Skoðun ökutækja

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:32:27 (5789)

1996-05-08 14:32:27# 120. lþ. 133.5 fundur 395. mál: #A skoðun ökutækja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:32]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Samkvæmt heimild í umferðarlögum gerðu Bifreiðaskoðun Íslands hf. og þáv. dómsmrh. Jón Sigurðsson, fyrir hönd ríkisins, með sér samning sem gilti til ársloka 2000 um framkvæmd skráningar og skoðunar á ökutækjum. Bifreiðaskoðun skyldi einnig reka ökutækjaskrá samkvæmt þessum samningi. Samningurinn var undirritaður 10. ágúst 1988. Bifreiðaskoðun var ætlað að byggja upp tæknivædda skoðunaraðstöðu í hverju kjördæmi landsins. Þessu marki hefur að mestu verið náð þótt svolítið vanti upp á þá aðstöðu sem að var stefnt á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi.

Mér þótti þegar ég kom að þessum málum ótækt að Bifreiðaskoðun Íslands hefði samkvæmt þessum samningi einkarétt til ársins 2000 á þeim þáttum sem gert var ráð fyrir í samningnum. Ég leitaði þess vegna eftir því við fyrirtækið að samningurinn yrði tekinn upp. En það verður að hafa í huga að hér var um samning að ræða og því ekki unnt að gera breytingar nema í samkomulagi beggja aðila. Í ársbyrjun 1992 var samningi við Bifreiðaskoðun Íslands breytt þannig að fyrirtækið afsalaði sér einkaleyfi á aðalskoðun og endurskoðun ökutækja. Á árunum 1992 og 1993 í kjölfar laga um vog, mál og faggildingu var síðan unnið að gerð reglna um skoðun ökutækja og faggildingu skoðunarstofa til að skoða ökutæki almennri skoðun og endurskoðun. Nákvæmum skoðunarreglum, faggildingu og gæðakerfi sem fylgir faggildingu er ætlað að viðhalda samræmdri og góðri skoðun án mikils ytra eftirlits. Í kjölfar þessa hafa auk skoðunarstofu Bifreiðaskoðunar Íslands hf. tvö fyrirtæki fengið faggildingu til að reka skoðunarstofu. Fljótlega eftir að nýjar skoðunarstofur höfðu hafið starfsemi kom í ljós að stjórnendur þeirra töldu sig ekki hafa jafna samkeppnisaðstöðu og skoðunarstofa Bifreiðaskoðunar Íslands hf. og var sá aðstöðumunur kærður til Samkeppnisráðs.

Samkeppnisráð vakti í áliti sínu 23. ágúst 1994 athygli á og taldi geta orkað tvímælis að ráðuneytisstjóri dómsmrn. væri jafnframt stjórnarformaður Bifreiðaskoðunar Íslands, að skilja ætti að fjárhag skráningarstofu og skoðunarstofu og það gæti rýrt samkeppnisstöðu skoðunarstofa annarra en Bifreiðaskoðunar Íslands að geta ekki boðið upp á allar tegundir ökutækjaskoðunar. Úr þessum ábendingum hefur nú þegar að mestu verið bætt. Ráðuneytisstjóri dómsmrn. hefur látið af störfum í stjórn Bifreiðaskoðunar Íslands hf. og maður utan stjórnkerfis ríkisins tekið þar sæti. Fjárhagur skráningarstofu og skoðunarstofu hefur verið aðskilinn.

Í desember 1994 var skoðunarstofum heimilað að skoða ýmsar sérskoðanir samhliða almennri skoðun. Nú hefur enn verið rýmkað á þessari heimild og er unnið að reglum sem gera kleift að skoðunarstofur geti aflað sér faggildingar á því sviði. Stefnt var að því að reglur þar að lútandi yrðu tilbúnar í byrjun þessa mánaðar en undirbúningur mun dragast um nokkrar vikur en það mál er að komast á leiðarenda. Þá er stefnt að fullum aðskilnaði skráningarstofu og skoðunarstofu Bifreiðaskoðunar Íslands. Faggiltar skoðunarstofur koma þá til með að annast allar skoðanir ökutækja en skráningarstofa annast þá skráningu ökutækja og umsjón ökutækjaskrár. Dómsmrn. er nú í samningaviðræðum við Bifreiðaskoðun Íslands um þetta fyrirkomulag og heildarendurskipulagningu á fyrirtækinu og væntanlega sölu á hlut ríkisins í því.