1996-05-08 00:19:46# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[24:19]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá mál, fyrir utan það að ég vísa auðvitað á bug því sem hv. þm. talaði almennt um frv. Ég kem að því síðar í þeirri ræðu sem ég þarf að flytja við þessa umræðu.

Ég vil í fyrsta lagi segja að þegar talað er um sveigjanlegan vinnutíma, er auðvitað átt við það að menn geti breytt út frá þeim vinnutíma sem ákveðinn er hverju sinni. Það er ekki verið að tala um hlutastörf, heldur að það sé hægt að taka tillit til aðstæðna eins og heimilisaðstæðna eða annarra aðstæðna og að færa til vinnutímann í samstarfi við stjórnandann á hverjum stað án þess að það bitni á þjónustunni.

Í öðru lagi vil ég láta það koma fram að bandormurinn er ekki afgreiddur og það eru fjöldamörg mál þar sem þarf að skoða. Frá mínum bæjardyrum séð er ekki nauðsynlegt að rjúfa sambandið á milli t.d. dósenta og prófessora eins og gert er í bandorminum. Það liggur fyrir texti þar. Það er ekki nauðsynleg afleiðing af þessu frv. sem við erum að ræða hér því að sérlögin gilda þessu frv. framar. Það mál þarf að skoða og það verður skoðað áfram eins og önnur atriði í því frv.

Í þriðja lagi varðandi auglýsingar, þá verður hv. þm. að hafa það í huga að hluti af þeim starfsmönnum sem nú er verið að tala um eru í ASÍ. Þau störf sem þeir hafa stundað hafa aldrei verið auglýst, hvorki fyrr né síðar og meira að segja stór hluti starfa sem heyra undir opinbera starfsmenn hafa heldur ekki verið auglýst löglega í Lögbirtingablaðinu. Það er lagaskylda og það hefur verið vikið að því af hálfu umboðsmanns Alþingis og það er verið að gera þessar reglur skýrari. Ég held að flestir séu sáttir við það.

Loks vil ég víkja að fæðingarorlofinu og segja að ef eitthvað er betra í þessu frv. --- vegna þess að það er búið að taka orðið konur sérstaklega út úr frv. Nú segir: ,,starfsmenn`` þannig að það er opnað fyrir það að karlmenn geti átt aðild að fæðingarorlofi. Ég kem vonandi að því hér á eftir. (Gripið fram í: Bakkað niður á við.) Nei, það hefur ekkert verið minnst á það.

Loks ætla ég að segja þetta: Það hefur ekki verið minnst á að ASÍ-mennirnir eru að fá aukinn rétt, þar á meðal biðlaunarétt, þeir sem nú eru í starfi. Á að lækka launin þeirra fyrir það? Á að lækka launin þeirra?