Umsýslustofnun varnarmála

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:19:39 (5785)

1996-05-08 14:19:39# 120. lþ. 133.4 fundur 381. mál: #A Umsýslustofnun varnarmála# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:19]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Breyting á starfsemi sölu varnarliðseigna var ákveðin með útgáfu reglugerðar í byrjun apríl á síðasta ári um Umsýslustofnun varnarmála. Með þessari reglugerð var sölu varnarliðseigna falið víðtækara verksvið og jafnframt kveðið á um að heimili og varnarþing stofnunarinnar yrði á Suðurnesjum. Hlutverk stofnunarinnar var skilgreint í þremur liðum:

1. Að hafa umsjón með forvali vegna samninga við varnarliðið.

2. Að annast kaup á umfram- og afgangsvörum á varnarsvæðunum.

3. Að hafa milligöngu um kaup á bifreiðum, vélum, tækjum og búnaði.

Fyrsti liður greinarinnar er nýr miðað við fyrri starfsemi Sölu varnarliðseigna en samkvæmt því ákvæði annast stofnunin umsjón á forvali vegna þjónustusamninga fyrir varnarliðið og vegna mannvirkjagerðar á vegum Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins. Frá því að reglugerðin tók gildi hefur Umsýslustofnun varmarmála, Sala varnarliðseigna, annast 15 forvöl vegna þjónustusamninga og tvö forvöl á vegum Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins og hafa um 100 aðilar sótt um þátttöku. Síðasta forval sem Umsýslustofnun varnarmála auglýsti var sunnudaginn 21. apríl og er umfangsmest þeirra forvala sem fram hafa farið. Þar er um að ræða endurnýjun á stóru flugskýli á Keflavíkurflugvelli og er áætlaður kostnaður á bilinu 15--25 millj. Bandaríkjadollara eða um 1--1,6 milljarðar íslenskra króna.

Um meðferð þessara mála er fjallað í 4. gr. þar sem segir að utanrrh. skipi sérstaka sérfræðinganefnd til þess að hafa með höndum forval. Sú nefnd var skipuð og hefur hún starfað í samræmi við reglugerðina.

Önnur starfsemi á vegum Umsýslustofnunar varnarmála og sölu varnarliðseigna hefur farið fram með sama hætti og áður og hefur stofnunin bætt hinu nýja hlutverki við sig án þess að fjölga starfsfólki.

Um flutning heimilis og varnarþings er það að segja að sala varnarliðseigna hefur um langt skeið verið með aðalútsölu sína í Reykjavík og hefur jafnframt haft bækistöð á Keflavíkurflugvelli. Þegar ný reglugerð var sett þar sem kveðið var á um að heimili og varnarþing Umsýslustofnunar varnarmála yrði á Suðurnesjum hafði engin úttekt verið gerð á fjárhagslegri hagkvæmni þess flutnings. Ljóst er að slík hagkvæmnisathugun og nauðsynlegur undirbúningur þarf að eiga sér stað áður en til flutnings kemur enda er gert ráð fyrir að stofnunin skili sértekjum til ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum Alþingis. Forstjóri Umsýslustofnunar hefur í bréfi til utanrrn. og í viðræðum við ríkisendurskoðanda lagt til að slík athugun fari fram.

Rétt er að hafa það í huga að Sala varnarliðseigna skilaði í ríkissjóð á árinu 1995 rúmlega 70 millj. kr. Nafnbreyting verður tekin upp á miðju þessu ári en hingað til hafa forvöl verið auglýst bæði í nafni Sölu varnarliðseigna og Umsýslustofnunar varnarmála. Það má því segja að í öllum meginatriðum sé í dag starfað eftir núverandi reglugerð eða stefnt að því að hún komist í framkvæmd.

Fyrrgreind reglugerð um Umsýslustofnun varnarmála var gefin út með mjög skömmum fyrirvara. Aðaláhersla var lögð á að Sala varnarliðseigna tæki að sér að annast forvöl vegna útboða til að koma til móts við óskir Bandaríkjamanna um kostnaðarlækkun á Keflavíkurflugvelli. Verður ekki annað séð en sú framkvæmd hafi tekist vel.

Undanfarið hefur átt sér stað athugun á öðrum breytingum á stofnuninni og er unnið að því og hefur verið unnið að því í samráði við stofnunina en niðurstöður liggja ekki enn endanlega fyrir. Ég vil í þessu sambandi geta þess að það er varhugavert að líta svo á að breyting á þessari stofnun muni skila mjög mörgum störfum til viðbótar á Suðurnesjum. Það er rangt mat. Önnur atriði skipta þar miklu meira máli enda hefur í utanrrn. á undanförnum mánuðum verið lögð megináhersla á að ná nauðsynlegum samningum við Bandaríkjamenn. Það er á engan hátt fallið frá því að flytja a.m.k. hluta þessarar starfsemi til Suðurnesja ef það reynist hagkvæmt. Það verður gert enda verður þá reiknað með því að ráðuneytið geti staðið undir þeim væntingum sem Alþingi gerir í sambandi við tekjur af þessari starfsemi. Ég vil leggja á það áherslu að slíkt verður ekki eingöngu gert með reglugerð heldur með nauðsynlegum undirbúningi. Hann hefur farið fram og niðurstöður munu liggja fyrir fljótlega en eins og ég sagði áður var þetta fyrst og fremst gert með því að breyta reglugerð án þess að nokkuð annað væri gert.