Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 22:59:40 (5761)

1996-05-07 22:59:40# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[22:59]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. kvartar yfir því að hér séu fluttar langar ræður og jafnvel sömu ræðurnar aftur og aftur. Hann verður nú að þola það því hér er um afar stórt mál að ræða.

Eins og ég sagði fyrr í dag í andsvari, hygg ég að hér sé á ferðinni stærsta mál þessa þings og kannski það alalvarlegasta því að það sem við erum hér að ræða er háalvarlegt mál, mál sem verður að skoða í samhengi við önnur mál sem eru til meðferðar á hinu háa Alþingi. Þar er ég að vísa til frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem er til meðferðar í félmn. Ég er að vísa til frv. um breytinguna á Pósti og síma. Ég er að vísa til framhaldsskólafrv. Og það kunna að vera fleiri frv. sem öll lúta að þessu sama, þ.e. að ryðja brautina fyrir einkavæðinguna og því að koma hér á einhverju sem hv. ríkisstjórn kallar nútímalega stjórnunarhætti og ég ætla að koma að alveg sérstaklega á eftir.

Hæstv. forseti. Ég tel mig vera seinþreytta til vandræða en það sem hér er að gerast í öllum þessum frv. er í rauninni svo hrikalegt að það er ekki annað hægt en hafa þungar og miklar áhyggjur af því. Það var rakið áðan og ég ætla ekki að fara að endurtaka þá sögu, að hæstv. félmrh. lagði fram frv. sem reyndist ekki standast alþjóðlega sáttmála sem við erum aðilar að, að dómi lögmanna sem voru beðnir að skoða það sérstaklega. Aðrir lögmenn sem hafa verið kallaðir til telja það frv. brjóta í bága við mannréttindasáttmála og alþjóðlega sáttmála aðra í miklu fleiri atriðum en þessir tveir lögmenn sem unnu álit Lagastofnunar. Ég er að tala hér um þrjá lögmenn sem hafa verið kallaðir fyrir nefndina. Því miður hefur ákaflega lítið verið kannað hvernig það frv. sem við erum hér að ræða í kvöld stenst alþjóðlega sáttmála, þó það hafi verið margítrekað bent á það, m.a. í umsögnum BHM, að mörg atriði frv. standist hugsanlega jafnvel ekki eignarskrárákvæði stjórnarskrárinnar, ákvæðin um félagafrelsi, ákvæðin um rétt manna til að vera í félögum og stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Á öll þessi atriði hefur verið bent en því miður hefur nánast engin skoðun farið fram á því hvernig frv. stenst þetta. Þetta er mjög alvarlegt vegna þess að ég er alveg sannfærð um það og vil gera það hér að sérstöku umræðuefni, að verði frv. samþykkt þá á það eftir að hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Það á eftir að hafa mjög alvarlegar afleiðingar á vinnuanda hjá stofnunum ríkisins. Það á eflaust eftir að valda því sem kallað er atgervisflótti ef fólk á annarra kosta völ. Eftir því sem efnahagslífið tekur betur við sér eru auðvitað ýmsir möguleikar að opnast.

Ég hygg að frv. eigi eftir að valda mjög mikilli óánægju vegna þeirra réttindasviptingar sem hér á sér stað. Þegar menn eru að tala hér af einhverju léttlyndi um biðlaun og æviráðningu þá eru þetta auðvitað réttindi sem skipta fólk máli. Þó það megi segja sem svo að það geti verið óeðlilegt að fólk fari úr einu starfi í annað og sé á tvöföldum launum þá gildir það um hluta þeirra starfsmanna sem slíkt kemur fyrir að fólk lækkar í launum. Fólk getur lækkað í launum t.d. þegar ríkisfyrirtækjum er breytt í hlutafélög og hlutur ríkisins síðan seldur. Þetta getur haft í för og hefur í för með sér réttindasviptingu. Það gildir t.d. um þá sem fara út á almennan vinnumarkað að fæðingarorlof er þar miklu lakara en hjá ríkinu. Með þessum breytingum er verið að svipta fólk réttindum og að ryðja brautina fyrir frekari réttindasviptingu. Þetta tengist frv. sem ég nefndi áðan, um stéttarfélög og vinnudeildur, þar sem er verið að breyta öllu umhverfi vinnumarkaðarins.

Það er því miður ekki rétt sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar að það sé ekkert eftir í frv. félmrh. Það liggja fyrir nokkrar breytingartillögu sem ég ætla ekki að gera grein fyrir hér. Þær munu koma fram þegar þar að kemur. En málið er alveg jafnvont nú og það var. Tillögurnar sem verið er að leggja þar fram til breytinga eru jafnvel enn þá vitlausari en það sem var í upphaflega frv. og standast ekkert frekar alþjóðlega sáttmála en það sem upphaflega var þar að finna. (Gripið fram í.) Já, þetta kallar allt á mikla skoðun og fyrst og fremst spurningar um það hvað verið sé að gera. Hvað er verið að gera og hver er tilgangurinn með þessu? Hver er tilgangurinn, hæstv. fjmrh.? Það sér hver maður að það er engin skynsemi í því að vera sífellt að ala á óánægju opinberra starfsmanna. Það hefur komið fram í allri þessari umræðu --- og nú vitna ég enn til umræðunnar um stéttarfélög og vinnudeildur vegna þess að þetta hangir allt saman, það verður að skoða þetta sem verið er að gera allt í samhengi. Allt saman. Það er verið að breyta öllu vinnumarkaðsumhverfinu hvort sem það er á almennum markaði eða hjá ríkinu. --- Og það hefur margoft komið fram að reynsla opinberra starfsmanna af þeim reglum sem gilda hjá hinu opinbera um verkfallsboðanir, um samninga við ríkið og annað sem lýtur að þessum samskiptum ríkisins og opinberra starfsmanna, hefur verið í afar slæmum farvegi.

