Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 22:49:16 (5756)

1996-05-07 22:49:16# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[22:49]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Í máli mínu áðan fór ég nokkrum orðum um þá hörmulegu sjóferð sem hæstv. félmrh. lagði upp í. Hann steytti á skerjum alþjóðlegra skuldbindinga og er nú með frv. sitt í slitrum. Eftir að hafa hlustað nú í tvígang á sömu ræðuna hjá hæstv. fjmrh. er ég kominn á þá skoðun að hæstv. fjmrh. sé einhver misskildasti maður sem nú er uppi. Mér satt að segja rennur það til rifja að hér skuli vera svona mikill misskilningur á ferðinni. Það er með öðrum orðum alveg ljóst að hæstv. fjmrh. er allur af vilja gerður að setjast að samningaborði og hlusta á mótaðilann. Hann hefur engar fyrirframhugmyndir í því efni. Hann er reiðubúinn skilyrðislaust til viðræðna og samninga til þess að láta reyna á hvort hægt er að skapa samstöðu um niðurstöðurnar. Þetta er stórpólitísk yfirlýsing. Ég fagna henni að sjálfsögðu. Það eina sem ég fer fram á er að nú fylgi athafnir orðum. Að nú sitjum við ekki bara yfir þessu einhliða frv., svart á hvítu, heldur verði þessum yfirlýsingum fylgt eftir. Og ég skora á fulltrúa opinberra starfsmanna að taka í útrétta sáttarhönd hæstv. fjmrh. Ég minni á að í þeim viðmiðunarlöndum sem vikið er að í greinargerðinni tók þetta fjögur ár. Við erum að sumra áliti meiri verkmenn, meiri afkastamenn eða skorpumenn, við gætum kannski lokið þessu á skemmri tíma. En þetta er rétta leiðin.

Að því er varðar jöfnuna ætla ég ekki að standa í meira karpi við hæstv. fjmrh. Það vita allir menn, þeir þurfa ekki að hafa verið fyrrv. fjmrh. til þess, að í samningaþófinu um kaup og kjör við opinbera starfsmenn er allur réttindapakkinn umhverfis samningana í mjög mörgum greinum. Ég hef ekki tíma til að telja upp ígildi launa. Og það að þau eru skert er þá forsenda eða ástæða fyrir vilja til samninga. Við verðum að bæta það.