Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 17:12:06 (5739)

1996-05-07 17:12:06# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[17:12]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson saknaði brtt. við þetta frv. Það var þannig í nefndinni, herra forseti, að við sögðum við meiri hlutann: Hugleiðið nú einn hlut. Takið út úr þessu frv. þá þætti sem þið teljið að þið þurfið að berjast fyrir pólitískt. Við skulum takast á um þá og setjum málið að öðru leyti í einhvern þann farveg sem er aðgengilegur fyrir stjórnarandstæðinga og stéttarfélög. Hvaða mál eru það sem þið pólitískt viljið knýja í gegn? Það kom náttúrlega í ljós að það er biðlaunamálið og kannski önnur tvö, þrjú atriði. Stjórnarmeirihlutinn féllst ekki á þetta sem hefði að mörgu leyti verið skynsamleg aðferðafræði. Þá hefðu menn tekist á um tiltekna þætti en ekki staðið hér með heildarlöggjöf illa unna. Ég ætla ekki að byrja, herra forseti, á ræðu minni aftur. Ég get vitnað m.a. í ummæli Eiríks Tómassonar, eins frumvarpshöfunda, varðandi æviráðningu og biðlaunamál og í tengslum við kjarasamninga og kjarasamningsumhverfi. Ég held að það sé alveg augljóst --- og þá hlustar hv. þm. ef hann veit ekki hvaða áhrif þetta hefur á þau réttindi sem samið var um --- hvað verður ef þetta frv. verður að lögum. Við sjáum það fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að hugsanlega verði þessi frv. brotin á bak aftur í næstu kjarasamningum eða síðar. Ég veit ekki hvort heldur verður. Hugsanlega náum við meiri hluta hér á Alþingi einhvern tíma og þá verður hægt að afnema þessi lög. Ég veit það ekki. En ég get sagt hv. þm. að þessi lög verða ekki látin standa ef við fáum bolmagn til að afnema þau.