Umsýslustofnun varnarmála

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:16:25 (5784)

1996-05-08 14:16:25# 120. lþ. 133.4 fundur 381. mál: #A Umsýslustofnun varnarmála# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Umhvrh. fagnaði því fyrir örfáum mínútum hversu þjóðleg umræða færi fram í sölum Alþingis og það væri ekki of oft sem umræða hér væri af því tagi en skjótt skipast veður í lofti því að nú mun einhverjum þykja sem hér hefjist óþjóðlegar umræður í ræðustól Alþingis.

Fyrirspurn mín til hæstv. utanrrh. varðar Umsýslustofnun varnarmála og spurningin er hvað líði framkvæmd þeirrar ákvörðunar sem var líklega tekin á árinu 1994 um að leggja Sölu varnarliðseigna niður en setja á laggirnar sérstaka stofnun, Umsýslustofnun varnarmála sem hefði á hendi verkefni sem áður voru hjá Sölu varnarliðseigna og hefði aðsetur á Suðurnesjum.

Ég reikna með að umræða um þennan flutning hafi orðið til í kjölfar umræðu um að flytja stofnanir út á land og þá ekki síður átti umræða sér stað um það með hvaða hætti mætti styrkja atvinnustig á Suðurnesjum sem var afar slæmt á tímabili og hefur langtímum saman verið verra en á öðrum svæðum landsins og því miður fengið allt of litla athygli. Sú staðreynd hefur fengið of litla athygli. Ákvörðunin laut að því að fyrirtækið flytti. Það þýðir að það starfsfólk sem þar vinnur flyst með eða þá að nýtt verður ráðið. Söluvaran, tæki og dót, yrði ekki eins og í dag flutt til Reykjavíkur og selt þar. Salan færi fram á Suðurnesjum og kaupendur flyttu væntanlega dót sitt sjálfir þangað sem þeir ætluðu að hafa það. Umsvif yrðu væntanlega talsverð og þetta mál yrði innlegg í viðskiptalífið á Suðurnesjum. Það væri til þess fallið að styrkja viðskiptalíf og auka fjölbreytni þar.

Þýðingarmiklir þættir málsins voru þeir að það yrði losað um dýrt húsnæði á Grensásvegi sem ég held reyndar að sé í eigu ríkisins og áform voru um að leigja ódýrara húsnæði og talið að nóg væri af því á Suðurnesjum til þess að flytja starfsemi sem þessa. Áformin voru um að þetta fyrirtæki flytti um sl. áramót. Nú er kominn maí og því spyr ég um hvað líði þessari framkvæmd og nokkrar spurningar til viðbótar því, hvort fallið hafi verið frá flutningi, hvenær verði flutt ef ekki hefur verið fallið frá því. Hver verða umsvifin, hve margir munu starfa, hve margir starfa nú og munu einhverjir bætast við? Fær Umsýslustofnunin ný verkefni og þá hver? Liggur fyrir fjárhagslegur ávinningur ríkisins af flutningi og þá sölu eignar á Grensásvegi, ef það er rétt munað að ríkið eigi þá eign, og hefur ráðherra á reiðum höndum upplýsingar um veltu þessa fyrirtækis?