Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 20:34:39 (5747)

1996-05-07 20:34:39# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[20:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég var þar kominn að ég var að grípa aðeins niður í helstu umsagnir um frv. Ég ætlaði aðeins að stikla á fáeinum atriðum. Ég hafði fjallað svolítið um umsögn Bandalags háskólamanna sem var löng og ítarleg og reyndar sendi bandalagið bæði umsögn um frv. eins og það var lagt fram og einnig um það eftir að breytingartillögur meiri hluta efh.- og viðskn. höfðu litið dagsins ljós þannig að af þeirra hálfu var lögð mikið vinna í að gera grein fyrir afstöðu sambandsins.

Sama má segja um flestar aðrar umsagnir að þær eru efnislegar og vandaðar og hefur greinilega mikil vinna verið lögð í það af ýmissa hálfu að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og það er auðvitað þeim mun dapurlegra ef það er síðan ekki ætlunin að gera nokkurn skapaðan hlut með það sem þar er fram fært. En fyrir utan það að menn vísa þessu frv. frá er bent á fjölmörg rökstudd atriði sem samkvæmt öllum góðum venjum um vinnubrögð hefði verið venjan að fara ofan í saumana á svo sem eins og atriðum sem geta orkað tvímælis gagnvart ákvæðum stjórnarskrár eða öðru slíku. En því er ekki að heilsa að menn hafi lagt á sig að gera það í meðförum þingsins og hinnar háu efh.- og viðskn. enda enginn tími verið til slíks. Í raun og veru miðaðist starf nefndarinnar fyrst og fremst við það að ljúka formsins vegna því sem tilskilið er í formi þess að senda mál til umsagnar, taka við þeim umsögnum, hlýða á erindi gesta en í kjölfarið var málið síðan afgreitt út úr nefndinni.

Þetta mál er að mínu mati þannig vaxið að það hefði verið dæmigert mál til þess að vera í meðhöndlun og vinnslu í tvö til fjögur missiri og það hefði verið t.d. heppilegt að setja starfsnefnd í það í sumar að skoða málið milli þinga og svo hefur oft verið með stærri og vandasamari mál sem hafa verið til vinnslu í þinginu. Ég gæti nefnt sem dæmi frv. að nýjum samkeppnislögum þegar þau voru unnin á síðasta kjörtímabili mjög vandlega og tekin til meðferðar á tveimur þingum, unnin milli þinga að hluta til af viðkomandi nefnd. En því er ekki að heilsa og því miður er sem sagt staða málsins þessi sem menn sjá hér.

Í umsögn sinni kemur BSRB inn á mörg sömu atriðin og aðrir hafa gert. Þar er þó í fyrsta lagi farið yfir einn þátt þessa máls sem ég gerði að umtalsefni fyrr í ræðu minni og lýtur að samhengi kjarasamninga og löbundinna réttinda og skyldna opinberra starfsmanna. --- Það er verið að vekja athygli mína á því, herra forseti, að fjmrh. er einhvers staðar annars staðar en þar sem hann á að vera.

(Forseti (StB): Forseti getur upplýst að hæstv. fjmrh. er í húsinu og hann hlýtur að vera innan seilingar.)

Það er mikill fögnuður að oss kveðinn að fjmrh. skuli vera í húsi en það væri viðkunnanlegra að hæstv. ráðherra léti sjá sig.

Á það er bent í umsögn BSRB að auðvitað séu kjarasamningarnar, lögin og lögbundin réttindi óaðskiljanlegir hlutir. Það er bent á að í ráðningarsamningum sé vísað í ákvæði laga. Þegar starfsmenn eru ráðnir er beinlínis vísað í ráðningarsamningum í ákvæði laganna og svo halda menn því fram að réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eins og gengið er frá þeim í lögum séu ekki hluti af kjarasamningi. Slíkur málflutningur gengur auðvitað ekki upp.

Þess eru líka fjölmörg dæmi að einstök ákvæði í lögunum séu upprunnin úr kjarasamningum. Lögin hafa tekið upp og lögfest hluti sem voru upphaflega viðfangsefni kjarasamninga þannig að þetta tvennt fléttast saman og skarast með ýmsum hætti og því afgreiðist sá málflutningur sjálfur að reyna að halda því fram að þetta tvennt verði aðskilið.