Eins og margbent er á í gögnum sem þessum málum fylgja hafa verkföll undanfarin ár fyrst og fremst verið í röðum opinberra starfsmanna, hvert verkfallið á fætur öðru, harðvítug og löng verkföll. Þetta segir okkur mikla sögu um samskipti ríkisins og starfsmanna þess. Svo koma menn með þessa frumvarpsnefnu og boða nýja starfsmannastefnu. Nýja stjórnarhætti hjá hinu opinbera. Það á að gera stjórnun ríkisins og stofnana þess nútímalegri í kjölfarið á öllum þessum deilum. Og hvernig er þetta gert? Þetta er gert með því að það er verið að þvinga frv. í gegn um þingið. Hér eru stjórnarsinnar náttúrlega ekki margir. Þeir iðka það yfirleitt ekki að fylgjast með þessum frv. og eru ekki að setja sig inn í þá gagnrýni sem kemur fram á málin vegna þess að þeir vilja ekkert vita um gagnrýnina. Þeir vilja ekki ... (Gripið fram í.) Ég á við báða stjórnarflokkana. Það er enginn einasti framsóknarmaður hér. Þeir vilja ekkert vita um þessa miklu gagnrýni og þessar stóru spurningar sem hafa komið fram varðandi þetta frv. Nei, þetta er allt saman gert í nafni nútíma og nútímalegra stjórnarhátta en það blasir við okkur að það þarf að grípa til aðgerða til að bæta vinnuandann hjá ríkinu, til að bæta stöðu starfsmanna ríkisins. Ég hef sjálf lagt fram tillögu um endurskoðun á launakerfi ríkisins vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að launakerfi ríkisins sé handónýtt. Það kom að vísu einn --- ég held hann sé formaður samninganefndar ríkisins --- á fund efh.- og viðskn. og rakti þar fyrir okkur hversu gott þetta launakerfi væri. Hvað þetta væri nú bara fínt kerfi. Ofboðslega gott kerfi. Þó hefur ekki linnt verkföllum árum saman, auðvitað fyrst og fremst vegna óánægju með launakerfið. Ég get nefnt það í því samhengi að það eru fyrst og fremst kvennastéttirnar sem hafa verið í verkföllum. Af því að ég nefndi þessa tillögu, þá rek ég hér í fylgiskjölum öll þau málaferli sem opinberir starfsmenn, BSRB og BHM hafa lagt út í á undanförnum árum. Þeir eru sífellt og endalaust í málaferlum við ríkið út af alls konar málum sem upp koma. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hvers konar samskipti eru þetta? Eru það þessir nútímalegu stjórnarhættir? Eða ætlar hæstv. fjmrh. að breyta um kúrs þegar búið er að samþykkja þetta lagafrv. og á þá öllu að linna? Á þá fólk að verða svo ánægt með þetta að það verði ekki fleiri málaferli þegar búið er að svipta fólk réttindum? Nei, hæstv. fjmrh. þetta frv. mun kalla á enn þá fleiri málaferli og kærur. Ég spái því að þessi lög verði kærð fyrir Alþjóðavinnumálastofnuninni vegna þess að þau standast ekki mannréttindaákvæði, þau standast ekki íslensku stjórnarskrána, þau standast ekki þær alþjóðasamþykktir sem við höfum samþykkt. Þetta er nýi stjórnunarstíllinn.

Ég ætla aðeins að víkja að honum sérstaklega vegna þess að ég verð að viðurkenna að sú lýsing sem kemur fram í þessu frv., þær lagagreinar sem verið er að breyta, koma alls ekki heim og saman við það sem ég veit um nýjan stjórnunarstíl því ég hef kynnt mér það töluvert. Ég get rifjað það upp að ég átti þess kost fyrir tveimur árum að ferðast um Bandaríkin þar sem m.a. var verið að kynna fyrirtækjarekstur og ýmsar stofnanir hins opinbera. Þar kom margt fram um nýjan stjórnunarstíl. Ég setti niður á blað ýmislegt og tíndi til greinar sem ég vil gjarnan lána hæstv. fjmrh. því hann þarf greinilega að kynna sér hvað felst í hinum svokallaða nýja stjórnunarstíl. Hann hefur kannski lesið eitthvað um hann, e.t.v. aðallega greinar frá Nýja-Sjálandi eða þá að hann man bara þær upplýsingar sem fram komu í máli Ruth Richardson, fyrrv. fjármálaráðherra á Nýja-Sjálandi, þegar hún var hér á ferð og lýsti því að ein mikilvægasta og mesta breytingin sem hefði verið gerð á stjórnkerfinu þar væri að breyta lögunum um opinbera starfsmenn og breyta öllum lögum um kjarasamninga í þeim tilgangi að gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri. Sennilega hefur það tekist að einhverju leyti því að í Morgunblaðsviðtali við hana á sínum tíma í nóvember sagði hún einmitt að vinnumarkaðurinn hefði verið leystur úr gíslingu hins mikla samflots þar sem allir voru negldir saman í sömu kjarasamningana. Hvar kemur þetta nú heim og saman? Í frv. hæstv. félmrh. er einmitt verið að beina öllum inn í þetta blessaða samflot. Þar gengur öll hugsun út á það að fá heildarsamninga. Síðan kemur fjmrh. með sinn nýja stjórnunarstíl og talar um valddreifingu og að færa vald til stofnana. En það er bara ekkert slíkt að finna í þessu frv.

Hvað er það sem einkennir hinn nýja stjórnunarstíl eins og hann er kenndur t.d. í Bandaríkjunum? Fyrsta grundvallarregla er samvinna og samráð? Samvinna og samráð. Það er nú einmitt það sem hefur skort svo átakanlega í allri þessari vinnu. Hæstv. fjmrh. lýsti því áðan að aldrei hafi strandað á samráði, aldrei strandaði neitt á samráði. En hvað kallar hann samráð? Það væri fróðlegt að fá upplýst hvað hann kallar samráð. Er það eitthvert samráð að kynna fólki drög að frv.? Er það samráð? Er það samráð að taka ekki tilliti til þeirra athugasemda sem fram koma? Ég get vitnað til þess sem fram kom hjá fulltrúum opinberra starfsmanna sem komu á fund félmn. í gærkvöldi og sögðu: ,,Til hvers er verið að kalla okkur endalaust á nefndarfundi og eyða fyrir okkur mörgum klukkustundum þegar ekkert er hlustað á það sem við segjum, þegar ekkert tillit er tekið til þess sem við höfum fram að færa?`` Er þetta samráðið? Er þetta það sem hæstv. fjmrh. á við með samráði?

[23:15]

Önnur grundvallarreglan í hinum nýja stjórnunarstíl --- og nú vísa ég til Bandaríkjanna. Ég þykist vita að hæstv. fjmrh. hafi ekki mjög mikla andúð á Bandaríkjunum eða sé mjög gagnrýninn á stjórnarfarið þar í landi. --- Önnur reglan er þátttaka og áhrif starfsmanna. Að starfsmenn hafi áhrif á ákvarðanir í stofnunum sínum og fyrirtækjum og þeir séu kallaðir til þátttöku. Enn ein reglan er jafnrétti á vinnustað. Eins mikið jafnrétti á vinnustað og hægt er að koma á. Jafnrétti milli kynjanna, jafnrétti milli yfirboðara og undirmanna. Enn ein reglan er vinsamlegt umhverfi sem felst ekki bara í fallegum húsum og innréttingum heldur vinsamlegt andrúmsloft milli starfsmanna, það sem hefur verið þýtt sem vinnuandi á íslensku, og er ákaflega mikilvægt hugtak og er auðvitað það sem hæstv. fjmrh. er að spilla með sínu frv. Enn ein reglan er sú að þeir sem stjórna eigi að deila valdi sínu og þekkingu, þeir eigi að deila valdinu með þeim sem þeir vinna með og liggja ekki á þekkingunni heldur deila henni. Það á að ýta undir starfsmenn í störfum þeirra að þeir sýni frumkvæði og að þeim sé vel launað og hrósað fyrir það sem er gert vel. Einnig að ýta undir sjálfsvirðingu starfsmanna og loks að bera virðingu fyrir fjölskyldu og fjölskyldulífi starfsmanna. Þetta er það sem ég hef séð sem meginreglur þess sem er kallað nýr stjórnunarstíll og er oft kenndur við konur og þau áhrif sem konur hafa haft á fyrirtækjarekstur, m.a. í Bandaríkjunum. Ég get veifað hér greinum sem sanna það sem ég hef hér verið að segja.

