Umsýslustofnun varnarmála

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:27:37 (5787)

1996-05-08 14:27:37# 120. lþ. 133.4 fundur 381. mál: #A Umsýslustofnun varnarmála# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég átti ekki við að það ætti að breyta lögum. Ég átti við að það er hvorki nóg að gefa út reglugerðir eða breyta lögum til þess að koma málum í framkvæmd. Það þarf að vinna að þeim með öðrum hætti og undirbúa þau. Atvinnurekstur verður ekki fluttur til bara með því að gefa út einhverjar reglugerðir. Og ég segi að það var gert í þessu tilviki. Það þarf eðlilegan aðdraganda og góðan undirbúning, þ.e. ef það á að vera hægt að koma þeim vörum sem þarna er um að ræða í eðlilegt verð og það skili nauðsynlegri niðurstöðu fyrir ríkissjóð.

Ég vil á engan hátt útiloka að þessi starfsemi geti farið fram á Suðurnesjum en það er ekki sama hvernig það er gert og það má alls ekki skilja orð mín þannig að ég hafi á einhvern hátt á móti því. En ég vara við því að verið sé að skapa einhverjar óskaplegar væntingar á Suðurnesjum í þessu máli, að þetta mál út af fyrir sig muni leysa mikilvæg atvinnumál á Suðurnesjum. Ég hef orðið var við það að sá málflutningur er uppi. Það er alveg rétt að hér getur verið um einhver fáein störf að ræða, mjög fá störf að ræða. Það er mjög fátt fólk sem vinnur að þessu inni á Grensásvegi. Ég vara við því að verið sé að skapa einhverjar væntingar í þessu máli og slíkar væntingar á alls ekki að skapa með því að gefa út reglugerð daginn áður en menn fara úr ráðuneytum.