Enn fremur er farið yfir það hér að það geti ekki gengið miðað við eðlilegar samskiptareglur í þessum efnum að ríkið breyti kjaralegum forsendum starfsmanna einhliða. Það samrýmist ekki þeirri réttarstöðu beggja aðila að menn semji um þessa hluti þannig að einhliða ákvarðanir ríkisvaldsins um þessa þætti sem eru annaðhvort beint hluti af kjörunum eða tengjast kjörunum í gegnum samspil laganna og kjarasamninganna geti það ekki verið eðlilegt. Reyndar gengið svo langt að segja að það sé ósiðlegt að ríkið breyti forsendum ráðninga einhliða. Síðan fara þeir í umsögn sinni yfir óvissuna sem skapast um sjálfan samningsréttinn og stéttarfélagaaðildina og það eru hlutir sem ég gerði fyrr að umtalsefni í ræðu minni. Það er ekki síst ákvæði 47. gr. sem verður mönnum mikið umhugsunarefni.

Að lokum er niðurstaða BSRB sú sama og annarra að þess er krafist að frv. verði hafnað, það sé gersamlega óásættanlegt hvernig að því hafi verið staðið og vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í þessu efni er mótmælt. Reyndar datt mér það í hug, herra forseti, þegar ég var að blaða í gegnum þennan bunka og var að undirbúa mig undir ræðuna hvort ég ætti ekki að lesa upp öll félögin sem hafa sent inn umsagnir af því að sumir koma hingað býsna staffírugir og segja að Alþingi eigi að setja lögin, þannig sé það og menn varði ekkert um það þó að verkalýðshreyfingin öll sé á móti málinu. En kannski hefði það breytt einhverju ef maður hefði tekið sig til og lesið upp öll þau félög í flestöllum byggðarlögum landsins sem hafa sent hinu háa Alþingi erindi að þessu sambandi. Ætli það færu kannski ekki að renna tvær og tvær grímur á einn og einn mann ef þeim yrði það ljóst að t.d. öll félög opinberra starfsmanna á Vesturlandi, kjördæmi hæstv. forseta, eru með í þessum hópi. Það er reyndar svo skemmtilegt að efst í bunkanum er álit Starfsmannafélags Ólafsfjarðar, úr kjördæmi ræðumanns þannig að þetta er okkur öllum skylt. En út af fyrir sig er hægt að vísa til þess að þetta liggur fyrir en það er þannig að félög opinberra starfsmanna hringinn í kringum landið í hverju einasta byggðarlagi og ég hygg öll með tölu sem á annað borð hafa einhverja starfsemi með höndum eða eru til hafa sent inn erindi. Það verður því ekki sagt að tómlæti eða sofandaháttur hafi verið á ferðinni af þeirra hálfu. En það er kannski þannig í hugum hv. stjórnarsinna og meiri hlutans að það skipti nákvæmlega jafnlitlu eða engu máli þó að þetta sé svona að gervöll verkalýðshreyfingin í gegnum heildarsambönd sín en líka í gegnum félög sín og grunneiningar hringinn í kringum landið hafi mótmælt og sent þinginu erindi.

Herra forseti. Ég ætla þá að fara aðeins aftar í umsögn frá Kennarasambandinu svo að maður grípi fyrst og fremst niður í umsögn stærstu sambandanna sem eiga hlut að máli. Sömuleiðis Kennarasambandið undirstrikar að ef frv. verði að lögum muni það hafa veruleg áhrif á kjör ríkisstarfsmanna og um yrði að ræða einhliða breytingar á lögbundnum kjörum. Þar er þetta sett fram svona að um sé að ræða einhliða breytingar á lögbundnum kjörum og auðvitað er það alveg hárrétt að kjör manna saman standa af fleiru en kaupinu einu. Þar koma líka til ýmis réttindi og hlutir sem menn fá gegnum lög og þeim er verið að breyta. Því er kannski nær í þessu sambandi að tala um heildarkjör eða lögbundin kjör. Kennarasambandið eins og aðrir í þessu sambandi lýsa sig eftir sem áður reiðubúna til þess hvar og hvenær sem er að setjast niður til samninga um þessi mál en bara ekki við þessar kringumstæður að verið sé að lögþvinga breytingar fram einhliða og í andstöðu við sambandið. Síðan er bent á nokkur mikilvæg atriði í umsögn Kennarasambandsins og að öðru leyti kom afstaða þeirra fram í heimsókn til nefndarinnar eins og gengur.

[20:45]

Þá kemur umsögn frá Sambandi íslenskra bankamanna sem sömuleiðis er mjög í þá átt að hafna þessum vinnubrögðum og að frv. verði keyrt í gegnum Alþingi. Með því sé verið að efla til ófriðar við samtök launamanna sem erfitt verði að sjá fyrir endann á. Á það er líka minnt í þessari umsögn frá Sambandi íslenskra bankamanna að samtök launamanna, þar á meðal samtök starfsmanna ríkisfyrirtækja, hafi lagt sitt af mörkum til þess að skapa stöðugleika á vinnumarkaði og að umrætt frv. sé einkennilegt framlag ríkisvaldsins til þeirrar viðleitni og einmitt beinlínis til þess fallið að geta kollvarpað þeim ávinningi sem náðst hafi.

