Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 15:16:25 (5733)

1996-05-07 15:16:25# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[15:16]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir hvern eru lögin? Hverjum á löggjafinn að þjóna? Er það ekki fólkið í landinu? Er það ekki almannahagur? Á löggjafinn að vera að setja einhverja löggjöf sem gengur þvert á alþjóðasamþykktir? Hugsanlega er þetta brot á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins þar sem því er haldið fram í greinargóðum umsögnum að ýmis ákvæði þessa frv. eins og reyndar frv. um stéttarfélög og vinnudeilur standist ekki alþjóðasamþykktir. Hvað er löggjafinn að fara? Hvert er hann að halda? Afla umsagna, sagði hv. formaður efh.- og viðskn. Það er ekkert farið eftir þessum umsögnum vegna þess að hér er verið að svipta fólk samningsrétti, félagsrétti og ýmsum öðrum réttindum. Því spyr ég aftur: Hvaða áhrif heldur hv. formaður efh.- og viðskn. að þessi lagasetning muni hafa? Hún mun hafa alvarleg áhrif og ég vil benda á það sem fram kom af hálfu Alþýðusambandsins á fundi félmn. í gærkvöldi. Þegar menn eiga að fara að vinna eftir þessum lögum má búast við því að í haust og fram undir áramót þurfi að gera á svona bilinu 5--8 þús. viðræðuáætlanir samkvæmt þessum fínu lögum sem er verið að reyna að fá samþykkt hér.