Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 17:18:10 (5743)

1996-05-07 17:18:10# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[17:18]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt að fara í efnisumræðu um einstök atriði. Ég tel mig hafa bent skilmerkilega á þá réttindaskerðingu sem þetta frv. hefur í för með sér. Ég rakti mörg dæmi um hana og þetta hefur líka komið fram í umsögnum. Fjmrh. verður að kynna sér málið betur.

Í öðru lagi er ósvinna, herra forseti, að fjmrh. skyldi ekki koma á fund nefndarinnar og ræða málið áður en það var tekið út. Við höfum sagt að það er venjulegt að það gerist, eða allavega ekki óvanalegt að slíkt gerist. Málið er þess eðlis að það var mjög mikilvægt við lokaafgreiðslu málsins að fá ákveðið pólitískt mat á tilteknum þáttum þess. Og það að ráðherra skyldi sýna þingnefndinni þá óvirðingu að koma ekki til fundar, lýsir honum betur en minni hluta efh.- og viðskn.

Varðandi samráð sem hann nefndi, að hann sé alltaf reiðubúinn að koma og tala við fólk, þá má það vel vera að hann sé reiðubúinn að mæta á fundum. Ég þekki það ekki. Það er hins vegar augljóst að opinberir starfsmenn fengu ekki að koma að vinnu við frv. á neinn eðlilegan hátt. Það er staðreynd í þessu máli. Ef fjmrh. hefði meint eitthvað með því að setja hér heilsteypta heildarlöggjöf hefði hann sett nefnd á laggirnar með aðild manna sem hefðu unnið þetta mál eðlilega og staðið svo fyrir stjfrv. Vitaskuld ræður hann pólitískri línu málsins, maðurinn er kjörinn til þess. En það að hann sé reiðubúinn að mæta á fundi hjá BSRB eða einhverjum öðrum, hefur ekkert með vinnu við þetta frv. að gera. Það var augljóst að fjmrh. kaus að vinna þetta mál einn og óstuddur. Þannig er frv. komið hér inn í þing. Þetta er hans stefna. Það er ekki bara að hún sé röng og vond og hættuleg heldur er frv. einstaklega illa unnið.