Þá ætlaði ég næst að líta í umsögn Prestafélagsins, herra forseti, sem reyndar mun hafa verið gerð lítillega að umtalsefni fyrr í dag. Það er gott að hæstv. utanrrh. sem einu sinni var dóms- og kirkjumrh. er kominn (Gripið fram í: Þetta á bara að gera á sunnudögum.) því ég ætla nú að fara aðeins í umsögn Prestafélagsins. (Gripið fram í: Bara á sunnudögum.) Ég get svo sem alveg beðið með að lesa þetta þangað til á sunnudaginn ef ætlunin er að funda þá.

Hér er á ferðinni svolítið sérstakur angi þessa máls, herra forseti. Hann varðar stöðu þjóðkirkjunnar í landinu. Og svo merkilegt sem það er, þá kannski er þetta frv. að sumu leyti inngrip í samskiptareglur sem þarna hafa verið við lýði og eru aldagamlar og varða sjálfstæði kirkjunnar sem stofnunar með mjög sérstaka stöðu í samfélaginu. Í erindum sínum og heimsókn til efh.- og viðskn. gerði formaður Prestafélagsins sem hafði orð fyrir þeim, sérstaklega athugasemdir við það að breytingin á ráðningakjörum prestanna væri inngrip í sjálfstæði kirkjunnar sem samrýmdist ekki grundvallarskipan þjóðkirkjunnar. Ég held að það sé best að vitna í þetta beint, herra forseti, enda kann ég ekki betur að gera en að láta þessa umsögn tala fyrir sig sjálfa. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta felur í sér`` --- og vildi ég nú geta lesið stafsetninguna því þarna er t.d. orðið sér skrifað sjer --- ,,gjörbyltingu á grundvallarskipan þjóðkirkjunnar, ef að lögum verður. ... Síðan um siðbót hafa prestar verið forstöðumenn sjálfstæðra opinberra embætta, sem veita sóknum og prestaköllum þjónustu, en hafa fjárhagslega aldrei verið á þeirra vegum. Mikilvægt hefur jafnan verið talið að prestur væri í embætti sínu ekki öðrum háður og hefur hann því haft á bak við það kirkjueignir því til uppihalds og er svo enn, því prestar taka laun sín um ríkissjóð en ekki úr ríkissjóði og eru eignir hvers embættis á bak við þessar launagreiðslur, sbr. lög 46/1907.`` (SvG: Hvaða lög eru þetta?) Það eru nú merk lög. Ætli það sé ekki eitthvað um skipan prestakalla og kellinga. (KÁ: Þau eru um flutning kirkjueigna til ríkisins. Prestar fengu greidd laun og ...) Já. Síðan segir:

,,Rómversk-kaþólsk kirkjuskipan byggði á mikilli miðstýringu þar sem biskupar höfðu mikil völd. Þessi skipan vék fyrir lútersk-evangelískri skipan með Ordinatíunni þar sem biskupsembættinu var haldið sem tilsjónarembætti með kirkjulegum málefnum, (superintendentar) meðal annars sóknarprestsembættunum sem falið var að bera uppi þjónustuna í sóknunum á grundvelli prestakallsins. Í lúterskum sið lýtur kirkjan því ekki miðstýringu og er það bæði styrkur hennar og veikleiki.``

Síðan er að því vikið að mikil tilhneiging hafi nú reyndar verið uppi á síðustu tímum til að breyta þessu með eflingu embættis biskups Íslands. Það verður ekki farið nánar út í það, en svo segir, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu er þessi þróun mála fullkomnuð m.a. með því að afnema skipun presta til embætta sinna og fela þau forræði biskups í reynd, sbr. ákvæði 22. gr., töluliðar 5.`` --- Þ.e. þeirrar ákvörðunar að gera presta að embættismönnum eins og þar greinir og að ráðningarkjör þeirra yrðu þá sambærileg við það. --- Loks segir: ,,Með þessu er veigamiklum grundvallaratriðum fleygt burt úr kirkjuskipaninni á öðrum forsendum en kirkjulegum. Verður sú aðferð að teljast hæpin.``

