1996-05-08 00:25:52# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[24:25]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli þessum síðustu orðum hæstv. fjmrh. Ég veit ekki betur en öll þessi réttindi hafi alltaf verið tíunduð sem mikilvæg og merkileg réttindi opinberra starfsmanna og hafa verið talin hluti af heildarkjörum þeirra. Þetta hefur alltaf verið notað sem rök til þess að halda niðri launum. Ég hef að vísu ekki sjálf tekið þátt í þessum samningaviðræðum og veit ekki hvað nákvæmlega hefur verið tíundað þar á undanförnum árum. En meðan ég var opinber starfsmaður í skilningi laga, var þetta alltaf tíundað. Ég gekk í gegnum verkföll og átök þannig að maður vissi alveg um hvað var verið að tala.

Varðandi biðlaunaréttinn. Biðlaunaréttur opinberra starfsmanna hefur eftir því sem ég hef skilið hann alltaf verið metinn til réttinda og launa. Þar af leiðandi hafa opinberir starfsmenn verið á lægri launum. Laun ASÍ-fólks hafa verið metin öðruvísi. Það hefur ekki haft þennan rétt og þess laun eru metin öðruvísi. Ég veit ekki hvaðan hæstv. fjmrh. hefur það að þessi réttindi opinberra starfsmanna, biðlaunarétturinn þar með talinn, séu ekki hluti af kjörum opinberra starfsmanna. Hvaðan hefur hæstv. fjmrh. þetta? Ég mótmæli þessu. (Fjmrh.: Hann kannski þekkir aðeins til málsins. Sá er munurinn.)