Löggæsla í Reykjavík

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:04:18 (5801)

1996-05-08 15:04:18# 120. lþ. 133.7 fundur 507. mál: #A löggæsla í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:04]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna þeirrar athugasemdar hv. 5. þm. Suðurl. um að svör hafi ekki verið skýr við þeim fyrirspurnum sem hér voru bornar fram, þá er það ekki rétt því að í svarinu fólust alveg skýr svör við öllum fyrirspurnum sem settar voru fram á fyrirspurnablaði hv. fyrirspyrjanda. En það er hins vegar, herra forseti, nauðsynlegt að vekja athygli á því að fyrirspurnin eins og hún er fram sett rúmast ekki innan gildandi þingskapalaga um það hvaða tíma ráðherrar hafa til svara. Það hefði verið rétt af forseta þingsins að leiðbeina hv. fyrirspyrjanda um það að koma með fyrirspurnina í skriflegu formi ef ætlunin var að grípa þau svör sem hér voru borin fram því að auðvitað verður að svara hér í samræmi við þann tíma sem þingsköp leyfa. Ég vona að hv. þingmenn virði það.

Varðandi spurningar um það hvaða mat liggi fyrir á þörf fyrir löggæslu, þá eru ekki til neinir einhlítir mælikvarðar á slíka þörf og ekki er hægt að mæla hana með tommustokk. Ég hygg hins vegar að við getum fullyrt að það sé með ágætum staðið að löggæslu í höfuðborginni. Það kemur fram í þeim svörum sem hér voru tilgreind varðandi útkallstímann að hann er að meðaltali tíu mínútur og í forgangsútköllum er hann tvær til þrjár mínútur. Auðvitað geta verið tilvik þar sem útkallstíminn er lengri og lögreglan verður vitaskuld að meta það nokkuð eftir eðli mála hverju sinni. En ég hygg að þau svör sem hér hafa verið borin fram sýni að lögreglan bregst mjög skjótt og hratt við þegar þörf krefur.