Síðan kom formaður Prestafélagsins á fund efh.- og viðskn. og rökstuddi sitt mál enn betur og síðan enn með bréfi dags. 24. apríl eftir að hann hafði átt fund með nefndinni. Þar er reyndar farið enn dýpra ofan í þá þætti sem lúta að kirkjuskipaninni, vitnað í Ágsborgarjátninguna og stöðu kirkjunnar og hins kirkjulega valds gagnvart hinu veraldlega o.s.frv. Þannig að hér, herra forseti, er ekki verið að hreyfa við neinum dægurmálum eða smámálum heldur eru á ferðinni hlutir sem grípa inn í grundvallarskipan þessara mikilvægu stofnana í þjóðfélaginu. Nú er það kannski ekki svo að ræðumaður sé best til þess fallinn af öllum sem hafa málfrelsi á Alþingi að tjá sig sérstaklega um söguna á bak við þetta. Til þess eru aðrir mér lærðari a.m.k. og munu kannski leggja lið í því. En nóg veit ég þó til þess og tek fullt mark á þessu erindi, að hér er enn einu sinni á ferðinni spurning um ákveðin grundvallaratriði sem menn á furðu léttvægan hátt ætla að hrista af sér í tengslum við þetta mál, þ.e. því grundvallaratriði hvort með þessum hætti og að setja ráðningu presta inn í þetta samhengi sé verið að raska þeirri skipan sem um aldir hefur tíðkast í samskiptum kirkjunnar sem stofnunar og hins kirkjulega valds gagnvart hinu veraldlega. En það virðist ekki valda meiri hlutanum miklum andvökum þó að þessi alvarlega athugasemd berist frá kirkjunni.

Og bara til að minna á það, herra forseti, að þetta frv. varðar fleiri en þá sem nú flokkast sem opinberir starfsmenn í þeim skilningi að þeir tilheyri samtökum opinberra starfsmanna. Þetta frv., eins og leiðir af gildissviði þess, tekur einnig til þeirra starfsmanna hins opinbera sem eru félagsmenn í almennu verkalýðshreyfingunni, varðar því að sjálfsögðu einnig þá sem eru félagsmenn í Alþýðusambandi Íslands. Ég ætla því að grípa aðeins niður í umsögn þeirra.

En í leiðinni verður fyrir mér umsögn frá Félagi starfsmanna Alþingis og Félagi starfsmanna Ríkisendurskoðunar. Það er vönduð og efnislega vel útfærð og rökstudd umsögn og komið þar við ýmislegt, m.a. stöðu Alþingis gagnvart stjórnskipuninni og þrískiptingu valdsins. Einnig að þessu leyti höfðu frumvarpshöfundar ekki vandað vinnubrögð sem skyldi. Það var til að mynda þannig að sjálfstæði Alþingis og forseta Alþingis var misboðið með frv. eins og það var fram sett. Frekjan í fjmrh. á sér lítil takmörk þegar hann vill fara að segja forseta Alþingis fyrir verkum í sambandi við starfsmannamál og þvinga upp á Alþingi hinni nýju og nútímalegu starfsmannastefnu sinni. Þetta skilst mér að sé verið að reyna að lagfæra að einhverju leyti í breytingartillögu meiri hlutans en það er til marks um andann í þessu sem þetta er nefnt hér. En síðast í umsögn Félags starfsmanna Alþingis og Félags starfsmanna Ríkisendurskoðunar er vakin athygli á því að 2. mgr. 47. gr. eins og hún er hér útfærð, hljóti að orka mjög tvímælis. Það er sagt, með leyfi forseta:

,,Nauðsynlegt er að það liggi fyrir meðan frv. er til umfjöllunar á þinginu hvort ætlunin sé að 7. gr. laga nr. 94/1981, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, haldi áfram gildi sínu, en þar er kveðið á um að starfsmenn sem standa utan stéttarfélaga greiði gjald til þess stéttarfélags sem þeir ættu að tilheyra, eða hvort ætlunin sé að gera einhverjar breytingar þar á. Ekki verður annað séð af orðalagi framangreinds ákvæðis en að það verði í raun og veru stéttarfélögin sem semji fyrir hönd þessara starfsmanna líka, þótt óbeint sé.``

Hér er nákvæmlega það sama atriði á ferðinni og ég var að ræða um fyrr í minni ræðu, þ.e. að það er auðvitað ekki hægt að láta nokkurn minnsta vafa, nokkra minnstu óvissu ríkja um atriði af þessu tagi. Nóg er nú samt að ganga frá þessu eins og 2. mgr. 47. gr. gerir þó ekki bættist það við að um þetta væri óvissa. Hugsanlega yrði það úrlausnarefni dómstóla hvort mönnum væri stætt á því að neita að greiða gjald til félags sem í reynd semdi fyrir þeirra hönd og færði þeim öll sömu réttindi og sínum félagsmönnum. En þeir mundu reyna, á grundvelli lagastoðar í þessum lögum ef sett verða, að komast hjá því að greiða samt sem áður fyrir þá þjónustu sem þeir fengju þar og þau réttindi sem þeir væru að ávinna sér. Þetta verður að vera alveg á hreinu og það er ekki til að mínu mati nein fullnægjandi aðferð til þess að ganga frá því önnur en sú að setja inn í sömu lagagrein, inn í 47. gr., pósitívt ákvæði um að menn skuli greiða fyrir þá þjónustu sem þeir þannig fái.

