Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 22:51:50 (5757)

1996-05-07 22:51:50# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[22:51]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Menn fá reynslu af vinnumarkaðnum með ýmsum hætti. Hv. þm. sem hér talaði á undan og sá sem talaði þar á undan fengu sína eldskírn á vinnumarkaði með því að reka fjmrh. þáv. einu sinni frá verki og gera vitlausustu kjarasamninga Íslandssögunnar og þurftu síðan að éta það ofan í sig með lagasetningu skömmu síðar. (JBH: Er hægt að fá skýrt við hvern hv. þm. á?)

(Forseti (ÓE): Ekki frammíköll.)

Það þarf ekki að koma neinum á óvart þótt opinberir starfsmenn muni setja einhvern verðmiða á þau takmörk sem verða þegar biðlaun eru takmörkuð með þeim hætti sem gert er í frv. og eins þegar æviráðningin er afnumin. En það hlýtur að leysast í næstu kjarasamningum og það tjón sem menn verða fyrir af þessum sökum er ekki þvílíkt að það raski neinu sem nemur.

Varðandi þá hugmynd sem fram kom í efh.- og viðskn. um það að setja stjórnir yfir ríkisstofnanir má taka það fram að það eru stjórnir til staðar í mjög mörgum ríkisstofnunum. Reyndar hefur á tímabili núv. efh.- og viðskn. tvisvar sinnum verið ákveðið að setja stjórn yfir ríkisstofnanir að frumkvæði nefndarinnar. Í annað skipti var það þegar lögin um ÁTVR fóru í gegn hér í fyrravor. Þá þótti slík aðgerð vera hin versta aðför að forstjóra þess fyrirtækis og helst að þetta væri einhver slæm hugmyndafræði ofan úr Verslunarráði sem þarna réði ferðinni. Í seinna skiptið var verið að setja stjórn yfir Löggildingarstofuna. Það var gert nú fyrir jólin en það var allgóð samstaða um það. Ég hygg að það sé til bóta yfirleitt að setja stjórnir yfir ríkisstofnanir en ég hygg að það eigi ekki heima í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins heldur ætti að gera það með öðrum hætti.