En hvað er það sem hæstv. fjmrh. er að gera í sínu frv. og öðrum þeim frv. sem við erum að ræða hér? Þar er verið að draga úr áhrifum starfsmanna. Það er verið að draga úr áhrifum starfsmanna við að taka ákvarðanir. Þar get ég t.d. vísað til framhaldsskólafrv. þar sem m.a. er verið að taka kennara út úr skólanefndum. Það verður ekki vart við snefil af einhverju sem kalla mætti atvinnulýðræði eða aukin áhrif starfsmanna ríkisins í þessu frv. Nei, hér gengur allt út á að styrkja stöðu yfirmanna, yfirboðara, og þó það sé sett fram sem grundvallarhugmynd að það eigi að styrkja sjálfstæði stofnana og þar með að koma á valddreifingu þá er það bara alls ekki gert. Fjmrh. og fjmrn. eru með puttana í þessu öllu saman. Allt felur þetta í sér mikla miðstýringu og fornaldarleg viðhorf. Þetta eru gamaldags og úrelt viðhorf til starfs og starfshátta og þeirra áhrifa sem fólk á að hafa á umhverfi sitt. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvaðan eru þessar hugmyndir komnar og hvernig rökstyður hann það að hér sé um nýjan stjórnunarstíl að ræða? Þetta er nákvæmlega eins og menn hafa gengið fram áratugum og jafnvel öldum saman að deila og drottna. Það er stefnan í þessu.

Þá ætla ég að koma aðeins betur að aðdraganda þessa máls sem er nauðsynlegt að rekja hér vegna þess að það er ljóst að við erum að gera breytingar á býsna gömlum lögum, lögum frá 1954, sem áttu sér allnokkurn aðdraganda. Ef ég man rétt voru fyrstu lögin um opinbera starfsmenn sett 1915 og þar var réttur þeirra takmarkaður mjög verulega en eftir síðari heimsstyrjöldina þótti mönnum ástæða til að festa í lög ýmis félagsleg réttindi opinberra starfsmanna sem þýddi þó að þeir höfðu ekki verkfallsrétt. Reyndar var það svo að hluti opinberra starfsmanna hafði ekki einu sinni samningsrétt heldur bjó við það að launanefnd ákvað launakjörin og síðan Kjaradómur. Það sem skiptir máli varðandi þær breytingar sem hafa verið gerðar á stöðu opinberra starfsmanna eftir 1954 er auðvitað það að samið var um þau réttindi sem bættust við. Að vísu voru opinberir starfsmenn ekki ánægðir með allt sem var að finna í þeim lögum sem sett voru en það var þó að undangengnum samningum sem lagabreytingarnar áttu sér stað. Þannig á auðvitað að vinna, hæstv. fjmrh. Þannig á að vinna. Það á að reyna að ná samkomulagi við fólk og virða mannréttindi. Það á að auka félagsleg réttindi en ekki að skerða þau eins og hér hefur komið fram. Ég nefndi aðeins áðan hvaða afleiðingar frv. muni hafa ef það verður að lögum. Ég hygg að það sé alveg ljóst að í komandi kjarasamningum mun ríkja mikil harka jafnt á almenna vinnumarkaðnum sem hjá opinberum starfsmönnum því auðvitað munu menn reyna að bæta sér upp réttindamissinn með hækkuðum launum. Eins og komið hefur fram í umræðum í kvöld hafa réttindi opinberra starfsmanna alltaf verið metin til launa. Því hefur alltaf verið haldið að opinberum starfsmönnum að ekki væri hægt að bæta launakjör þeirra meira vegna hinna miklu félagslegu réttinda sem þeim væru tryggð með lögum. Nú er verið að afnema sum þessi réttindi og opinberir starfsmenn vildu að sjálfsögðu fá að semja um þau, semja um einhverjar breytingar þar á en það er ekki gert. Þess vegna verður reynt að sækja það með kjarasamningum sem verið er að taka af fólki.

Það sem er svo alvarlegt í þessu frv. og er ekkert hlustað á er að það er verið að svipta ákveðinn hóp ríkisstarfsmanna aftur samningsréttinum. Og ekki bara samningsréttinum með því að gera menn að embættismönnum sem munu heyra undir Kjaradóm og kjaranefnd, aðallega kjaranefnd, heldur er þar með verið að gera önnur félagsleg réttindi þessa hóps að engu. Þar get ég nefnt t.d. prófessora í háskólanum sem sumir hverjir hafa mótmælt harðlega því sem hér er verið að gera með þessu frv. Þetta gildir um ýmsa aðra hópa opinberra starfsmanna sem munu verða í tölu embættismanna að þeir eru sviptir öllum rétti til að hafa áhrif á eigin kjör. Þegar þetta fer saman við þær breytingar sem fyrirhugað er að gera á almenna vinnumarkaðnum þýðir það að mínum dómi að hér verður allt í háa lofti. Það verður allt í háa lofti á vinnumarkaðnum þegar líða tekur á árið og það er alveg ljóst að stéttarfélögin munu að sjálfsögðu bregðast við breytingunum með eðlilegum aðgerðum. Ég get nefnt sem dæmi það sem ég reyndar kom að hér í dag að verkalýðshreyfingin spáir því að það þurfi að gera um 5.000--8.000 viðræðuáætlanir í kjarasamningunum næsta haust og í kringum áramótin til að framfylgja settum lögum. Það geta orðið harðvítug verkföll sem erfitt verður að afboða eftir að settar hafa verið nýjar reglur um hvernig eigi að standa að verkfallsboðun. Það verður áreiðanlega bið á því að menn fari í vinnustaðasamninga eða láti bjóða sér upp á að greiða atkvæði um sameiginlega miðlunartillögu eftir þessa lagasetningu. Það er því alveg ljóst að með öllum þessum aðgerðum og þessum frv. er ríkisstjórnin að setja allt á annan endann. Það er verið að setja vinnumarkaðinn á annan endann. Það getur ekki annað gerst í kjölfar þessarar lagasetningar.

