara að renna þessu í gegn og setja allt þjóðfélagið í háaloft? Það er nákvæmlega það sem verið er að gera vegna þess að svona einhliða lagasetning kann ekki góðri lukku að stýra. Það á að leita samvinnu og samráðs.