Bætur fyrir tjón af völdum arna

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:00:20 (5779)

1996-05-08 14:00:20# 120. lþ. 133.2 fundur 499. mál: #A bætur fyrir tjón af völdum arna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:00]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Ég vil, hæstv. forseti, eins og hv. 8. þm. Reykv. þakka fyrir þessa þjóðlegu og skemmtilegu umræðu. Það er nefnilega ekki oft sem við höldum svona þjóðlegar og skemmtilegar umræður í hæstv. Alþingi. Það er oftar að við erum að þrefa um einhver leiðinleg mál. Ég þakka fyrirspyrjanda aftur fyrir að vekja máls á þessu. Það er kannski of mikið sagt að kalla þann sem hér stendur arnarbónda, en e.t.v. ber hann þó einhverja ábyrgð á þeim búsifjum sem örninn kann að valda þó að ég vilji ekki á þessu stigi viðurkenna neina bótaábyrgð eða bótaskyldu af hálfu ríkisins eins og áður hefur komið fram í svari mínu. En það er nauðsynlegt að fara vel yfir skýrslur og upplýsingar sem fyrir liggja. Eins og ég gat um áðan, hafa umhvrn. og landbrn. verið að fjalla um þessi mál sín á milli og reyndar í samráði við Bændasamtökin líka og beðið Bændasamtökin eða æðarbændur og þá hlunnindaráðunaut Bændasamtakanna sem vinnur með æðarbændum, að koma með hugmyndir eða tillögur um það hvernig megi við bregðast.

Með nýjum lögum um verndun, friðun og veiðar villtra spendýra og fugla er mögulegt að taka e.t.v. öðruvísi á málum en var áður og sjálfsagt að skoða hvað kann að vera mögulegt í því efni.

Ég tek þó aftur að lokum undir orð hv. 8. þm. Reykv. að það er auðvitað nánast útilokað að ætlast til þess að tjón sem verður af völdum dýra sem eru friðuð sé bætt eða sé bótaskylt af hálfu ríkisins. Hv. fyrirspyrjandi nefndi í því sambandi t.d. skúminn sem er alfriðaður. Mér hafa nýlega borist upplýsingar um að hann valdi einnig tjóni í æðarvarpi. Í morgun kom í viðtalstíma til mín ágætur refaveiðimaður af Vestfjörðum sem hefur stundað refaveiðar á Ströndum um áratuga skeið. Þar er nú friðland á Hornströndum og refir ekki veiddir. En hann fullyrðir að þeir séu nú farnir að valda umtalsverðu tjóni í nágrannahéruðum því að refurinn heldur sig ekki bara á Hornströndum.