Ég ætla að víkja nánar að einstökum atriðum. Þá ætla ég fyrst að koma að því sem mér finnst skipta mjög miklu máli og það er félagafrelsið og hvernig verið er að traðka á því og verið að grípa inn í innri mál stéttarfélaga og starfsmanna með frv. Það er svo, hæstv. forseti, að félagafrelsið er ekki einungis tryggt í íslensku stjórnarskránni þar sem segir í 74. gr., með leyfi forseta:

,,Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess.``

Í 75. gr. segir: Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.`` Jafnframt segir í þessari grein: ,,Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa.`` Það má kannski minna á að í frv. er gert ráð fyrir að hægt sé að flytja ríkisstarfsmenn á milli starfa milli stofnana ríkisins án þess að þeir hafi nokkuð um það að segja. Ég spyr hvort það standist 75. gr. stjórnarskrárinnar? Félagafrelsið er tryggt í félagsmálasáttmála Evrópu þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Allt verkafólk og vinnuveitendur eiga rétt á að gerast aðilar að samtökum, innlendum eða fjölþjóðlegum, til verndar efnahagslegum og félagslegum réttindum sínum. Allt verkafólk og vinnuveitendur eiga rétt á að semja sameiginlega. Í félagsmálasáttmála Evrópu segir líka í 5. gr. um réttinn til að stofna félög: ,,Í því skyni að tryggja og stuðla að frelsi verkafólks og vinnuveitenda til að stofna staðbundin félög, landsfélög eða fjölþjóðleg sambönd til að gæta hagsmuna þeirra á sviði efnahags og félagsmála og til að ganga í slík félög skuldbinda samningsaðilar sig til að sjá um að landslög skerði ekki það frelsi né að þeim verði beitt til að skerða það. Í landslögum eða reglugerðum skal ákveða að hve miklu leyti trygging sú, sem þessi grein veitir, skuli taka til lögreglunnar. Það skal einnig ákvarðast í landslögum eða reglugerðum að hve miklu leyti tryggingin, sem grein þessi gerir ráð fyrir, skuli ná til manna í herþjónustu.`` Á öðrum stöðum kemur fram að það er ekki heimilt að grípa inn í félagafrelsið nema að slíkt varði öryggi þjóðarinnar, heilsufar eða annað sem er mjög brýnt eins og kemur fram í greinargerðinni með þeim breytingum sem gerðar voru á íslensku stjórnarskránni. Inn í allt þetta er verið að grípa með þessu lagafrv. og frv. um stéttarfélög og vinnudeildur. Það er um óeðlilegt inngrip og afskipti af innri málefnum stéttarfélaga að ræða. Það er verið að taka af ákveðnum hópi réttinn til að stunda þá vinnu sem þeir kjósa og þannig mætti lengi telja. Að mínum dómi er um margfalt brot að ræða og eins og ég nefndi hér áður getur ekki annað gerst en að þetta verði allt saman kært. Þetta verður allt kært, þetta er því miður þess eðlis.

[23:30]

Ég ætla þá að víkja að einstökum efnisgreinum frv. eins og það liggur nú fyrir. Ég hef að vísu komið inn á einstaka atriði í máli mínu. Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um breytingartillögurnar sem hér liggja fyrir því að þær breyta í rauninni afskaplega litlu þó að þar hafi hv. meiri hlutinn í efh.- og viðskn. orðið við ýmsum sjálfsögðum breytingartillögum, ýmsu sem bent var á. En eins og ég nefndi áðan er tilgangur þessa frv. í fyrsta lagi að marka nýja starfsmannastefnu.

Ég er þegar búin að víkja nokkuð að því atriði hvers konar starfsmannastefna þetta er, sem fyrst og fremst gengur út á það að þrengja rétt fólks. Það er auðvitað rökstutt þannig að ríkið þurfi að vera fyrsta flokks vinnuveitandi og að vera fært um að keppa við almennan vinnumarkað um góða starfsmenn. Þetta eru röksemdirnar. Maður spyr sig í fyrsta lagi: Hvernig í ósköpunum dettur frumvarpshöfundum í hug að ríkið geti orðið fyrsta flokks vinnuveitandi með þessum starfsaðferðum? Hvernig dettur mönnum í hug að setja svona fram þegar við horfum á sögu undanfarinna 10 ára og öll þau verkföll sem opinberir starfsmenn hafa gengið í gegnum og þær breytingar sem hér er verið að þvinga í gegn einhliða, hvernig dettur mönnum í hug að menn geti litið á ríkið sem fyrsta flokks vinnuveitanda eftir þessi ósköp? Halda menn að þetta renni svona í gegn þegjandi og hljóðalaust og hafi engin áhrif? Halda menn það virkilega?

Ég spurði hv. formann hv. efh.- og viðskn. að því í dag hvaða áhrif hann teldi að þessar breytingar mundu hafa og það varð fátt um svör. Honum finnst þetta allt gott og blessað, bara harla gott.

Enn eitt markmið þessa frv. er að auka valddreifingu og sveigjanleika í starfsmannahaldi ríkisins. Ég spyr enn og aftur: Hvar er þessi valddreifing? Er það einhver valddreifing að auka sérstaklega vald forstöðumanna, það að forstöðumenn geti borgað fólki einhver extralaun? Er það einhver sérstök valddreifing? Hvernig skilur hæstv. fjmrh. þetta hugtak, valddreifingu? Ég hefði haldið að valddreifing fælist í því að starfsmenn hefðu meiri áhrif á stefnu sinnar stofnunar og það starf sem þar fer fram innan dyra, að menn tali saman, að menn beri saman bækur sínar, að menn taki sameiginlegar ákvarðanir og beri virðingu fyrir skoðunum hvers annars. En það er ekki verið að tala um það. Það er hreint ekki verið að tala um það. Það er bara verið að tala um aukið vald forstöðumanna. Í hverju felst þessi sveigjanleiki í starfsmannahaldi? Hvaða sveigjanleiki er hér á ferð? Ég vildi gjarnan fá skýringu á því. Það er að vísu kveðið á um að það verði hægt að bjóða upp á sveigjanlegan vinnutíma sem er auðvitað góðra gjalda vert. (Gripið fram í: Flutt fólk á milli.) Já, flutt fólk á milli án þess að spyrja það einu sinni að því hvort það vilji það. Það er kannski mikill sveigjanleiki. En þetta er ekkert nema bull, þetta er bara bull. Þetta er bara innantómt blaður og fjas. Það er verið að reyna að draga fjöður yfir það sem raunverulega er verið að gera í þessu frv.

Ég spyr hæstv. fjmrh. --- sem reyndar hefur brugðið sér frá, hæstv. forseti. Hann er væntanlega einhvers staðar í grennd.

(Forseti (ÓE): Forseti gerir ráðstafanir til að hann komi.)