Í umsögn Alþýðusambandsins er ósköp einfaldlega ítrekuð sú afstaða allrar verkalýðshreyfingarinnar að þessi frv. verði dregin til baka og um þessa hluti verði samið á eðlilegan hátt en ekki unnið að þeim svona.

Og þá, herra forseti, að síðustu umsögninni sem ég ætlaði aðeins að staldra við. Þá kemur hin hjáróma rödd. Þá kemur eina umsögnin sem mælir með málinu, eina ljóstýran í myrkrinu. Og hver skyldi það nú vera? Halda menn að það sé félag opinberra starfsmanna á Borðeyri eða eitthvað svoleiðis? Nei, það er auðvitað Vinnuveitendasambandið. Þar á fjmrh. bandamann. Það er dálítið merkileg tilviljun að það skuli vera Vinnuveitendasambandið sem allt í einu er svona ánægt með þetta. Nú er Vinnuveitendasambandið ekkert svo sem sérstakur aðili að þessu máli. Það er um samskipti ríkisins sem vinnuveitanda og opinberra starfsmanna. En Vinnuveitendasambandið, og það er athyglisvert hvernig tónninn er í því, fagnar þessari stefnumörkun. Það fagnar sérstaklega stefnumörkuninni sem í málinu felst. Það fagnar þessari hugmyndafræði sem hér er á ferðinni. Það er fyrst og fremst það sem gleður Vinnuveitendasambandið að nú skuli loksins vera brotið í blað og stefnumörkun og hugmyndafræði af þessu tagi komi til sögunnar. Það er sönnun þess, enn frekari en áður hefur verið færð fram, hvaða hugsun hér á bak við liggur og hvert hefur verið farið í smiðju til að sækja þessar hugmyndir eins og áður hefur verið rætt um. Síðan eru hér, herra forseti, umsagnir frá miklum fjölda félaga sem meira og minna allar falla í sama farveg.

Ég vil að lokum, herra forseti, aftur hverfa aðeins að almennri umfjöllun um stöðu málsins. (KÁ: Þingmaðurinn gleymir Nýja-Sjálandi.) Það var nú lítillega rætt hér um Nýja-Sjáland fyrr í dag þannig að ég held að því hafi verið gerð fullnægjandi skil. Vek ég þá athygli á því að það hefur enn ekki komist á stjórnmálasamband milli Íslands og Nýja-Sjálands sem er merkilegt miðað við öll þessi ósköp. Ég kannaði það í vetur hver færi með stjórnmálaumboð hér fyrir Nýja-Sjáland. Þá var mér tjáð af sendiráði þeirra eða High Comission í London að Ísland og Nýja-Sjáland hefðu ekki tekið upp stjórnmálasamband, ekki í efnislegum skilningi, það væri hér hvorki diplómat né sendiherra. Ekki nema fyrrv. fjármálaráðherra verði gerður að farandsendiherra.

Ég tel, herra forseti, að þetta mál sé alls ekki, burt séð frá pólitískum ágreiningi, þannig unnið af hálfu Alþingis að það sé forsvaranlegt að afgreiða það. Hér eru á ferðinni allt of mörg stór álitamál sem menn geta út af fyrir sig haft allar skoðanir á sem þeim sýnist, verið sammála eða ósammála. En einu geta menn ekki mótmælt og það er að það ber að vanda lagasetningu. Það ber að standa þannig að henni að þau atriði sem lögfest eru séu skýr, menn viti hvað þeir eru að gera, viti hvað þeir eru að greiða atkvæði um og það leiki ekki vafi á því hvaða réttarreglur er verið að mynda. Það liggur ekki fyrir. Þetta frv. er enn hrákasmíð og illa unnið. Það er fjarri því að hægt sé að vísa til yfirferðar efh.- og viðskn. sem fullnægjandi í þessum efnum. Það er fjarri því. Það ættu höfundar og ábyrgðaraðilar frv. að hafa sómakennd til þess að viðurkenna. Í þeirri takmörkuðu yfirferð sem efh.- viðskn. var gefinn tími til að setja í frv. komu fram fjöldamörg atriði sem voru óljós. Sum þeirra féllust menn á að þyrfti að lagfæra og það er verið að reyna að gera í breytingartillögum. En það eru mörg eftir.

