Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 22:54:13 (5758)

1996-05-07 22:54:13# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[22:54]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. formaður efh.- og viðskn., Vilhjálmur Egilsson, rifjar upp að það hafi þótt hin mesta goðgá í vor þegar þeirri tillögu var hreyft að setja upp sérstaka stjórn við hliðina á forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins þegar verið var að breyta þeirri stofnun í framhaldi af EES-samningunum.

Ég vil rifja það upp að sá sem hér stendur var eindregið fylgjandi því að sú stjórn yrði sett. Og ef við erum báðir sammála um það þá erum við sammála um gott fordæmi. Ef hægt er að nefna fleiri dæmi sem auðvitað eru til er svarið þetta: Ég skil ekki hvers vegna menn vilja ekki leggja það á sig að girða fyrir tortryggni og eyða henni að því er varðar hættuna á geðþóttavaldi forstjóra með því að gera þetta að meginreglu. Það má vel vera rétt hjá hv. þm. að það eigi ekki heima í frv. til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna frekar en margt annað sem á ekkert heima í þessu frv. og að við setjum það fram í öðrum lagabúningi. En ef við erum sammála um þetta þá eru það tíðindi fyrir mig vegna þess að við erum búnir að tala fyrir þessu máli, þessari hugmynd og þessari tillögu mjög lengi innan efh.- og viðskn. og fengum ekki þau svör að þótt þetta ætti ekki heima í þessu frv. þá væri sjálfsagt að taka undir það.

Að því er varðar síðan dulmálið sem hv. formaður efh.- og viðskn. fór með hér um fjmrh. sem aðilar vinnumarkaðarins þá vöktu einhvern tímann upp úr rúminu og forðuðu frá fólskuverkum finnst mér að hann ætti að hafa kjark til þess að taka það skýrt fram við hvern hann á svo allir fyrrv. fjmrh. liggi ekki óbættir hjá garði eða undir sömu sök seldir að ósekju.