Ég spyr hann: Í hverju felst þessi sveigjanleiki? Ég vil fá skýringu á þessu. Ég fæ ekki séð að hér sé um neinn sveigjanleika að ræða, nema ef vera kynni þetta með vinnutímann sem ég ætla reyndar að koma að aftur því það er reyndar full þörf á því að skoða betur í ljósi þess sem hefur verið að gerast, hvað þeir eiga við með sveigjanleika í vinnutíma. Eins og sveigjanleikinn hefur verið tíðkaður úti í Evrópu, hefur hann fyrst og fremst falist í því að bjóða fólki eða þvinga fólk til þess að minnka við sig vinnu, fækka störfum. Er það það sem verið er að tala um? Ég vonaðist til þess og skildi frv. þannig upphaflega að það væri ekki meiningin. En eftir allt það sem hér hefur á undan gengið, veit maður ekki á hverju er von.

Enn eitt markmið þessa frv. er að einfalda launakerfið. Ég á bágt með að sjá að sú skipting í hópa opinberra starfsmanna sem hér er boðuð, bjóði upp á einfaldara launakerfi. Það verður hópur ríkisstarfsmanna sem er innan ASÍ og semur við ríkið í gegnum sín stéttarfélög. Síðan verður hópur starfsmanna sem er í BSRB og BHM sem semur beint við ríkið. Síðan er hópur starfsmanna sem heyrir undir Kjaradóm og kjaranefnd. Menn sækjast eftir því sumir hverjir að komast í þann fína flokk því að þeir vona að þeir fái hærri laun út úr því þó þeir hafi reyndar sumir hverjir verið að átta sig á því að þeir væru líka að fórna töluverðum réttindum um leið. Býður þetta upp á einfaldara launakerfi? Þetta er bara jafnmargfalt launakerfi og það hefur verið.

Það er kveðið á um það að Kjaradómur og kjaranefnd eigi að ákveða heildarlaun þess hóps sem þessir tveir aðilar fjalla um, Kjaradómur og kjaranefnd. Með 9. gr. þar sem kveðið er á um þessa launauppbót er vissulega meiningin, nái frv. fram að ganga, að það kerfi sem fyrir er með öllum þessum duldu sporslum verði breytt og það afnumið. Ef það gerist sem er auðvitað af hinu góða, er samt ekki verið að einfalda launakerfi ríkisins. Það verður ekkert gagnsærra með þessu. Það er ekki meiningin að gefa upp hverjir fá hvaða aukagreiðslur. Það er ekki meiningin.

Enn eitt markmiðið sem hér er sett fram snýr að því að auka jafnrétti. Það er auðvitað góðra gjalda vert að minna menn á að þeir eigi að gæta jafnréttis kynjanna bæði við stöðuveitingar og þegar verið er að ákveða launauppbætur. En í núgildandi lögum frá 1954 er kveðið á um að karlar og konur skuli hafa jafnan rétt til starfa og launa hjá ríkinu. Og hver er niðurstaðan? Hver er sú mynd sem við okkur blasir hvað það varðar? Gífurlegt launamisrétti kynjanna hjá ríkinu þannig að svona setningar eru náttúrlega aglerlega innantómar ef þeim er ekki fylgt eftir. Þær þýða ekki nokkurn skapaðan hlut. Hæstv. fjmrh. slær um sig sem riddara jafnréttisins þessa mánuðina og gefur út bæklinga sem er góðra gjalda vert ef því er fylgt eftir með raunhæfum aðgerðum. En aðgerðirnar felast fyrst og fremst í því að það fari fram nýtt starfsmat hjá ríkinu, að störf verði endurmetin til launa, störf kennara, störf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, starfsstúlkna á sjúkrahúsum og annarra hópa sem vinna ábyrgðarmikil og erfið störf en eru mjög lágt launaðir, konur fyrst og fremst. Í því felst jafnréttið. Og að það verði raunhæfar aðgerðir til þess að fjölga konum í ábyrgðarstörfum og að sjá til þess að hlutur kvenna í nefndum á vegum ríkisins verði jafn hlut karla eins og lög kveða á um. Málið felst í því, hæstv. fjmrh., að framfylgja lögum, ekki að setja einhverjar fallegar klausur inn í lög sem er svo ekkert fylgt eftir. Eins og ég var að rekja hér, þá hafa þau lög sem við höfum búið við hingað til, hvort sem það eru jafnréttislögin eða lögin um opinbera starfsmenn eða lögin um jöfn laun karla og kvenna frá 1961 sem voru merkileg og framsækin lög á þeim tíma, einfaldlega engu breytt, sáralitlu breytt.

Ég get rifjað það upp af því að það er orðið áliðið kvölds að launabilið milli karla og kvenna hefur eiginlega ekkert breyst frá því um 1300. Þá var launamunur karla og kvenna um það bil helmingur. Við erum í þeirri stöðu enn þá þegar litið er á heildarlaun, meðallaun. Launabilið er um það bil helmingur. Þarna eru einfaldlega allt önnur lögmál á ferð. Það er allt annað á ferð en einhver lagasetning. Það eru viðhorf og get ég tekið undir það með hæstv. fjmrh. að það þarf að breyta viðhorfum, en það þarf líka að fylgja eftir því sem verið er að samþykkja.

Þetta eru markmiðin sem ég var að rekja hér. Ég spyr aftur: Hvers konar innantómt hjal er þetta? Í hverju felst þessi nýja starfsmannastefna? Í hverju felst valddreifingin og sveigjanleikinn? Hann er ekki í þessu frv., svo mikið er víst. Og ég spyr enn: Hvaðan eru þessar hugmyndir? Eins og fram kom í máli fulltrúa BHM í gærkvöldi, er ástæða til þess að spyrja: Hvar eru tillögurnar um atvinnulýðræði? Hvar eru tillögurnar um aukinn rétt fólks? Erum við virkilega í þeirri stöðu að vera að skerða félagsleg réttindi fólks? Er einhver ástæða til þess? Eru þau svo yfirþyrmandi hér á landi að þau séu að sliga allt okkar þjóðfélag, þessi gífurlegu félagslegu réttindi, samningsréttur, biðlaun, æviráðning? Er þetta svona yfirgengilegt og svo þungt í vöfum og efnahagskerfinu erfitt og samanburðurinn svo ofboðslegur við almenna vinnumarkaðinn að þessu verði að breyta?

Staðreyndin er sú, hæstv. forseti, að við erum langt á eftir þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við hvað varðar félagsleg réttindi. Þó að ég sé ekki mjög hrifin af Evrópusambandinu, get ég samt sagt að öryggi starfsfólks innan Evrópusambandsins er miklu betur tryggt en hér á landi. Uppsagnarákvæði og starfsöryggi fólks er miklu betur tryggt. Hvar eru þær tilskipanir frá ESB? Ekki er verið að ýta þeim í gegn. (Gripið fram í.) Þær hljóta að vera alveg að koma. Það skyldi maður vona. En þegar kemur að atriðum eins og vinnutíma fólks, eins og vinnu barna, eins og rétti launafólks, ráðningarkjörum og fleira slíku sem reyndar tengist líka samskiptum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, nei, þá er ekki hægt að samþykkja þau. Þá er það látið bíða alveg endalaust og von úr viti og þeir í Garðastrætinu eru alveg trylltir yfir þessum tilskipunum og skilja ekkert í frjálshyggjuliðinu úti í Evrópu að láta það líðast að samþykkja svona lagað.