[21:00]

Ég segi það alveg eins og er að það er dapurlegt að standa frammi fyrir því að það eigi að troða í gegnum Alþingi á fáeinum sólarhringum á þessum vordögum breytingum á grundvallarlöggjöf af þessu tagi eins og hér á við, lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða um stéttarfélög og vinnudeilur, mjög vandasamri löggjöf með jafnlitla vinnu að baki. Hér eru á ferðinni einstaklingsbundin réttindi manna sem verið er eða e.t.v. er verið að hrófla við. Og hvað þýðir það? Það þýðir það venju samkvæmt að menn geta leitað réttar síns ef á þeim er verið að brjóta. Dæmin sanna að mönnum hafa verið mislagðar hendur við lagasetningu af þessu tagi á undanförnum árum. Eða er hæstv. fjmrh. t.d. búinn að gleyma SR? Nægir hæstv. fjmrh. ekki undirréttardómur í því máli? Þarf að dæma hann líka í Hæstarétti svo hann átti sig á því að menn geta gert mistök? Er það virkilega svo með hæstv. fjmrh. að hann langi í bullandi málaferli á næstu árum vegna þess að menn hafa ekki vandað sig nóg í lagasetningu sem kemur inn á mjög viðkvæm atriði af þessu tagi þar sem einstaklingsbundinn og jafnvel stjórnarskrárvarinn réttur borgaranna á í hlut? Hefur hæstv. fjmrh. enga samvisku gagnvart slíku?

Hvað var sagt þegar biðlaunaákvæðin í SR-málinu voru til meðferðar? Þetta stenst ekki. Virtir lögfræðingar, þeir sömu m.a. og eru að gefa umsagnir nú og vara við atriðum eins og Gestur Jónsson, lögmaður BSRB, sögðu: Þetta stenst ekki. Þetta er einstaklingsbundinn og lögvarinn réttur manna og það er ekki hægt að taka hann af svona. Menn skeyttu ekki um það. Menn óðu fram með málið, lögfestu það og hvað gerist svo? Svo fá menn á kjaftinn fyrir dómstólunum. Er einhver sómi að þessu fyrir einhvern sem á hlut að máli? Fyrir ráðherra, fyrir Alþingi og aðra slíka? Nei, það er það ekki. Þetta er þvert á móti mjög dapurlegt. Staðreyndin er auðvitað sú að íslenskt stjórnarfar og réttarkerfi er auðvitað að mörgu leyti vanþróað í þessum efnum. Við vitum það. Við vorum langt á eftir flestum öðrum þjóðum til að taka upp og framkvæma ýmis grundvallaratriði sem nú eru viðurkennd og hafa verið um áratuga ef ekki alda skeið víða í kringum okkur. Það á sínar sögulegu skýringar og ég segi nú ekki afsakanir. En við vorum mjög fámenn þjóð og erum fámenn og áttum kannski ekki mjög ríka hefð í þessum efnum. Okkar stjórnkerfi var veikburða og sniðið að eldri tíma fyrirmynd og það gekk hægt að laga það til. En það afsakar ekki að kasta til höndunum í nútímanum þó að eitthvað eigi sér sögulegan bakgrunn. Það réttlætir ekki að umgangast viðkvæm og vandasöm mál sem varða réttindi fólks af einhverri léttúð og lausung.

