Nýting innlendra plantna til iðnaðarframleiðslu

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 13:44:42 (5773)

1996-05-08 13:44:42# 120. lþ. 133.1 fundur 378. mál: #A nýting innlendra plantna til iðnaðarframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[13:44]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd núverandi og fyrrverandi umhvrh. þakka þau hjartnæmu orð sem hér voru flutt af hv. þm., raunar af svo mikilli innlifun að það var engu líkara en hv. þm. væri um það bil að gefa kost á sér í framboð til forseta Íslands eins og nú er mjög í tísku. Ég þakka honum jafnframt fyrir það að hann fór ekki með hina gömlu vísu Fljúga hvítu fiðrildin. En það kom hins vegar fram í máli hv. þm. að hann hefur í æsku sinni lagt stund á það að tína grös á heiðum og má vel vera að hér sé nú komin eins konar nútíma Grasa-Gudda Alþb. Eigi að síður þakka ég honum þann skilning sem kom fram í hans máli. Miklu fremur þakka ég þó hæstv. umhvrh. fyrir það með hvaða hætti hann bregst við þessu, þ.e. það kom fram í máli hæstv. ráðherra að hann hyggst setja á stofn hóp til að kanna umfang þessa máls og hvort nauðsynlegt sé að bregðast við þessu með einhverjum hætti. Ég er alveg sannfærður um að þetta mál er ekki komið á það stig að það sé nein sérstök hætta búin íslenskum blómplöntum vegna þessarar nýtingar núna. En ég er jafnsannfærður um að á allra næstu árum mun ásóknin í þessa dýrmætu auðlind vaxa. Þess vegna er nauðsynlegt núna að taka í taumana.

Það liggur ljóst fyrir að það er ekki hægt að beita þeim ákvæðum náttúruverndarlaga sem heimila Nátturuverndarráði að fenginni staðfestingu umhvrrn. friðlýsingu. Það er ekki verið að óska eftir því að þessar jurtir séu friðlýstar. En það er verið að óska eftir því að lagður sé grunnur að því að hægt sé að hafa stjórn á tínslu innlendra blómplantna. Þær eru sérstakar og þær eru takmörkuð auðlind og þar þurfum við að ganga um af miklu hófi.