En það vill svo til að viðhorf til vinnandi fólks eru víða allt önnur en hér á landi. Það ríkja mjög undarleg viðhorf hér á landi sem ég veit varla hvaðan eru ættuð. Þau felast í því að vera sífellt að reyna að takmarka áhrif og réttindi vinnandi fólks. Hvers konar hugmyndir eru þetta um lýðræði? Ég átta mig ekki á því hvaðan í ósköpunum þetta er komið.

Ég ætla að víkja að einstökum atriðum þessa frv. eins og full ástæða er til. Ég rakti áðan þessa skiptingu í ríkisstarfsmenn sem er þessi mikla einföldun og sveigjanleiki. Maður spyr sig: Hvaða tilgangi þjónar það að skipta ríkisstarfsmönnum svona upp í flokka? Í rauninni sýnist mér að flokkarnir séu ekki þrír eins og menn hafa verið að tíunda hér. Þeir eru fjórir. Það eru embættismennirnir, það eru þeir sem nú eru starfsmenn ríkisins og eru félagar í BSRB og BHM og síðan eru það þeir sem eru félagar í ASÍ og vinna hjá ríkinu og síðan verða það þeir sem eru nýráðnir hjá ríkinu og njóta ekki þeirra réttinda sem þeir, sem núna starfa hjá ríkinu, munu þó að hluta til halda. En það verður svo mikill munur á réttindum fólks og þess vegna var það sem minni hlutinn í efh.- og viðskn. lagði til að hér yrði farin sama leið og m.a. hefur verið farin í Danmörku, þ.e. að bjóða fólki upp á að velja um réttindastöðu gegn því að fá hærri laun.

[23:45]

Ég ætla aðeins að koma að 7. gr. frv. sem víkur að auglýsingum. Það er eitt af þessum furðulegu atriðum í frv. um að það á að auglýsa sum störf og önnur ekki. Þótt hér hafi verið tekið út það orðalag sem mjög var gert að umtalsefni við 1. umr. um hin minni háttar störf sem ekki þarf að auglýsa, þá er það svo að það ber að auglýsa sum störf í Lögbirtingablaðinu og önnur með öðrum hætti. Eins og þetta hefur verið, og m.a. hefur verið bent á af umboðsmanni Alþingis, hefur sú regla að auglýsa öll störf á vegum ríkisins verið þverbrotin og þess vegna eru menn að sveigja inn á aðrar brautir. En ég vil benda á að í núgildandi jafnréttislögum segir, með leyfi forseta:

,,Ítrekuð verði sú skylda ...`` --- Þetta er reyndar í framkvæmdaáætlun núverandi ríkisstjórnar. --- ,,Ítrekuð verði sú skylda ríkisstofnana að auglýsa allar stöður til umsóknar. Í auglýsingu um starf skal koma fram hvatning til þess kynsins sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein eða hvatning um að konur jafnt sem karlar sæki um starfið.``

Ég spyr: Hvernig kemur þessi stefna ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var á sínum tíma í framkvæmdaáætlun um jafnréttismál heim og saman við það sem er svo verið að ákveða í þessum lögum um að auglýsa sum störf og önnur ekki? Hvaða ástæða er til þess að auglýsa ekki öll störf og gefa fólki kost á að sækja um störf?

Það hefur mikið verið rætt um 9. gr. þessa frv. og ég ræddi það töluvert við 1. umr. Þar er kveðið á um rétt forstöðumanna til þess að ákveða aukagreiðslur. Sú breyting hefur reyndar orðið á að þetta nær ekki til embættismanna. Þeir eiga einfaldlega að sæta dómi Kjaradóms eða kjaranefndar. En eftir stendur þetta atriði sem er afar umdeilt. Að sumu leyti get ég tekið undir að það er við lýði kerfi sem er algerlega óalandi og óferjandi og býður upp á mjög mikla mismunun. En það eðlilega er auðvitað að stokka upp launakerfi ríkisins, gera það gagnsætt og einfalt og tryggja jafnrétti kynjanna í gegnum kjarasamninga og nýtt starfsmat í stað þess að vera með aukasporslur af þessu tagi. Það einfaldasta og besta er auðvitað að vera laus við slíkt.

Varðandi 12. gr. kom það nokkuð til umræðu í hv. efh.- og viðskn. að í nefndaráliti yrði þessi grein skýrð, en þar er kveðið á um veikindarétt og fæðingarorlof. En það er ekki orð um hana í nefndarálitinu. Það er mjög auðvelt að misskilja það sem hér er á ferð en þeir höfundar frv. skýra athugasemdirnar með greininni með því að nú nái lögin til félagsmanna í ASÍ og þar með er verið að telja almannatryggingalögin upp í því samhengi. En síðan er tekið fram í ákvæði til bráðabirgða að núverandi réttindi haldi sér nema um annað verði samið. Þetta er afar óljóst og ég hygg að hægt sé að túlka þessa grein með þeim hætti að það sé ekki ótvírætt að þessi réttindi haldist. Þess vegna hef ég, hæstv. forseti, lagt fram brtt. við þessa grein. Að mínum dómi er sérstaklega varðandi fæðingarorlofið um afar mikilvæg ákvæði að ræða og ég ætla að nýta mér þann rétt að mæla fyrir þeirri tillögu í seinni ræðu minni hvenær sem hún verður flutt.

Ég ætla að reyna að stytta mál mitt, en það er auðvitað ástæða til að fara mjög ítarlega í einstök atriði. (Gripið fram í: Bara í alla nótt, það er allt í lagi.) Nóttin er ung, segja þingmenn, og vilja sitja áfram. Það er hægt að fara mjög ítarlega út í mörg atriði sem hafa verið gagnrýnd í þessu frv. og ég vil ítreka spurningu mína til hæstv. fjmrh. varðandi 13. gr. frv. um hans skilning á hugtakinu ,,sveigjanlegur vinnutími``. Hver er skilningurinn? Er hann sá fyrst og fremst að það eigi að bjóða upp á hlutastörf og þar með hugsanlega að fækka störfum hjá ríkinu eða er hann fyrst og fremst sá að vinnutími geti verið sveigjanlegur yfir daginn? Reyndar er í brtt. kveðið á um að þessu fylgi það að þessi sveigjanlegi vinnutími megi ekki trufla þjónustu viðkomandi stofnana. Auðvitað getur það ekki verið tilgangurinn með slíkum greinum, en hver er hugsunin? Eftir það sem á undan er gengið er eins gott að fá það fram hvað verið er að tala um.

