1996-05-08 00:12:05# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[24:12]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. gerði töluvert úr því að þetta yrði allt saman kært vegna þess að þetta frv. og fleiri sem hún rakti mundu ekki standast þá alþjóðlegu samninga sem við höfum gert. Það er hluti af þeim réttindum sem við höfum samið um og samþykkt á Alþingi, m.a. með EES-samningnum, að Íslendingar fá með þeim samningum ákveðin réttindi. Það er alveg sjálfsagt mál ef einhver telur að brotið sé á rétti sínum að hann láti á það reyna. Ég hygg hins vegar að þetta muni standast þá alþjóðlegu samninga sem við höfum gert og stend að því á þeim forsendum.

Annað sem mér þótti athyglisvert í ræðu hv. þm. er að hún taldi að stóru málin væru tvenns konar. Annars vegar væri það fæðingarorlofið og veikindarétturinn og hins vegar væru það biðlaunin og æviráðningin. Þetta væru stóru málin svo að ég vitni orðrétt í hv. þm. sem meitlaði þessi orð í huga minn. Það er bara ekkert að gerast, hvorki er verið að hrófla við fæðingarorlofi né veikindarétti.

Varðandi biðlaunin er öll takmörkunin sú að það er ekki verið að hrófla við biðlaunarétti þess sem fær ekki vinnu þegar starfslok verða eða þegar honum er sagt upp starfi. Hins vegar eru dregin frá laun sem hann fær í öðru starfi eða hann tekur við eftir að búið er að leggja niður stöðu, jafnvel hjá sama aðila eftir einungis formbreytingu. Þetta er allt og sumt sem er stóra málið. Og æviráðningin. Mér fannst að hv. þm. væri harla skotin í því að afnema æviráðninguna.