Örfá orð, herra forseti, um launamálin sem slík og launakerfið sem opinberir starfsmenn búa við og launamisréttið í landinu. Það er auðvitað ekki hægt að slíta það algerlega úr samhengi við það lögbundna kerfi sem sett er sem rammi utan um kjör og starfsumhverfi opinberra starfsmanna. Við ræddum á þingi í fyrravor og áttum þá m.a. orðaskipti, ég og hæstv. fjmrh., um kynbundið launamisrétti. Það var tekið upp í kjölfar skýrslu sem Jafnréttisráð lét gera um kynbundinn launamun og launamisrétti. Og hver varð meginniðurstaða þeirrar skýrslu, herra forseti? Jú, niðurstaðan varð sú að hin kynbundni launamunur hélt samvæmt könnuninni fyrst og fremst innreið sína í gegnum launauppbætur og sporslur sem lögðust ofan á hin föstu umsömdu grunnlaun. Þeir hópar hins opinbera og úti í einkafyrirtækjunum sem fyrst og fremst tóku laun samkvæmt föstum, almennum umsömdum samningum bjuggu í grófum dráttum við launajafnrétti. Þar var ekki kynbundinn launamunur á ferð. En þegar til sögunnar komu óumsamdar uppbætur og sporslur af ýmsu tagi, þá hélt kynbundni launamunurinn innreið sína, þ.e. sá sem er hið eiginlega launamisrétti og ekki verður skýrt með neinum gjaldgengum skýringum eins og þeim að konur taki síður yfirvinnu eða sækist síður eftir ábyrgðarstöðum o.s.frv. Niðurstaða skýrslunnar var sú að þegar búið var að sigta allt þetta út og búið að reyna að jafnstilla hópana í öllu tilliti, þá var það fyrst og fremst í gegnum þetta sem launamunurinn og kynjamunurinn kom inn. Og hvað segir þetta? Þetta segir okkur væntanlega að þeim mun meira sem er um þetta og þeim mun stærri hluti af laununum sem verður í þessu formi, þeim mun verra. Þeim mun meiri verður launamunurinn. Fjmrh. fékk að vísu þá kostulegu útkomu út úr þessu að einmitt þess vegna væri best að henda öllum samningum og láta bara hvern og einn baksa við að semja fyrir sig. Mér skildist þá á hæstv. fjmrh. að hann ætlaði einmitt að útrýma kynbundnu launamisrétti þannig að henda öllum almennum samningum. Ég fékk akkúrat gagnstæða niðurstöðu út. Ég sé ekki betur en þetta sanni að langsterkasta tækið til þess að reyna að sporna gegn kynbundnum launamun sé í gegnum samninga, í gegnum það að sem allra hæsti hluti af launum fólks sé fastur og umsaminn. Ég held að í mörgu tilliti sé það líka farsælasta niðurstaðan að launin og lífskjörin komi sem allra mest í gegnum slíka fasta samninga á félagslegum grunni þar sem menn standa jafnir að vígi.

Herra forseti. Auðvitað hefði verið ánægjulegra að ræða aðra hluti sem tengdust launum fólks í landinu núna en þetta. Til dæmis þá að reyna að hífa upp kaupið og stytta vinnuvikuna, draga úr vinnuþrældómnum, en þar skera Íslendingar sig algerlega úr borið saman við aðrar þjóðir. En það er ekki þetta sem verður mönnum að umræðuefni. Það er því miður þannig að þetta mál boðar ekki framför í neinu tilliti séð, ekki neinu. Það er erfitt að benda á nokkurn skapaðan hlut sem lýtur að því að það sé verið að laga þá ágalla í launamálum okkar á Íslandi eða vinnuumhverfi sem mönnum er kannski mestur þyrnir í augum. Það er ekki þannig. Ætli það sé ekki þannig að umsamin grunnlaun á Íslandi séu núna hjá opinberum starfsmönnum nálægt því að vera helmingur til 40% af því sem þau eru í sumum nágrannalöndunum? Ætli kennarar í Noregi séu ekki með svona tvöföld til tvö- og hálfföld föst laun kennara á Íslandi, minni kennsluskyldu og að mörgu öðru leyti betri kjör þar fyrir utan? Ég hef það ekki nákvæmlega undir höndum en ég er ekki fjarri því að grunnlaun kennara miðað við meðalstarfsaldur sé milli 80--90 þús. í dag ef við tökum grunnskólakennara með 28 tíma kennsluskyldu sem jafngildir a.m.k. 40 tíma vinnuviku og síðan alla þá yfirvinnu sem menn gjarnan hlaða ofan á það. En a.m.k. er þetta tvöfalt ef ekki tvö og hálffalt í Noregi. Erum við að ræða um þetta? Felast einhverjar úrbætur að þessu leyti í frumvörpum hæstv. ríkisstjórnar? Verður þetta að lið í baráttunni við landflóttann og atgervisflóttann sem ýmsir hafa áhyggjur af? Er verið að taka á slíkum málum hér? Nei. Í raun og veru er ekki hægt að setja þumalinn á nokkurn skapaðan hlut hér sem hægt er að segja að horfi sérstaklega til heilla eða boði nýja tíma í þessum samskiptum. Og það er harla dapurlegt.