Þá vík ég að 17. gr. þar sem kveðið er á um skyldu opinberra starfsmanna til þess að vinna yfirvinnu. Þar er reyndar um örlitla breytingu að ræða á núgildandi lögum þar sem dregið er úr þessari vinnuskyldu vegna tilskipunar ESB. Hér er þó verið að taka aðeins tillit til slíkrar tilskipunar. En hvað er það sem réttlætir að opinberir starfsmenn séu skyldaðir lögum samkvæmt til þess að vinna yfirvinnu? Hvers vegna á sú regla að gilda um opinbera starfsmenn og hvernig kemur það heim og saman við það markmið þessa frv. að samræma þau lög sem gilda um opinbera starfsmenn og þær reglur sem gilda á almennum vinnumarkaði? Þetta er að mínum dómi alger forneskja og ætti að sjálfsögðu að afnema.

Ég ætla reyndar að sleppa því að fara sérstaklega í þau mál sem víkja að því ef fólk hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi. Það er auðvitað atriði sem kallar á alveg sérstaka skoðun hvernig menn ætla að meta það. --- Forseti. Mér þykir vera skvaldur í salnum.

(Forseti (ÓE): Hafið hljóð í salnum.)

Þá kem ég að 22. gr. þar sem kveðið er á um það hverjir teljist embættismenn. Þar hefur gengið á ýmsu og í rauninni lít ég svo á að mál Háskóla Íslands, prófessora og annarra starfsmanna Háskóla Íslands sé óafgreitt. Þar ruku einhverjir upp til handa og fóta og vildu komast í hóp embættismanna eða vera áfram flokkaðir sem embættismenn hjá ríkinu. En það kemur fram í bréfum frá Félagi háskólakennara, reyndar ítrekað, að sú breyting sem verður með þessum lögum mun raska framgangskerfi háskólans. Í bréfi sem dags. er 6. maí frá Félagi háskólakennara segir, með leyfi forseta:

,,Verði frumvarp til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ásamt frumvarpi til laga um breytingar á sérákvæðum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem fylgir því, óbreytt að lögum, mun framgangskerfi háskólakennara verða lagt í rúst en slík einhliða breyting á lögum háskólans mun hafa víðtæk áhrif á kjör háskólakennara til hins verra en fullyrt hefur verið að ný lög eigi ekki að breyta kjörum ríkisstarfsmanna.`` Síðar segir, með leyfi forseta: ,,Nú er gert ráð fyrir að prófessorar verði embættismenn í skilningi áðurnefnds frv. og jafnframt að dósent geti ekki fengið framgang til embættis prófessors samkvæmt 147.--148. gr. fyrrnefnds fylgifrumvarps. Félag háskólakennara mótmælir því að framgangskerfi háskólans verði eyðilagt eins og mun gerast með þessari breytingu.`` --- Ég bíð eftir því að heyra frá ýmsum þeim starfsmönnum háskólans, m.a. prófessorum, sem hafa verið að átta sig á þeirri réttindasviptingu sem þeir verða fyrir, þeim félagslegu réttindum sem þeir missa við þessa breytingu.

Annar hópur sem hefur verið til sérstakrar skoðunar og er bætt inn í þennan hóp eru prestar og prófastar. Í rauninni hygg ég að það verði reiknað með því að það gildi um þá sérstök lög, þeir teljist embættismenn í skilningi laga en verði undanþegnir þessari fimm ára reglu sem verið er að setja. Það gerist þó eingöngu með því að það verði sett sérlög. Hér hefur fyrr í dag verið rakið það bréf sem formaður Prestafélagsins sendi efh.- og viðskn. þar sem hann rakti fyrir nefndinni hvernig okkar kirkjuskipan er til komin allt frá Ágsborgarjátningunni og kirkjuskipan Kristjáns III. Það verður auðvitað að viðurkenna þá sérstöku stöðu sem kirkja og prestar hennar hafa í ljósi þess samnings sem gerður var 1907 og því er eðlilegt að taka sérstakt tillit til þeirra og líta ekki á presta sem hverja aðra embættismenn. Það kallar á sérstaka lagasetningu að þeirra staða verði tryggð, enda telja prestar að þeir þyrftu hugsanlega að sæta því að verða vikið frá störfum eða þurfa að skipta um brauð á fimm ára fresti. Það gengur þvert á hugsun þeirrar kirkjuskipunar sem við búum við og köllun kennimanna eins og það er kallað. Þarna eru því stórir hópar sem þarf að skoða betur og að tryggja með lögum.

Aðeins varðandi þá reglu um að skipa menn tímabundið til fimm ára. Ég get tekið undir að það er nauðsynlegt hjá ríkinu að tryggja ákveðna hreyfingu á starfsmönnum og að ríkiskerfið geti losið sig við, ef þannig má að orði komast, fólk sem reynist óhæft í starfi. En það er spurning hvort hér sé ekki of langt gengið og að hér fái ráðherra og hugsanlega forstöðumenn stofnana þvílíkan rétt til þess að víkja fólki frá að það geti varla talist réttlætanlegt. Hér er um mikið vald að ræða sem menn geta beitt ef þeim líkar ekki við viðkomandi embættismann.

Menn hafa líka bent á það í umsögnum sem borist hafa að ákveðin festa í embættismannakerfinu er líka nauðsynleg eins og reyndar annars staðar og auðvitað er engin ástæða til þess að víkja fólki frá störfum nema brýnar ástæður kalli á það.

[24:00]

Stóru málin í þessu frv. er það sem snýr að biðlaunarétti, að æviráðningu, eða ráðningarfestu eins og það er kallað, sem margir hópar verða sviptir með þessum lögum. Það er starfsöryggi opinberra starfsmanna í heild og það eru mál eins og fæðingarorlofið og veikindaréttur sem að mínum dómi er hægt að mistúlka út frá þessu frv. Í stað þess að tryggja þann rétt með lögum er honum vísað til kjarasamninga meðan aðrar stéttir búa við lög hvað það varðar. Þetta eru allt saman gríðarlega stór atriði og ég ítreka að hér er verið að svipta fólk réttindum sem hefur verið kveðið á um í lögum. Það getur munað fólk miklu hvort sem það er um biðlaun að ræða, ef veruleg breyting verður á starfi, sérstaklega ef ríkisstofnunum er breytt yfir í hlutafélög og það getur orðið veruleg breyting á fæðingarorlofi þannig að við erum að tala um réttindi sem skipta miklu máli.

