Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 21:20:41 (5750)

1996-05-07 21:20:41# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[21:20]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er hægt að segja að þetta sé ekki svara vert og reyna að svara út í hött þegar maður kemur upp í andsvari. Ástæðan fyrir því að ég kem upp er sú að það var sagt í ræðu hv. þm., reyndar snemma dags, að það væri grundvallarregla sem hann vildi fylgja að virða samninga. Ég vildi aðeins benda hv. þm. á það og öðrum þeim sem heyra mál mitt að þetta fer sérkennilega úr munni hv. þm. Til viðbótar virtist hann hafa mikinn áhuga á því að koma því til skila að hann hefði áhyggjur af lágum launum opinberra starfsmanna. Sá maður sem bannaði með bráðabirgðalögum að þau yrðu hækkuð mánuðum saman og sá maður sem sat í ríkisstjórn á tíma í þrjú ár þegar kaupmáttur launa lækkaði um 20%. Þetta er auðvitað efnislegt andsvar við ræðu hv. þm. þó að það sé ekki langt andsvar á móti þriggja klukkutíma ræðu hv. þm. Þetta skiptir máli að komi fram í þessari umræðu og ég vil segja það að lokum að í þessu frv. er ekki verið að snerta við réttindum sem samið hefur verið um í kjarasamningum. Það er grundvallarmunur á því sem verið er að gera núna og var gert þá og það er gert núna eftir að leitað var eftir samráði við forustumenn opinberra starfsmanna. Það var lagt fram á þingi frv. sem hefur fengið ítarlega umfjöllun. Það hafa verið sóttir fundir og málið rætt og þetta frv. er ekki orðið að lögum, það lá ekkert frv. fyrir sumarið 1990, nei. Það voru bara höfðingjarnir sem nú þykjast vera hluti af Alþingi götunnar sem komu saman og sögðu: Við tökum allt til baka sem við sjálfir höfum samið um við launafólkið.

Þetta þarf nauðsynlega að koma fram, virðulegi forseti, áður en hv. þingmenn úr þessum flokki og öðrum þeim sem þá áttu sæti í ríkisstjórn koma upp og ræða klukkutímum saman um þetta mál sem hér er á dagskrá til að koma í veg fyrir að það sé hægt að afgreiða það lýðræðislega.