Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 22:42:24 (5753)

1996-05-07 22:42:24# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[22:42]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var á ýmsan hátt athyglisverð ræða sem hér var flutt. Ég vil í fyrsta lagi segja frá því að það er rangt þegar því er haldið fram að það hafi ekki verið reynt að hafa samráð við opinbera starfsmenn. Ég vil minna á það að fyrsta yfirlýsing frá mér um breytingar á þessum málum kom árið 1994. Í ágúst sl. var farið af stað með þetta nefndarstarf. Hinn 12. desember var sent út bréf til þriggja samtaka og við fengum svar frá einu þeirra. 6. febrúar var meginstefnan kynnt, 12. febrúar fóru frumdrögin til þessara aðila. Þeir kusu hins vegar, og ég hef ekkert láð þeim það, að fara með málið út og berjast gegn frumdrögunum. Að svo komnu máli var ekki um annað að ræða í málinu en að leggja fram frv. þar sem menn gætu séð svart á hvítu um hvað málið snerist. Ég lýsti því yfir þá að ég væri tilbúinn til að ræða við opinbera starfsmenn. Ég hef fengið a.m.k. tvær beiðnir. Önnur var sú að koma á fund hjá BSRB og þangað fór ég. Hin er að ræða við starfsmenn sem koma til mín í fyrramálið. Það var beðið um fund um þetta mál. Það hefur aldrei strandað á samráði af okkar hálfu. Þetta vil ég að komi fram. (ÖJ: Það er ósatt.)

Varðandi kjarasamningajöfnu sem hv. þm. minntist á hafa starfsöryggi, þar innifalið öruggur vinnuveitandi, veikinda- og fæðingarorlof, uppsagnarákvæði vegna áminningarskyldunnar og lífeyrisréttindin verið þau atriði sem hafa verið talin upp þegar menn tala um laun. Það hefur hins vegar aldrei svo mér hefur er kunnugt um verið minnst á ráðningarfestuna eða æviráðninguna og biðlaunaréttinn í þessu sambandi. Það hefur ekki verið gert, ekki svo ég kannist við. Enda starfa hjá ríkinu saman hlið við hlið annars vegar menn sem eru æviráðnir eða með ótímabundna ráðningu og hinir sem eru á þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti á nákvæmlega sömu launum. Og þannig hefur þetta verið undanfarin 10 ár.