Niðurstaða mín af öllu þessu er sú að við hljótum að spyrja: Hvað er verið að gera í raun og veru? Hvað er verið að gera með frv.? Hvaða afleiðingar mun það hafa? Þetta eru þær stóru spurningar sem við stöndum frammi fyrir og svar mitt er það að hér er verið að ryðja brautina fyrir einkavæðingu og fyrir breytingar í ríkisrekstri sem á ekkert skylt við nýja eða jákvæða stjórnunarhætti og það er verið að sauma að stéttarfélögunum í landinu. Það er það sem er verið að gera, svipta fólk réttindum og sauma að stéttarfélögunum. Hvers vegna? Hafa stéttarfélögin þvílíkt vald og þvílík áhrif að ástæða sé til? Geta menn ekki horfst í augu við þau lög sem hafa verið samþykkt í landinu og þá alþjóðasáttmála sem við höfum staðfest sem tryggja félagafrelsi og rétt fólks til þess að berjast fyrir bættum kjörum? Geta þessir stjórnmálamenn, sem tilheyra Sjálfstfl. fyrst og fremst og framsóknarmennirnir sem þegja, ekki horfst í augu við þessar staðreyndir? Ég spyr enn og aftur, hæstv. fjmrh.: Hver er tilgangurinn með þessum breytingum?

Ég þykist hafa rakið það að þessar breytingar eiga ekkert skylt við það sem kallað er nýr stjórnunarstíll eða einhverja nýja jákvæða starfsmannastefnu. Hver er sú starfsmannastefna? Hvar er þessi sveigjanleiki sem verið er að boða? Hann er hvergi sýnilegur og nú ætla ég að fara að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar lagafrv. sem mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Hér er verið að vinna að margháttuðum breytingum á íslensku samfélagi sem núverandi stjórnarflokkar hafa ekkert umboð til þess að gera. Þeir hafa ekki sótt umboð til kjósenda til þess að gera þær breytingar sem verið er að boða. Það er langt í frá. Enda þótt hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hafi sagt það í dag að hann teldi sig hafa umboð frá kjósendum sínum og teldi að þeir mundu sætta sig við vinnubrögð hans og gerðir, þá var ekkert þessu líkt boðað fyrir kosningar, ekkert. Þó að það hafi verið að finna í stefnuskrá Sjálfstfl. á undanförnum árum einhverjar slíkar klausur hefur ekkert komið fram sem boðaði allar þær miklu breytingar sem hér er verið að gera.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. segir, með leyfi forseta: ,,Eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar er að endurskoða vinnulöggjöfina með það að markmiði að stuðla að stöðugleika, ábyrgð samningsaðila og auknum áhrifum einstakra félagsmanna í stéttarfélögum.`` Það er búið að rekja það í kvöld margsinnis að það er verið að setja stöðugleikann í stórhættu með því að setja vinnumarkaðinn allan á annan endann. Væri gott að meiri hlutinn héldi fund með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, ekki síst ASÍ og félögum opinberra starfsmanna, til að heyra í þeim hljóðið núna og hvað þeir eru að boða á næstu mánuðum því það er ekkert lítið. Menn ætla að bregðast við. Þessu verður ekki tekið þegjandi og hljóðalaust. Það er alveg ljóst. Það er verið að stefna stöðugleikanum í stórhættu. Hvers vegna, hæstv. fjmrh.? Hvers vegna? Er það að þrengja að stéttarfélögunum mikilvægara en það efnahagslega jafnvægi sem hefur náðst, það sem launafólk hefur greitt dýru verði og reyndar má deila um hverju hafi skilað? Er það virkilega mikilvægara fyrir Sjálfstfl. að troða upp á þjóðina þessum nýsjálensku hugmyndum og hugmyndum frá Margréti Thatcher og John Major? Það var rétt einn fulltrúinn í heimsókn í boði hæstv. fjmrh. sem var að kynna einkavæðinguna í Bretlandi. Það eru ær og kýr hæstv. fjmrh. að kynna sér þessar hugmyndir og reyna að koma þeim í framkvæmd. Það er verið að troða þessu upp á þjóðfélagið án þess að nokkrar umræður hafi átt sér stað. Það er verið að gera breytingar á öllum leikreglum vinnumarkaðarins þvert á vilja annars aðilans og slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Eins og segir í stefnuyfirlýsingunni: að auka áhrif einstakra félagsmanna í stéttarfélögum. Það er á öllum vígstöðvum verið að draga úr valdi og áhrifum, hvort sem við lítum á kennara framhaldsskólanna, opinbera starfsmenn yfir höfuð eða félagsmenn í almennum verkalýðsfélögum.

Við fáum kannski tækifæri til þess að ræða í næstu viku um frumvarpið um stéttarfélög og vinnudeilur þó að ég voni svo sannarlega að hæstv. félmrh. hafi vit á því að draga þá vitleysu til baka því að það stendur ekki steinn yfir steini í því frv. og mun einnig kalla á margfaldar kærur. Það er orðið ansi hart ef Íslendingar þurfa að standa í stöðugum kærumálum úti í Evrópu. Það þarf stöðugt að leita til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eða Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins vegna þessarar vitleysu og þeirra forneskjulegu hugmynda sem verið er að reyna að troða upp á samfélagið og sem flestir hafa hafnað, hæstv. félmrh. Það er að vísu einhver sértrúarhópur í sambandi við John Major og á Nýja-Sjálandi en ef hæstv. fjmrh. mundi t.d. fylgjast með umræðum í Bandaríkjunum um efnahagslífið, um stjórnunarhætti, um hlutverk hins opinbera þá kæmist hann að því að þar eru allt aðrar hugmyndir á ferðinni. Það er verið að hjakka í einhverju fari. Þetta er eins og oft hefur komið í ljós, Íslendingar eru 10--20 árum á eftir tímanum, nánast sama í hverju sem er. Hér er verið að troða hugmyndum upp á okkur sem hafa reynst illa annars staðar og menn hafa verið að snúa frá. Þá er verið að reyna að troða þessu upp á okkur og það á eftir að hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Það er alveg augljóst mál að þetta á eftir að hafa alvarlegar afleiðingar og þetta á eftir að spilla starfsmannahaldi og vinnuanda hjá ríkinu í stað þess að bæta hann eins og var yfirlýstur vilji hæstv. fjmrh. Þetta gengur allt í þveröfuga átt og ég skora á hæstv. fjmrh. að stöðva málið hér og nú, draga það til baka leita samráðs og samninga við opinbera starfsmenn því að rétt eins og hægt var að semja við þá um breytingar 1986 þá er áreiðanlega hægt að gera það núna. Ríkisvaldið og stofnanir ríkisins gegna svo miklu hlutverki í samfélagi okkar, og nægir þar að vísa til skólakerfisins og heilbrigðiskerfisins, að hæstv. fjmrh., hæstv. félmrh. og þessi ríkisstjórn hafa ekki leyfi til þess að vinna þau skemmdarverk sem hér er verið að vinna.