1996-05-08 00:14:23# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[24:14]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Í augum opinberra starfsmanna, margra hverra, er það sem kallað er æviráðning, þ.e. starfsöryggi, mjög mikið og stórt mál og það er hlutur sem á að semja um. Ef menn vilja breyta því þá á að semja um það, ekki að gera einhliða lagabreytingar.

Ég rakti það áðan að þegar maður reynir að rekja sig í gegnum frv. varðandi 12. gr., sérstaklega það sem snýr að fæðingarorlofi, má mistúlka það enda var margoft talað um það í nefndinni að skýra í nefndaráliti hvað fælist í þessari grein. Það var ekki gert. Það var ekki gert. Það er vísað til samninga. Það eru ýmsir sem túlka þessa grein á þann veg að það sé verið að setja þennan rétt í uppnám.

Varðandi biðlaunaréttinn, þá verður ekkert fram hjá því horft og það kemur greinilega fram í sjálfu frv. að það er verið að svipta ákveðinn hóp opinberra starfsmanna biðlaunarétti. Það er algerlega skýrt. Við erum bara ekki að tala um þá, hv. þm., sem eru núna opinberir starfsmenn. Við erum líka að tala um réttindi þeirra sem verða opinberir starfsmenn. Hér er yfirlýstur tilgangur frv. að ríkið geti keppt við almennan vinnumarkað um starfsfólk. Hvar verða launauppbæturnar fyrir þessi réttindi sem gera ríkið þá að vinsamlegri og betri vinnuveitanda? Og varðandi kærur, þá kærum við annaðhvort til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eða Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins. Þessi mál heyra ekki undir EES-samninginn.