Sala íslenskra hesta til útlanda

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:03:19 (5780)

1996-05-08 14:03:19# 120. lþ. 133.3 fundur 495. mál: #A sala íslenskra hesta til útlanda# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi GÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:03]

Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Íslenski hesturinn á sér aðdáendur um víða veröld. Nú munu vera til um 80 þúsund hross hér á landi og talið er að álíka fjöldi sé til erlendis í hinum ýmsu þjóðlöndum.

Hingað koma árlega hundruð og þúsundir erlendra gesta á stórmót hestamanna svo sem landsmótin. Enginn einn aðili dregur jafnstóra hópa hingað og íslenski hesturinn, enda oft nefndur besti sendiherrann. Hér er Mekka þessa snillings og stjórnvöld verða að halda vöku sinni til þess að við ekki töpum frumkvæði í ræktun hestsins. Íslenski hesturinn er sameign þjóðarinnar og styrkir tengsl á milli sveitanna og þéttbýlisins. Það sem veldur því að við kunnum að tapa frumkvæði eru fyrst og fremst ýmsar markaðshindranir, skattar og tollar sem ríkisstjórnir hafa tekið upp í okkar bestu viðskiptalöndum. Síðasta dæmið um hindrun er að Norðmenn tóku upp 50 þúsund kr. sláturskatt á hross og afnámu undanþágu sem áður var í gildi. Þetta gerðist við gildistöku GATT-samkomulagsins. Áhrifin sjást því að salan snarminnkar til Noregs. Í helstu viðskiptalöndum er um að ræða 18--20% toll og ofan á hann leggst virðisaukaskattur þannig að hér er um að ræða álögur í innflutningshöfn 35--40% víðast hvar.

Íslenski hesturinn er ekki kjöt.

  • Hesturinn skaparans meistara mynd
  • er mátturinn steyptur í hold og blóð,
  • sá sami sem bærir vog og vind
  • og vakir í listanna heilögu glóð
  • eins og skáldið orðaði það. Við erum ekki að selja sláturgripi nema á Japan. Við erum að selja hæfileika og gleði. Við erum að selja skepnu sem er hobbí hjá þúsundum fjölskyldna um víða veröld.

    Við eigum bandamenn í viðskiptalöndunum sem vilja lækka þessa gjaldtöku og auðvelda útflutning á íslenskum gæðingum. Því verður ríkisstjórnin að beita sér í málinu, vinna með hagsmunasamtökum hestamanna og taka það upp við ríkisstjórnir viðskiptalanda okkar. Hæstv. landbrh. Salan á íslenska hestinum hefur aukist. Hátt í 3 þúsund hestar seldust á síðasta ári á erlendan markað. Þar fyrir utan er kjötmarkaðurinn í Japan sem hefur gengið mjög vel eins og kemur fram í viðtali við Berg Pálsson, formann Samtaka hrossabænda, í DV í dag. Þar er verið að selja 3.500 hross. Þá er vert að við eigum þarna virkilega möguleika. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað hefur ríkisstjórnin gert eða hyggst gera til að greiða fyrir sölu á íslenskum hestum á erlendan markað?