Það segir, herra forseti, í gömlu máltæki að ekki verði feigum forðað né ófeigum í hel komið og kannski er það þannig með hæstv. ríkisstjórn að hún verði bara að fá að ana út í fenið. Það verði ekki vitinu fyrir hana komið hvernig sem reynt er. Ég tel að verkalýðshreyfingin hafi reynt á ábyrgan og málefnalegan hátt að fá ríkisstjórnina ofan af þessu feigðarflani með því að mótmæla þessum vinnubrögðum og krefjast þess að frumvörpin verði dregin til baka, en bjóða jafnframt upp á viðræður og samningaferli um þessi mál. Ég skil ekki, herra forseti, hvers vegna í ósköpunum ríkisstjórnin þekkist ekki það boð.

Hvers vegna í ósköpunum t.d. þiggur ekki hæstv. fjmrh. það að setjast til viðræðna við opinbera starfsmenn í sumar um þessi mál til hliðar við það að farið verði að undirbúa gerð næstu kjarasamninga? Dettur hæstv. fjmrh. ekki í hug að það gæti verið svolítið sniðugur leikur núna að reyna að skapa aftur jákvætt andrúmsloft milli þessara aðila líka til undirbúnings þeim hlutum? Eða man hæstv. fjmrh. ekkert eftir því að það kemur að hausti og síðan vetri og svo koma áramót og kjarasamningar verða lausir? Það er sagt að gömlu Gallarnir hafi haft að máltæki: ,,Morgundagurinn kemur aldrei.`` Þeir vildu hrinda frá sér áhyggjum af því sem fram undan væri og höfðu reyndar að sögn ekki áhyggjur af neinu öðru en því að himinninn kynni að falla í höfuðið á þeim. En það er nokkuð síðan. Þetta var á fyrstu öldunum eftir Krists burð sem þessi fílósófía var uppi. Getur verið að hún hafi gengið aftur núna uppi á Íslandi í kolli hæstv. fjmrh. rétt fyrir aldamótaárið? Það kemur enginn morgundagur og ekkert að óttast nema hugsanlega það að himinninn falli í höfuðið á honum. Að öðru leyti er ekki ástæða til þess að hafa áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut, a.m.k. ekki því að það verði eitthvað ófriðlegt í samskiptum við verkalýðshreyfinguna þrátt fyrir þessar aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar.

Ég held að hér sé alveg stórkostlega hættuleg málafylgja á ferðinni, hæstv. forseti. Mér líst illa á það ef ríkisstjórnin í gegnum þennan fautaskap ætlar að sólunda þeim ávinningi sem með ærnum fórnum hefur verið dreginn að landi í sambandi við hluti eins og þá að ná niður verðbólgu og skapa stöðugleika í verðlagi. Það hefur síður en svo verið útlátalaust vegna þess að það er óumdeilt að í því skyni hafa almennir launamenn í landinu í raun og veru fært fórnir. Það er hluti af þeirri mynd sem við erum að tala um þegar við berum saman tímakaup á Íslandi við það sem er í nágrannalöndunum að menn hafa sl. 5--6 ár verið með launin meira og minna fryst. Það var sú fórn sem var færð til þess að ná niður verðbólgunni og ná stöðugleika í verðlagi að launin voru í reynd meira og minna fryst og þar af leiðandi skertust lífskjörin í þó nokkrum mæli einkum framan af þessum tíma vegna þess að þá var enn ákveðin verðrýrnun í gangi. Þessi samanburður, herra forseti, er að verða okkur erfðari með hverju árinu sem líður. Með hverju árinu sem líður þola menn það verr. Eftir því sem allur samanburður er auðveldari og það er minna mál fyrir fólk að hreyfa sig milli landa þola menn það verr og verr að það skuli halla svo stórkostlega á okkur hér, ekki bara í kaupi heldur í lífskjörum og aðstæðum öllum. Það er ekki síður vinnuþrældómurinn og þær aðstæður sem fjölskyldum eru búnar uppi á Íslandi sem er að verða óþolandi þegar þennan samanburð ber á góma. Mér finnst því nöturlegt, herra forseti, að þegar við ættum að vera að fjalla um mál sem vísuðu til framtíðar þar sem menn væru að reyna að taka á þessu og rétta hlut okkar, erum við þveröfugt föst í umræðum um þá fornaldareinræðishyggju sem hér er á ferðinni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég bind enn vonir við að það takist að koma í veg fyrir þessi ósköp. Við munum að sjálfsögðu gera allt sem við getum til þess, stjórnarandstaðan, minni hlutinn, að koma í veg fyrir það að þetta gerist en við ráðum því að sjálfsögðu ekki. Að lokum verður það í valdi meiri hlutans hvort hann neytir aflsmunar og olnbogar þetta í gegn í andstöðu við allt og alla en það er ógæfulegt og ég get ekki sagt annað en það að mér finnst eðlilegt og sanngjarnt að þeir menn sofi illa sem þannig standa að málum.