Skoðun ökutækja

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:29:48 (5788)

1996-05-08 14:29:48# 120. lþ. 133.5 fundur 395. mál: #A skoðun ökutækja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:29]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að fylgja úr hlaði fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. Frá því að Bifreiðaeftirlit ríkisins var lagt niður og þjónusta þess gefin frjáls hafa nokkur einkafyrirtæki tekið til starfa og sinna skoðunum bifreiða. Þessi breyting úr Bifreiðaeftirliti ríkisins yfir í hlutafélagaform og að sú starfsemi er gefin frjáls virðist ekki hafa gengið alveg fjandalaust fyrir sig og ýmislegt virðist þar vera á kreiki. Alltént bárust samkeppnsiráði athugasemdir og í áliti nr. 1/1994 kemur fram að samkeppnisráð telur að samkeppnisstaða fyrirtækja á sviði bifreiðaskoðunar sé ójöfn. Það álit er byggt á því að Bifreiðaskoðun Íslands hf., sem mun vera fyrsta fyrirtækið er hóf að starfa á hlutafélagagrundvelli á þessu sviði, mun hafa einkarétt á ýmsum mikilvægum þáttum skoðunar og skráningarferils en sá einkaréttur mun leiða til óhagræðis fyrir samkeppnisaðila, mismununar á milli fyrirtækja og síðast en ekki síst óhagræðis fyrir neytendur.

Bifreiðaskoðun Íslands hf. mun hafa einkarétt á eftirtöldum atriðum: Öllum skoðunum í kjölfar skráninga, afskráningu og endurskráningu ökutækja, sérskoðun torfærubifreiða, sölu á númeraplötum, afklipptar númeraplötur eru sendar til Bifreiðaskoðunar Íslands hf., skráningu eigendaskipta, framleiðslu og sölu skoðunarmiða.

Ljóst má vera af þessari upptalningu að heldur hallar á önnur fyrirtæki þessa sviðs. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að jafna skuli aðstöðumun fyrirtækja. Þá má ljóst vera að hin skerta samkeppni á umræddu sviði skilar ekki til neytenda þeim markmiðum sem sett voru með einkavæðingu bifreiðaskoðunar og skráningar. Því er hæstv. dómsmrh. spurður hvort hann hyggist bregðast við áðurnefndu áliti samkeppnisráðs í átt til jöfnunar á samkeppnisstöðu fyrirtækja á þessu sviði eins og mælst er til reyndar í áliti samkeppnisráðs.