Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 21:18:23 (5749)

1996-05-07 21:18:23# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[21:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég get með mikilli ánægju rifjað þetta upp. Þá verður að vísu seinni ræða mín nokkuð löng en ég skal reyna að fara yfir það í mjög ítarlegu máli hvernig þetta gekk til 1989--1990. Það er einmitt einn vandi þessa máls, hæstv. fjmrh., fyrir okkur hin sem erum að reyna að ræða þetta málefnalega að staða ríkisvaldsins sem framkvæmdarvalds og vinnuveitanda og Alþingis sem vinnuveitanda og löggjafa er alveg sérstaklega vandasöm í samskiptum sínum við opinbera starfsmenn því að Alþingi og ríkisstjórn er hvort tveggja í senn í þessum skilningi. Annars vegar er það vinnuveitandi og sérstaklega auðvitað fjmrh. en hins vegar er svo á ferðinni sá hinn sami aðili sem fer með framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið. Þeim mun meir verða menn að vanda sig í þessum samskiptum.

Nú skulum við segja að það hafi verið vond uppákoma sem þarna varð 1989--1990, samanber þessa röksemdafærslu hæstv. fjmrh. að svo skuli böl bæta að benda á annað verra. En er það þá fordæmi til þess fyrir hæstv. fjmrh. að gera slíkt hið sama eða eitthvað í þá veru? Til hvers er hæstv. fjmrh. að rifja þetta upp? Er það til þess að segja að það séu einhverjir samsekir? Er það það sem hæstv. ráðherra huggar sig við? Er hann sem sagt að líkja gerningi sínum núna við þetta mál? Það getur vel verið að hæstv. ráðherra vilji fara út í umræðurnar á þessum grunni en ég tel það ekki sérlega uppbyggilegt eða málefnalegt. Hvað varðar bráðabirgðalög, þá ætti hæstv. ráðherra ekki að verða flökurt. Ég veit ekki betur en bæði fyrri ríkisstjórn sem hæstv. ráðherra sat í og aðrar sem hann ber nokkra ábyrgð á hafi iðulega gripið til þess, m.a. tekið af með bráðabirgðalögum frægan kjaradóm sem var nokkuð umtalað fyrir nokkrum árum þannig ef við erum komnir út í þessa samanburðarfræði þá held ég að það hallist ekki mikið á í því heldur.

En að öðru leyti, herra forseti, er þetta varla svara vert, svona andsvar sem er ekki efnislegt og skætingur út íloftið um óskylda hluti kostar varla svör.