Löggæsla í Reykjavík

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:01:58 (5800)

1996-05-08 15:01:58# 120. lþ. 133.7 fundur 507. mál: #A löggæsla í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:01]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. En það hefði verið gott að ná þeim niður. En auk þess sem ráðherra kom inn á og ég talaði um í upphafi máls míns, þá taldi ég ekki upp allan þann fjölda innbrota í bifreiðar og annað sem hafði gerst þessa tilteknu helgi.

Það er hins vegar annað sem slær mig mjög, herra forseti. Það er að í DV í dag er stór fyrirsögn þar sem sagt er að smyglarar hafi fundið nýjar leiðir með fíkniefni í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Með leyfi forseta langar mig til að vitna í viðtal sem er í DV í dag, svohljóðandi:

,,Björn Halldórsson hjá fíkniefnalögreglunni segir að óheppni geti ráðið miklu um að ekkert hefur verið tekið af smygluðum fíkniefnum í hálfan þriðja mánuð. Leiðirnar inn í landið séu eftir sem áður með flugi og skipum. Hins vegar geti verið að smyglararnir hafi fundið nýjar aðferðir við að fela efnin.``

Ég vek athygli á þessu, virðulegi forseti. Hér er fíkniefnalögreglumaður sem segir að það sé óheppni sem geti ráðið miklu um að ekkert hefur verið tekið af smygluðum fíkniefnum í hálfan þriðja mánuð. Mér finnst málið vera alvarlegt. Það hefur líka oft komið fram hjá borgurum þegar þeir hafa verið að tala um þessi mál eins og þau hafa verið að þróast hér í skjóli nætur og myrkurs að það líður allt of langur tími frá því að lögreglunni er gert viðvart um innbrot í bifreiðar og annað sem það verður vitni að þangað til lögreglan kemur. Þess vegna bar ég fram þessar fyrirspurnir.

Það kom hins vegar margt athyglisvert fram hjá hæstv. dómsmrh. sem auðvitað væri full ástæða til þess að taka frekar til umræðu. En vegna þess fyrirkomulags í fyrirspurnatímum sem hér er verður það ekki hægt að sinni. En ég endurtek þakkir til dómsmrh. og vænti þess að fá afrit af þeirri skýrslu sem hann flutti hér.