Skoðun ökutækja

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:36:59 (5790)

1996-05-08 14:36:59# 120. lþ. 133.5 fundur 395. mál: #A skoðun ökutækja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:36]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir skýr og greinargóð svör. Það er margt athyglisvert sem fram kemur í svarinu. Þó finnst mér standa þar upp úr í raun að líta má á þetta sem ágæta dæmisögu. Þetta segir okkur ýmislegt um þær hættur sem kunna að fylgja því að breyta rekstrarformi fyrirtækja úr ríkisrekstri í hlutafélagaform. Ég tel að hæstv. dómsmrh. hafi staðfest að það hafi átt sér stað mistök árið 1988 þegar þáv. hæstv. ráðherra, Jón Sigurðsson, gerir samning til 12 ára, til aldamóta, við eitt fyrirtæki og veitir því þar með afdráttarlausa aðstöðu og í rauninni einkaaðstöðu á þessu sviði.

Það sem skiptir mestu máli er að jafna aðstöðu. Þarna hafa orðið mistök. Ég ítreka að það hafi verið mistök að fela einum aðila þennan forgang sem hér hefur verið lýst og það er ekki tilgangurinn með svonefndri einkavæðingu. Meginatriðið hlýtur að vera að skapa jafnan samkeppnisgrunn. Það skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja ef viðskiptavinur er þvingaður, ef hann fær bara brot þjónustunnar hjá einu fyrirtækinu og er þannig þvingaður til að fara til þess aðila sem forréttindanna nýtur. Það er ekki minn skilningur á ærlegri samkeppni og þess vegna fagna ég því að hæstv. dómsmrh. skuli hafa tekið á málinu. Auðvitað harma ég þann seinagang sem þar hefur orðið en ég skil orð ráðherra svo að tíðinda sé að vænta núna innan fárra vikna. Kostir samkeppninnar eiga að koma fram í bættri þjónustu við neytendur.