Umsýslustofnun varnarmála

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:24:52 (5786)

1996-05-08 14:24:52# 120. lþ. 133.4 fundur 381. mál: #A Umsýslustofnun varnarmála# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:24]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. þessi svör sem voru afar fróðleg. Það kemur fram í svari utanrrh. að reglugerð hafi verið sett með stuttum fyrirvara og hvernig það er sett fram má taka sem einhverja gagnrýni um að ekki hafi verið vandað nægilega til málsins. Það eru vangaveltur mínar af orðum ráðherra. En einnig kemur fram að í meginatriðum hafi verið starfað samkvæmt reglugerðinni frá því í apríl í fyrra og sú starfsemi hafi tekist vel og það hafi tekist vel að fela stofnuninni ný verkefni, sem sagt forvöl vegna þjónustusamninga. Ég vek athygli á því hversu stórt verkefni forval var síðast í apríl varðandi stórt flugskýli á Keflavíkurflugvelli. Eftir stendur að það þurfi að vanda mjög til ákvörðunar um það hvort það sé verri kostur að þetta fyrirtæki sé á Keflavíkurflugvelli og það þýði ekki endilega fleiri störf. Ég geri mér alveg grein fyrir því ef það er mat manna að þeir starfsmenn sem þarna eru geti sinnt nýjum verkefnum þurfi ekki að breyta því. En ég vek athygli ráðherrans á því að t.d. þegar menn eru að vekja upp ýmsa hvata til ferðamennsku á hinum ólíku stöðum er það af því að með því eru önnur viðskipti dregin inn í viðkomandi svæði. Það að fólk er á ferð eykur viðskipti á staðnum og ef stofnun af þessu tagi sem bæði annast forvöl þjónustusamninga, sér um innkaup og sölu á tækjum, búnaði, vörum og dóti og fólk er að koma á Suðurnes til að fara í þessa verslunarleiðangra, í stað þess að fara á Grensásveg, þá hefur það veruleg áhrif á viðskiptaumhverfi Suðurnesja óháð því hvort fáir starfsmenn eða fleiri vinna hjá Umsýslustofnun varnarmála.

Nú heyri ég að niðurstaða á að liggja fyrir fljótlega og það verði ekki látið nægja að setja reglugerð heldur verði sett lög. Þinginu er að ljúka og hæpið að lög komi nú fyrir vorið. Ég vek athygli á að reglugerð var sett í apríl fyrir ári og þessi ríkisstjórn hefur setið í rúmt ár og ég harma það að þessi skoðun hafi ekki verið hraðari vegna þess að þetta er verulega mikilvægur kostur fyrir íbúa Suðurnesja eins og hann er settur upp hér.