Löggæsla í Reykjavík

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:54:40 (5798)

1996-05-08 14:54:40# 120. lþ. 133.7 fundur 507. mál: #A löggæsla í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:54]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Á hverri dagvakt í Reykjavík virka daga starfa 119 lögreglumenn, þar af 26 við stjórnunarstörf, 37 bifreiðar eru í notkun og fjöldi útkalla á hverri vakt varð að meðaltali 80 árið 1995. Á hverri næturvakt virka daga starfa 27 lögreglumenn, þar af níu í stjórnunarstörfum. Átta bifreiðar eru í notkun og fjöldi útkalla á hverri vakt var að meðaltali 40 árið 1995. Á hverri dagvakt um helgar starfa 34 lögreglumenn, þar af níu við stjórnunarstörf, níu bifreiðar eru í notkun og fjöldi útkalla á hverri vakt var að meðaltali 40 árið 1995. Á hverri næturvakt um helgar starfa 66 lögreglumenn, þar af 11 við stjórnunarstörf, 18 bifreiðar eru í notkun og fjöldi útkalla á hverri vakt var að meðaltali 95 árið 1995. Meðal þeirra þeirra sem starfa á dagvakt eru starfsmenn útstöðva, lögreglumenn í grenndarlöggæslu, rannsóknadeildum, forvarnadeild, fullnustudeild, útlendingaeftirliti og öðrum sérdeildum. Fjöldi skráðra verkefna lögreglu er að meðaltali 53 þúsund árlega eða um 1.450 hvern dag ársins. Lögregluskýrslurnar eru um 30 þúsund á ári eða um 820 á dag.

Skipting lögregluliðsins í hverri deild á dagvöktum virka daga er þannig: Í almennri deild lögreglu eru 13 stjórnendur og 37 sem hafa ekki á hendi stjórnunarstörf. Í umferðardeild eru sex stjórnendur og átta hafa ekki á hendi stjórnunarstörf. Í ávana- og fíkniefnadeild eru tveir stjórnendur og 13 sem ekki hafa á hendi stjórnunarstörf. Í tæknideild eru tveir sem hafa ekki á hendi stjórnunarstörf. Í almennri rannsóknardeild er einn stjórnandi og átta rannsóknarar. Í fullnustudeild er einn yfirmaður og 13 sem hafa ekki á hendi stjórnunarstörf. Í forvarnadeild lögreglu eru tveir stjórnendur og fjórir sem hafa ekki á hendi stjórnunarstörf. Í útlendingaeftirliti eru þrír sem hafa ekki á hendi stjórnunarstörf. Í öðrum störfum eru sex lögreglumenn.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Reykjavík er algengasti viðbragðstíminn innan við 10 mínútur. Tíminn er þó mislangur og kemur þar margt til. Frá síðustu áramótum hefur viðbragðstíminn verið skráður sérstaklega í öllum veigamestu útköllunum og unnið er að því að slík skráning verði í öllum útköllum. Í forgangsútköllum er algengur viðbragðstími 2--3 mínútur.

Á árinu 1988 var gert myndarlegt átak í að endurnýja bifreiðaflota lögreglunnar í Reykavík og síðan hefur verið reynt að halda í horfinu með eðlilegri endurnýjun. Ljóst er þó að endurnýjun er ávallt háð fjárveitingum og með auknu aðhaldi í ríkisrekstri hefur þurft að taka rekstur bifreiða fastari tökum en áður. Í því skyni hafa orðið áherslubreytingar í kaupum á lögreglubifreiðum. Dregið hefur verið úr rekstri stórra bifreiða og aksturinn verið færður á minni bifreiðar. Þannig hefur tekist betur en áður að nýta það fjármagn sem varið er til endurnýjunar og reksturs bifreiðaflota lögreglunnar.

Varðandi tækjakost við skýrslugerð er það að segja að embætti lögreglustjórans í Reykjavík hefur að mestu verið tölvuvætt. Skýrslugerð hefur af þessum sökum orðið auðveldari en áður. Tölvur eru þó ekki notaðar að öllu leyti við yfirheyrslur. Eins og kunnugt er gengur tölvubúnaður fljótt úr sér og ljóst er að nokkuð vantar upp á að tölvukostur embættisins sé nú í því horfi að hægt sé að nýta hugbúnað til hins ýtrasta.

Miklum fjármunum hefur á síðustu fjórum árum verið varið til upplýsingakerfa lögreglunnar, þar með talið tölvutækrar dagbókar og kæruskrár á víðneti sem ætlunin er að verði orðið að landskerfi fyrir áramót. Við þessi upplýsingakerfi verður bætt öflugra skýrslugerðarforriti. Ef allt gengur að óskum má reikna með að lögreglan á Íslandi verði innan tveggja ára komin með háþróað upplýsingakerfi sem mun standast fyllilega samanburð við aðrar þjóðir. Gagnabanki sem verður smám saman byggður upp í þessu kerfi kemur til með að veita lögreglunni ómetanlegar upplýsingar og verða til mikils flýtis og hagræðis.

Varðandi tækjakost við lögreglustörf er það að segja að vegna fjölda lögreglumanna í Reykjavík hefur embættið dregist nokkuð aftur úr sumum öðrum embættum. Ýmislegt hefur þó verið gert til að bæta þar úr. Á fjárlögum þessa árs hefur til að mynda verið varið 15 millj. kr. til tækjakaupa og ætlunin er að framhald verði á þeirri fjárveitingu a.m.k. næstu tvö árin. Ætlunin er að verja þessum fjárveitingum til kaupa á þeim tækjakosti sem setið hefur á hakanum að endurnýja hjá embættunum á undanförnum árum og eins til að kaupa ný tæki og áhöld til lögreglustarfa. Mun lögreglan í Reykjavík njóta góðs þar af, t.d. hvað varðar öryggisbúnað ýmiss konar, svo sem skotheld vesti.

Að því er spurt hvort tækjakostur lögreglu sé sambærilegur við það sem tíðkast í öðrum Evrópulöndum. Því er til að svara að tækjakostur lögreglu er sjálfsagt eins misjafnt og Evrópulöndin eru mörg. Segja má að lögreglan hér þurfi að ýmsu leyti á betri og fjölbreyttari búnað að halda en lögregla víða annars staðar. Við lítum hins vegar helst til Norðurlandanna um samanburð og reynum að byggja tækjakost okkar upp í samræmi við það sem best gerist þar. Hvort það hefur tekist að öllu leyti skal ekki fullyrt hér. Ljóst er að þörf er að gera betur á mörgum sviðum, t.d. á sviði fjarskiptamála, og varðandi endurnýjun bifreiða þarf einnig að herða róðurinn nokkuð og hefur verið farið fram á viðbótarfjárveitingar vegna þessa. Umdeilanlegt er hvaða nútímatækjabúnað er rétt að taka í notkun við löggæslu eins og myndavélabúnað til eftirlits sem vitað er að fækkað hefur ofbeldisglæpum verulega þar sem slíkur búnaður hefur verið tekinn í notkun erlendis. Ljóst er þó að löggæsluyfirvöld verða að fylgjast vel með nútímatækjabúnaði, svo lögreglan verði ekki mörgum skrefum á eftir þeim sem standa að afbrotum, e.t.v. með aðstoð hátæknibúnaðar.